Árið 2016 fór fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins í þá vegferð að útbúa rafræna ferilbók og má segja að rafiðnaðurinn hafi lengi barist fyrir því að rafræn ferilbók verði að veruleika svo þetta er mikið fagnaðarefni. Þessvegna er vel við hæfi að undirskriftin færi fram á milli rafvirkjameistara og nema í rafvirkjun. Máney Eva Einarsdóttir og Jón Freyr Eyþórsson nemar í rafvirkjun urðu fyrstu iðnnemarnir til að undirrita rafræna iðnnámssamninga. Ásamt nemendunum skrifuðu undir samninginn þau Helgi Rafnsson, framkvæmdastjóri Rafholts, og Guðrún Randalín Lárusdóttir, aðstoðarskólameistari Tækniskólans.

Undirritunin fór fram við formlega athöfn í húsakynnum Rafholts að viðstöddum meðal annars Lilju Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins sem fluttu ávörp í tilefni undirskriftanna og formlegrar opnunar á rafrænni ferilbók.

 

 

 

Í tilkynningu er haft eftir mennta- og menningarmálaráðherra að ferilbókin sé tákngervingur grundvallarbreytinga í iðnnámi og síðasta púslið í iðnbyltingunni sem hafi átt sér stað á kjörtímabilinu. „Við höfum breytt viðhorfum í garð iðnmenntunar, aukið áhuga fólks á öllum aldri á iðnnámi, aukið réttindi iðnmenntaðra og jafnræði nemenda og kappkostað að bæta þjónustu við þá. Endurskoðun á inntaki námsins er ómetanleg og með ferilbókinni verður bylting í samskiptum nema og meistara. Hún eykur gæði iðnnáms, tryggir aukið samræmi innan iðngreina og að þjálfunin miðist enn betur við þarfir atvinnulífsins.“

Það er enginn vafi á að þetta er liður í að bæta aðgengi að iðnnámi og betrumbæta samband nem við meistara. Við erum spennt að sjá ferilbókina byrja í notkun núna í haust og sjá hvernig hún mun þróast og nýtast nemendum.