Kæru félagar,
Ég hef ákveðið að óska ekki eftir endurkjöri til formanns í komandi kosningum FÍR. Ég tel það rétt að takast á við nýjar áskoranir á nýjum vettvangi á þessum tímapunkti. Ég er ekki að segja skilið við félagsmál enda ennþá ung og tel iðnaðarmenn eiga bjarta framtíð fyrir sér með öllum þeim tækniþróunum sem eru að eiga sér stað.
Það verður spennandi að sjá félagið í nýjum höndum og hverjar áherslurnar verða . Á mínum starfstíma náðum við að ljúka málum sem hafa hangið lengi yfir okkur eins og koma skipulagi á mat á menntun erlendra ríkisborgara sem koma til landsins, komið á opnu deildinni fyrir þá sem starfa í okkar fagi en eru að koma sér í gegnum nám, komið að hækkun styrkja fyrir alla félagsmenn RSÍ og þar má nefna hækkun menntastyrks, námskeiðsstyrks, styrks vegna hjartaverndar og krabbameinsskoðunar og hækkun á greiðsluþaki vegna sjúkradagpeninga.
Ég hef tekið sterka afstöðu í málefnum sem varða lög um handiðnað, sveinspróf og réttindi rafvirkja. Skrifað umsagnir við lagabreytingar og setið í vinnuhópum á vegum ráðuneyta til þess að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Sett upp nýja heimasíðu fyrir félagið. Við stigum inn í áframhaldandi starf við þróun á samfélagi iðnaðarmanna á Stórhöfða, en fyrst og fremst lögðum við áherslu á að bæta samskipti við þá aðila sem tengjast okkur eins og RSÍ, RAFMENNT, SART og önnur félög. Sú vinna tókst virkilega vel og ég skil vonandi eftir góðan grunn fyrir áframhaldandi vinnu.
Ég þakka fyrir þann stuðning sem ég hef fengið í mínum störfum og óska komandi stjórn velfarnaðar í sínum störfum.
Margrét Halldóra Arnarsdóttir
Formaður