Helga Sigurbjörnsdóttir útskrifaðist sem rafvirki frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 2013 fyrst allra stelpna frá þeim skóla. Hún starfar núna hjá RARIK og segir starfið fjölbreytt og mjög skemmtilegt

Helga segist alla tíð hafa stefnt á verknám en foreldrar hennar eru báðir iðnmenntaðir. Pabbi hennar er bifvélavirki og mamma hennar hárgreiðslumeistari. Hún ákvað að prófa rafvirkjun og heillaðist af náminu.

„Ég vissi bara að ég átti aldrei að fara í smíði því ég kunni ekki að nota hamar og pabbi er að kenna í vélstjóranáminu svo mig langaði ekki að fara þangað,“ segir Helga og hlær.

Að námi loknu byrjaði Helga að vinna hjá Tengli og vann þar til ársins 2016 þegar hún flutti sig yfir í RARIK.

„Þetta eru gjörólík störf. Hjá Tengli var ég að vinna við lágspennu en hitt er allt meira og minna háspenna. Lágspennan er meira að leggja fyrir ljósum innanhúss og þannig. Háspennan er til dæmis að leggja strengi í jörð, setja upp spennistöðvar og fara upp í staura og línuvinnu. Það er það sem ég er að gera núna,“ segir hún.

Helga segir vinnuna vera það skemmtilegasta sem hún hefur gert og hún hlakkar til að fara í vinnuna alla daga.

„Ég finn ekkert við vinnuna sem mér finnst leiðinlegt. Maður er kannski að gera sama hlutinn aftur og aftur en þú ert aldrei á sama stað. Ég hef verið að vinna um allt land, mest á mínu svæði en hef verið í úthaldi á Austurlandi og Norðurlandi eystra. Maður ferðast mjög mikið í vinnunni,“ segir hún.

Vel launað starf

Helga er vön því að vera eina konan í vinnunni en segir að þeim sé þó eitthvað að fjölga.

„Ég er eina konan í vinnuflokki á Norðurlandi vestra, en við erum orðnar fjórar í vinnuflokknum um landið. Það er ein á Vesturlandi og tvær á Suðurlandi. Það hafa líka verið nokkrar sumarstelpur hér og þar um landið en ég var sú fyrsta sem var fastráðin,“ segir hún.

Helga var fyrsta stelpan sem útskrifaðist sem rafvirki frá FNV og hún mælir hiklaust með náminu.

„Þetta er svo góður grunnur fyrir svo margt. Þegar þú ert komin með sveinspróf sem rafvirki þá opnast svo margir möguleikar á öðru námi, eins og tæknifræði, iðntækni eða rafmagnsverkfræði. Þú þarft ekkert að vera rafvirki og vera að skipta um ljósaperu alla daga. Þú getur alveg verið rafvirki sem fer svo í áframhaldandi nám og fer að teikna upp raflagnir í húsin. Þetta býður upp á svo marga möguleika. Svo er þetta bara mjög vel launað starf, að vera rafvirki,“ segir hún.

„Það er líka nóg af störfum í boði. Þetta er ekki eitthvað sem er að fara að deyja út eins og til dæmis margar færibandavinnur. Þetta er eitthvað sem við þurfum alltaf á að halda og það er bara að aukast ef eitthvað er.“

Fréttin er tekin frá heimasíðu fréttablaðsins. Greinin birtist í aukablaði fréttablaðsins stelpur og verknám