1. KAFLI NAFN FÉLAGSINS, FÉLAGSSVÆÐI, HLUTVERK OG FÉLAGSAÐILD.
1. GREIN
Félagið heitir Félag íslenskra rafvirkja, skammstafað FÍR. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
Félagssvæði félagsins er höfuðborgarsvæðið og þeir landshlutar, sem ekki eru skilgreind félagssvæði annarra félaga rafvirkja innan RSÍ.
2. GREIN
Félagið er aðili að Rafiðnaðarsambandi Íslands(hér eftir RSÍ), sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands(hér eftir ASÍ.
3. GREIN
Hlutverk félagsins er:
- Að sameina í stéttarfélagi alla starfandi rafiðnaðarmenn sbr. 4. gr.
- Að efla og styrkja samhug og samheldni félagsmanna.
- Að gera samninga um kaup og kjör fyrir hönd félagsmanna.
- Að bæta og vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna í atvinnu- og aðbúnaðarmálum.
- Að veita félagsmönnum aðstoð í veikindum og atvinnuleysi.
- Að vinna að fræðslu og menningarmálum í þágu félagsmanna.
- Að hafa samstarf við önnur stéttarfélög um sameiginleg hagsmunamál.
4. GREIN
Fullgildir félagsmenn geta þeir einir orðið, sem búsettir eru á félagssvæðinu, lokið hafa námi í rafvirkjun, rafvélavirkjun, rafveituvirkjun eða símsmíði og staðist hafa sveinspróf, eða fengið iðnbréf samkvæmt iðnlögum.
Heimilt er að veita inngöngu í félagið þeim sem eru á viðurkenndum námssamningi til sveinsprófs í þeim greinum sem taldar eru upp í fyrstu málsgrein, hvort sem þeir eru í námi á vinnumarkaði eða í skólum. Hafi nemi ekki lokið sveinsprófi innan hæfilegs tíma frá inngöngu í félagið að mati stjórnar, eða hættir á námssamningi, getur stjórnin svipt hann félagsréttindum sínum þar til hann hefur lokið sveinsprófi eða fer á námssamning á ný.
Aðild að félaginu geta þeir átt, sem lokið hafa störfum vegna aldurs, voru félagsmenn í a.m.k. fimm ár fyrir starfslok.
Heimilt er að veita inngöngu í félagið mönnum, sem búsettir eru utan félagssvæðisins, eigi þeir ekki kost á að vera félagsmenn annars aðildarfélags Rafiðnaðarsambands Íslands.
Heimilt er að veita inngöngu í félagið þeim sem eru í starfsnámi í þeim greinum sem taldar eru upp í fyrstu málsgrein, hvort sem þeir eru í námi á vinnumarkaði eða í skólum. Leggja skal félagsaðild einstaklinga samkvæmt þessari málsgrein fyrir stjórn félagsins til samþykktar og skal stjórn félagsins í október og febrúar ár hvert fjalla um félagsaðild þeirra.
Ekki er hægt að veita inngöngu í félagið mönnum, sem eru fullgildir félagsmenn í öðrum aðildarfélögum ASÍ, eða standa í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ, sem viðkomandi hefur verið félagsmaður í.
Menn sem eru faglegir ábyrgðarmenn fyrirtækja í rafiðnaði geta verið félagsmenn. Menn sem eru sjálfstæðir verktakar í rafiðnaði með starfsmenn í vinnu geta ekki verið félagsmenn. Einyrkjar geta verið félagsmenn
5. GREIN
Umsókn um inntöku í félagið skal vera rafræn eða skrifleg, gerð á eyðublöð sem félagið lætur í té. Í umsókn um inngöngu felst að umsækjandi skuldbindur sig til að hlýða lögum félagsins og samþykktum í öllum greinum.
Enginn telst fullgildur félagsmaður fyrr en inntökuumsókn hans hefur verið samþykkt af meirihluta stjórnar félagsins og er umsækjanda þá afhent félagsskírteini.
Hafni stjórn félagsins umsókn um inntöku, hefur umsækjandi rétt til að vísa umsókn sinni til félagsfundar. Synji félagsfundur umsókn um inngöngu í félagið á umsækjandi rétt á að skjóta málinu til Rafiðnaðarsambands Íslands samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga þess. Umsækjandi á rétt á að vísa úrskurði RSÍ til Alþýðusambands Íslands samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga þess.
