Kjarasamningar voru undirritaðir í gær, og við göngum nokkuð sátt frá borði. Skammtímasamningur sem gildir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024 er niðurstaðan.
Það var ýmislegt sem við hefðum viljað ná inn í þennan samning en þó var staðan þannig að ekki var talið að við kæmumst lengra að sinni án átaka. Við töldum samningin það góðan að ekki væri hægt annað en að leggja hann fyrir félagsfólk.
Samið var um prósentuhækkun upp á 6,75% sem gildir afturvirkt frá 1.nóv 2022. Einnig voru töflur uppfærðar og taxtar hækkaðir sérstaklega. Tvöföldu sveinsprófi var bætt inn í okkar taxta og ákvæðisvinnan fær sérstaka leiðréttingu um 3% aukalega við almennar hækkanir í fjórum skrefum yfir samningstímann.
Stytting vinnuviku og einföldun á kjarasamningi í kjölfarið er mjög verðmætt skref fyrir okkur. Virkur vinnutími fer niður í 36 klst í lok samningstímans og er það til bóta fyrir stóran hóp.
Stór hluti af okkar vinnu við kjarasamningsgerð fór í að reyna útbúa verðbólguvörn þar sem hægt væri að tryggja að fyrirtækin tækju ábyrgð á því að viðhalda stöðugleika og halda verðlagi niðri. Þó svo að upprunaleg markmið hafi ekki náðst var þó komið á sameiginlegri verðbólgunefnd sem samningsaðilar eiga aðild að og mun funda að lágmarki einu sinni í mánuði.
Einnig verður farið í aukna vitundarvakningu um verðþróun og neytendum auðveldað aðgengi að upplýsingum um verðlagsþróun hjá matvöruverslunum og bönkum sem dæmi. Eru þessi verkefni aðeins byrjunin á lengri vegferð sem mun að öllum líkum skila okkur meiri stöugleika.
Nú er það félagsfólks að kjósa um samninginn og ákveða framhaldið.
Breitt samflot RSÍ, VM, Samiðn, Matvís, VR og LÍV gekk mjög vel og styrkti okkar stöðu verulega við samningaborðið. Ég þakka þessum félögum fyrir frábært samstarf við gerð kjarasamninga.
Kv Andri Reyr Haraldsson formaður Félags íslenskra rafvirkja

Deila frétt: