Til hamingju með daginn ASÍ 
Í dag, 12. mars 2021, eru 105 ár liðin frá því að 20 einstaklingar frá sjö verkalýðsfélögum bundust samtökum til að efla samtakamátt sinn í baráttunni fyrir bættum kjörum og Alþýðusambandið varð til.

Á fyrstu árum hreyfingarinnar snérust baráttumálin um að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu í peningum, um hvíldartíma og mannsæmandi mannabústaði. Alla tíð síðan hafa réttindamál af ýmsum toga einkennt starf verkalýðshreyfingarinnar og er nú svo komið að réttindi og aðbúnaður íslensks launafólks er með því allra besta sem þekkist í heiminum. Má þar nefna veikinda- og orlofsrétt, sjúkrasjóði og lífeyrisréttindi. Það má þó ekki sofna á verðinum því stöðugt þurfa stéttarfélögin að verja það sem hefur áunnist auk þess að sækja fram til frekari sigra.