Hafi félagsmaður, sem uppfyllir ákvæði 4. gr., greitt til sjóða félagsins í sex mánuði eða lengur og hefur ekki sótt um skriflega samkvæmt 1. mgr., telst hann fullgildur félagi og skal stjórn félagsins tilkynna honum það með tölvupósti eða ábyrgðarbréfi og gefa honum kosta á að staðfesta eða gera athugasemd við félagsaðild sína.
6. GREIN
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og verður því aðeins tekin til greina að félagsmaður standi ekki í óbættum sökum við félagið.
Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu, þar til að vinnustöðvun hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru stéttarfélagi sem lagt hefur niður störf vegna löglegrar deilu um kaup og kjör.
2. KAFLI RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA, RÉTTINDAMISSIR OG BROTTREKSTUR.
7. GREIN
Réttindi félagsmanna eru:
- Málfrelsi, tillöguréttur og atkvæðisréttur á félagsfundum samkvæmt fundarsköpum félagsins.
- Kjörgengi í trúnaðarstöður félagsins og á vegum þess í þeim samtökum, sem félagið á aðild að.
- Réttur til styrkveitinga úr sjóðum félagsins, svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðum sjóðanna.
- Réttur til vinnu á þeim kjörum, sem samningar félagsins kveða á um.
- Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda á samningum sem félagið hefur gert við atvinnurekendur.
- Réttur til aðstoðar félagsins í atvinnuleit sé félagsmaður atvinnulaus.
8. GREIN
Skyldur félagsmanna eru:
- Að hlýða lögum félagsins, fundarsköpum, félagssamþykktum, fyrirskipunum og samningum í öllum greinum.
- Að greiða gjöld sín til félagsins á réttum gjalddaga.
- Að gegna trúnaðarstöðum fyrir félagið sbr. þó 44. gr.
9. GREIN
Félagsmaður hefur fyrirgert rétti sínum í félaginu, ef hann:
- Brýtur lög félagsins, samþykktir eða samninga.
- Skuldar meira en tólf vikna gjöld til sjóða félagsins vegna eigin vanrækslu.
- Veldur félaginu tjóni eða álitshnekki að mati stjórnar.
- Berist ekki félagsgjöld vegna félagsmanns í tvö ár verður hann tekinn af félagsskrá. Þetta ákvæði tekur ekki til þeirra félagsmanna, sem eru atvinnulausir sbr. gr. 48.
10. GREIN
Ef sannað er að félagsmaður hefur brotið gegn ákvæðum 8. gr. a-liðar laga þessara, skal stjórn félagsins veita honum áminningu. Sé brotið ítrekað skal stjórnin leggja rökstudda tillögu um brottvikningu viðkomandi félagsmanns úr félaginu fyrir trúnaðarráð.
11. GREIN
Vanræki félagsmaður greiðslu tilskilinna gjalda til sjóða félagsins sbr. ákvæði 9. gr., er stjórn félagsins heimilt að svipta hann félagsréttindum með viku fyrirvara þar til skuldin er að fullu greidd.
Hafi félagsmaður verið sviptur réttindum sínum vegna vanefnda á greiðslu félagsgjalda, en greiðir ekki skuld sína er trúnaðarráði heimilt að víkja honum úr félaginu með 10 daga fyrirvara.
Félagsmaður á rétt til að skjóta úrskurði trúnaðarráðs til félagsfundar, en skyldur er hann að hlýða úrskurðinum þar til honum er hrundið af félagsfundi.
12. GREIN
Hafi félagsmaður unnið gegn hagsmunum félagsins, valdið því tjóni eða álitshnekki, getur stjórn lagt fyrir félagsfund tillögu um brottrekstur hans úr félaginu.
Úrskurði félagsfundar um áminningu eða brottvísun félagsmanns má vísa til Rafiðnaðarsambands Íslands samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga þess. Félagsmaður á rétt á að vísa úrskurði RSÍ til Alþýðusambands Íslands samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga þess.
Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu, á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á félagsfundi.
