1.maí ávarp formanns Félags íslenskra rafvirkja
Kæra félagsfólk, til hamingju með baráttudaginn okkar!
Maður fyllist alltaf eldmóði þegar farið er í kröfugöngu 1.maí, hitta félagsfólk og finna kraftinn og samhuginn innan mismunandi hópa launafólks.
Framundan eru krefjandi kjarasamningar þar sem verðbólga er í hæstu hæðum og seðlabankastjóri er jafnvel duglegri en Samtök atvinnulífsins að tala fyrir hófsömum launahækkunum. Fyrirtæki hækka verð í stórum stíl langt umfram launahækkanir og ytri áhrif erlendra markaða. En krafan er alltaf sú sama, að launafólk taki á sig alla ábyrgð!
Við búum okkur undir harða baráttu þar sem gengið verður eins langt og þarf. Það er á hreinu að launafólk tekur ekki á sig alla ábyrgð. Auka þarf kaupmátt, fjölga orlofsdögum, einfalda samninga og útrýma yfirvinnu 1, svo fátt eitt sé talið.
Skýr krafa er á ríkið að koma húsnæðismálum í betra horf og það strax, engin grá loforð sem auðvelt er að svíkja. Hömlum þarf að koma á hækkun vaxta og verður seðlabankinn að taka allt inn í myndina þegar farið er í slíkar hækkanir. Bankarnir þurfa að taka á sig hlut af þessum hækkunum og þá sérstaklega til skamms tíma. Við gerum þá kröfu að samfélagið í heild beri ábyrgð á velferð og kjörum okkar allra, bankar og aðrar fjármálastofnanir eru þar ekki undanþegnar!
Framundan eru spennandi og krefjandi tímar. Samstarf iðnfélaga á Stórhöfða undir merkjum 2F gerir það að verkum að við höfum meira að segja um málefni sem snúa að stjórnvöldum eins og menntun, lögverndun starfsgreina, húsnæðismál o.fl. Einnig teflum við fram sterkari samninganefnd í komandi kjaraviðræðum, með fleiri sérfræðinga okkur til halds og trausts.
Við erum að sigla út úr heimsfaraldri og eftir tveggja ára hlé fengum við loks tækifæri til að fagna baráttudegi launafólks. Ég tel það merki um bjartari tíma. Ég hlakka til að hitta ykkur öll á komandi misserum og takast á við nýjar, og gamlar, áskoranir með ykkur.
Baráttukveðjur,
Andri Reyr Haraldsson
Formaður FÍR