3. KAFLI AÐAL- OG FÉLAGSFUNDUR
13. GREIN
Aðalfund félagsins skal halda fyrir apríllok árlega. Á aðalfundi lýsir formaður kjörstjórnar kjöri stjórnar og annarra trúnaðarmanna sbr. 5. og 6. kafla. Stjórn félagsins leggur fram á aðalfundi skýrslu um störf sín, endurskoðaða reikninga sjóða félagsins og önnur mál eftir því sem þurfa þykir. Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn og einn til vara.
14. GREIN
Aðalfund skal boða skriflega með minnst sjö sólarhringa fyrirvara. Í fundarboði skal getið dagskrár fundarins. Ennfremur skal birta fundarboð í fréttamiðlum sem ná til sem flestra félagsmanna og miðlum félaginu tengdu. Ef tillögur um breytingar á lögum félagsins liggja fyrir skal geta þeirra í fundarboði.
15. GREIN
Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórn félagsins þykir þurfa, eða ef 15 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda tilgreini þeir fundarefni.
16. GREIN
Til félagsfunda skal boða skriflega með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Ef vinnustöðvun eða aðrar gildar ástæður gera ókleift að boða félagsfund á framangreindan hátt, skal heimilt að boða fund með skemmri fyrirvara, með auglýsingu í fréttamiðlum sem ná til sem flestra félagsmanna.
17. GREIN
Öllum fundum skal stjórnað samkvæmt fundarsköpum félagsins. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála, nema lög þessi kveði á um annað. Allir fundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað og mættur er meirihluti stjórnar.
18. GREIN
Heimilt er að hljóðrita og streyma á netið aðal- og félagsfundum. Hópar félagsmanna, sem staðsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins geta tekið þátt í fundum með tengingu við hljóðkerfi í fundarsal um síma eða annan fjarfundabúnað. Þar sem slíkir hópar félagsmanna eru saman komnir til þátttöku í fundum, stjórnar trúnaðarmaður sem formaður felur þann starfa.
4. KAFLI DEILDASKIPTING FÉLAGSINS, MEÐFERÐ SAMNINGA OG VINNURÉTTUR.
19. GREIN
Félagsfundur getur ákveðið að skipta félaginu í deildir, s.s. deild fyrir rafvirkja á skipum, deild fyrir starfsmenn rafveitna, deild félagsmanna á ákveðnum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins o.s.frv., enda hafi þess verið getið í fundarboði að tillaga um slíkt lægi fyrir og stjórn félagsins og trúnaðarráð mæli með slíkri deildarstofnun.
Verði ákveðin stofnun félagsdeildar skal trúnaðarráð setja starfsemi hennar reglur innan þess ramma, sem lög þessi heimila. Gerð kjarasamninga skal þó stjórn og trúnaðarráð fara með í umboði deildar og í samráði við hana.
20. GREIN
Félagið gerir samninga um kaup og kjör félagsmanna eða einstakra hópa félagsmanna, annaðhvort eitt sér eða í samráði við önnur stéttarfélög.
Samningar sem innihalda ákvæði, sem varða kjör allra eða meirihluta félagsmanna, eða geta haft stefnumarkandi áhrif á kjör þeirra að mati stjórnar og trúnaðarráðs, skal leggja fyrir félagsfund eða allsherjaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.
Samningar sem fjalla um kjör einstakra smærri hópa í félaginu skal leggja fyrir viðkomandi hóp til afgreiðslu. Slíkan samning skal einnig leggja fyrir trúnaðarráð til staðfestingar.
21. GREIN
Trúnaðarráð skipar menn til starfa í samninganefndum félagsins og í samninganefndir sem félagið á aðild að í samvinnu við önnur stéttarfélög eða landssambönd og veitir þeim umboð til starfa. Í samninganefndum á vegum félagsins skulu að öllu jöfnu eiga sæti trúnaðarmenn starfsmanna sem vinna eftir viðkomandi samningi.
Trúnaðarráð gerir viðræðuáætlanir fyrir hönd félagsins. Trúnaðarráð getur veitt samninganefnd umboð til að gera viðræðuáætlun.
Trúnaðarráð ber ábyrgð á að kröfugerðir séu unnar og lagðar fram. Trúnaðarráð getur veitt samninganefnd umboð til að gera og leggja fram kröfugerð. Kröfugerð skal ávalt gera í samráði við þá félagsmenn, sem vinna eftir viðkomandi samningi.
Samninganefndir sem félagið á aðild að skulu starfa eftir reglum, sem þeim eru settar af trúnaðarráði, miðstjórn eða sambandsstjórn RSÍ eða samkomulag er um við þau félög eða landsambönd, sem félagið á í samstarfi við. Starfsreglur skal setja áður en samninganefnd hefur störf.
Samninganefnd er óheimilt að undirrita RSÍ-SA/SART almenna kjarasamning nema að fengnu samþykki meirihluta trúnaðarráðs með atkvæðagreislu, gera skal ráð fyrir að hægt sé að greiða atkvæði í fjarfundi.
Samninganefnd er óheimilt að fresta vinnustöðvun RSÍ-SA/SART almenna kjarasamning nema að fengnu samþykki meirihluta trúnaðarráðs með atkvæðagreiðslu, gera skal ráð fyrir að hægt sé að greiða atkvæði í fjarfundi.
22. GREIN
Á félagssvæði Félags íslenskra rafvirkja gildir gagnkvæmur vinnuréttur fyrir félagsmenn í öðrum félögum rafiðnaðarmanna, í samræmi við ákvæði í 5. gr. laga RSÍ.
5. KAFLI STJÓRN OG TRÚNAÐARRÁÐ OG AÐRAR TRÚNAÐARSTÖÐUR.
23. GREIN
Stjórn félagsins skipa sjö menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Formaður, ritari og einn meðstjórnandi skulu kosnir til tveggja ára annað árið og varaformaður, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur til tveggja ára hitt árið.
24. GREIN
Stjórn félagsins og átján félagsmenn skipa trúnaðarráð félagsins. Kjósa skal níu menn í trúnaðarráð til tveggja ára það ár sem formaður er í kjöri og aðra níu menn til tveggja ára það ár sem varaformaður er í kjöri. Formaður félagsins er formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins er ritari þess.
25. GREIN
Formaður kallar saman stjórnarfundi og trúnaðarráðsfundi með þeim hætti sem hann telur heppilegastan. Stjórnarfundir og trúnaðarráðsfundir eru lögmætir ef meirihluti meðlima er mættur. Skylt er formanni að boða trúnaðarráðsfund, ef þriðjungur trúnaðarráðs óskar þess og tilgreinir fundarefni.
26. GREIN
Formaður stjórnar fundum stjórnar og trúnaðarráðs og hefur eftirlit með að meðstjórnendur hans, skoðunarmenn og aðrir trúnaðarmenn félagsins ræki skyldur sínar. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.
27. GREIN
Ritari skráir í fundargerðabók greinilega frásögn um það sem gerist á stjórnar-, trúnaðarráðs- og félagsfundum.
Fundargerð skal borin upp til samþykktar á næsta fundi stjórnar og/eða trúnaðarráðs, ef athugasemdir berast skal lagfæra fundargerð þar til hún fæst samþykkt
28. GREIN
Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með sjóðum og fjárreiðum félagsins.
29. GREIN
Stjórn félagsins skal skipa trúnaðarmenn og öryggistrúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt ákvæðum í landslögum og/eða samningum félagsins, að höfðu samráði við viðkomandi félagsmenn. Félagsfundur setur reglur um skipan og störf trúnaðarmanna.
30. GREIN
Trúnaðarráð gerir tillögu um vinnustöðvun, hvenær hún skuli taka gildi, til hverra hún skuli taka og með hvaða hætti tillaga um vinnustöðvun skuli afgreidd.
Trúnaðarráð ákveður hvenær samningar félagsins hafa stefnumarkandi gildi fyrir hag og afkomu félagsmanna og tekur ákvarðanir um með hvaða hætti samningar skuli afgreiddir á vettvangi félagsins.
31. GREIN
Stjórn og trúnaðarráð félagsins tilnefnir í samstarfi við önnur félög innan RSÍ, fulltrúa í framkvæmdastjórn ungliða og trúnaðarráð ungliða innan RSÍ.
32. GREIN
Segi félagsmaður, sem trúnaðarstarfi gegnir fyrir félagið, sig úr því er honum skylt að skila af sér öllu er varðar trúnaðarstörf hans um leið og úrsögn er send.
6. KAFLI FRAMBOÐ, KJÖR Í STJÓRN, TRÚNAÐARRÁÐ OG AÐRAR TRÚNAÐARSTÖÐUR OG ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLUR.
33. GREIN
Stjórn skal fyrsta virka dag í janúar ár hvert auglýsa frest til framboðs í trúnaðarstöður samkvæmt 23.gr. og 24.gr.
34. GREIN
Framboðsfrestur skal vera til 15. febrúar kl 16:00 eða næsta virka dag og skal tillögum skilað til kjörstjórnar innan þess tíma. Frambjóðendum skal raðað eftir stafrófsröð á kjörseðli. Í rafrænni kosingu skal vera í boði að skila auðu. Komi aðeins eitt framboð í stöðu, þarf ekki að fara fram kosning.
35. GREIN
Trúnaðarráði er skylt að leggja fram tillögur um kjör í trúnaðarstöður samkvæmt 23. gr. og 24. gr. Til að bera fram tillögur til kjörs stjórnar, trúnaðarráðs eða annarra trúnaðarstarfa þurfa að fylgja meðmæli 18 fullgildra félagsmanna. Tillögu til stjórnar, trúnaðarráðs eða annarra trúnaðarstarfa skal fylgja skriflegt samþykki þeirra félagsmanna, sem gerð er tillaga um.
36. GREIN
Framboð til stjórnar og trúnaðarráðs skulu vera einstaklingsframboð. Fullgildir félagsmenn geta boðið sig fram áður en framboðsfrestur rennur út, með undirritaðri yfirlýsingu og meðmælum 18 fullgildra félagsmanna.
Framboð skulu vera sérstaklega til formanns, varaformanns, ritara, gjaldkera, meðstjórnenda og til trúnaðarráðs.
Frambjóðanda er heimilt að draga framboð sitt til baka fyrir 1. mars svo framalega sem tryggt sé að framboð sé í sömu stöðu. Atkvæðagreiðslan er bundin við þær tillögur sem koma fram samkvæmt 23. gr. og 24. gr. eða tillögur, sem lagðar eru fyrir samkvæmt heimild í 37. gr. Einnig er heimilt að kjósa í trúnaðarstöðu sem sagt hefur verið lausri, þó ekki meira en til eins árs.”
37. GREIN
Eigi síðar en 15. mars skal fara fram allsherjar atkvæðagreiðsla um kjör helmings stjórnar og trúnaðarráðs. Heimilt er að kjósa aðra trúnaðarmenn í allsherjaratkvæðagreiðslu, telji stjórn og trúnaðarráð það nauðsynlegt eða æskilegt.
Stjórn og trúnaðarráði er heimilt að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu um afgreiðslu kjarasamninga eða önnur málefni, eftir því sem þurfa þykir.
Á sama hátt skal efna til allsherjaratkvæðagreiðslu ef:
- Félagsfundur samþykkir ályktun þar um.
- Minnst 1/10 hluti fullgildra félagsmanna krefst þess.
- Miðstjórn RSÍ eða miðstjórn ASÍ gefur um það fyrirmæli.
38. GREIN
Kosningum með allsherjaratkvæðagreiðslu stjórnar kjörstjórn, sem skipuð er þremur mönnum. Aðalfundur kýs tvo, en þriðji maður skal skipaður af miðstjórn RSÍ og er hann formaður kjörstjórnar. Miðstjórn skal gæta hlutleysis við val á formanni. Jafnmargir skulu skipaðir til vara á sama hátt.
Kjörstjórn skal hafa til hliðsjónar siðareglur FÍR þegar kosningar eru annars vegar.
Félagsstjórn er heimilt að fela kjörstjórn, sem skipað er í af miðstjórn RSÍ, umsjón með kosningum um kjarasamninga, sem félagið er aðili að með öðrum stéttarfélögum.
39. GREIN
Allsherjaratkvæðagreiðsla skal vera rafræn og standa yfir í minnst fimm daga, og allt að 14 daga samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar og trúnaðarráðs. Allsherjaratkvæðagreiðsla skal vera leynileg. Kjörstjórn skal sjá um að félagsmenn fái nægjanlega snemma vitneskju um atkvæðagreiðsluna, hve lengi hún stendur yfir og á hvern hátt hún fer fram.
Kjörstjórn í samráði við stjórn og trúnaðarráð auglýsir atkvæðagreiðslu og kynnir efni kosninga. Í auglýsingu skal koma fram á hvern hátt kosning fer fram hvenær hún hefst og hvenær henni lýkur. Auglýsingu skal birta á fréttamiðlum sem ná til sem flestra félagsmanna og í miðlum félaginu tengdu, eða á annan hátt svo tryggt sé að félagsmenn fái nægjanlega snemma vitneskju um atkvæðagreiðsluna.
Óheimilt er að viðhafa kosningaáróður á eða við kjörstað.
40. GREIN
Þegar kosið er um fleiri en einn frambjóðenda í trúnaðarstöður og fleiri eru í framboði er skylt að kjósa a.m.k. í helming af þeim stöðum sem kjósa skal.
41. GREIN
Rafræn atkvæðagreiðsla skal framkvæmd þannig að kjörstjórn sendir þeim er kosningarétt hafa kjörgögn, en þau eru aðgangslykill að rafrænum kjörseðli.
Auk aðgangslykils skulu fylgja leiðbeiningar um framkvæmd rafrænnar kosningar þar sem m.a. kemur fram hvernig kjósandi tjáir vilja sinn og hvernig atkvæði hans komist til skila. Taka skal skýrt fram fyrir hvaða tíma atkvæði skuli hafa borist kjörstjórn, en miða skal við að kjósanda berist í hendur kjörgögn það tímanlega að öruggt sé að kjósandi geti greitt atkvæði sitt innan tímamarka.
Kjörgögn skulu póstlögð þannig, að a.m.k. sjö dagar líði frá því kjörgögn eru póstlögð og þar til atkvæðagreiðslu á að vera lokið. Auglýsingar um rafræna atkvæðagreiðslu skulu birtar eigi síðar en sama dag og kjörgögn eru póstlögð. Samhliða rafrænni kosningu, skal kjósendum ætíð gert mögulegt að fá aðgang að viðeigandi tölvubúnaði á kjörstað. Þess skal gætt í hvívetna að ekki sé hægt að rekja greidd atkvæði til tiltekins eða tiltekinna kjósenda og skal þess gætt að rafræn atkvæði séu ekki sett í sameiginlegt safn til talningar fyrr en kosningu er lokið.
42. GREIN
Kjörstjórn í samráði við sjórn og trúnaðarráð skal gefa frambjóðendum kost á að kynna sig á vefmiðli félagsins. Kjörstjórn skal gæta jafnræðis meðal frambjóðenda. Verklagsreglur og útbúnaður hér að lútandi skal samþykktur af kjörstjórn hverju sinni og skal styðjast við siðareglur FÍR.
43. GREIN
Kjörstjórn skal sjá um gerð kjörskrár og lista yfir þá félagsmenn, sem ekki eru á kjörskrá vegna skulda.
Allar kærur vegna kjörskrár skal kjörstjórn úrskurða jafnskjótt og þær berast. Kærufrestur er til loka atkvæðagreiðslunnar.
Umboðsmenn lista eða tillögu skulu hafa rétt á að fá eitt afrit af kjörskrá um leið og atkvæðagreiðsla er auglýst.
Kjörstjórn sér um talningu atkvæða að kjörfundi loknum. Umboðsmönnum frambjóðenda eða tillögu er heimilt að hafa einn fulltrúa viðstaddan talningu atkvæða.
44. GREIN
Þeir félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt, sem greitt hafa að fullu gjöld til félagsins síðustu sex mánuði frá upphafi kosninga eða eru gjaldfrjálsir samkvæmt 49. grein. Eftir að atkvæðagreiðsla hefur verið auglýst og kjörskrá lögð fram má ekki bæta nýjum félagsmönnum á skránna, en þeir sem skulda gjöld til félagsins geta öðlast atkvæðisrétt ef þeir greiða skuld sína að fullu áður en atkvæðagreiðslu lýkur.
7. KAFLI FJÁRMÁL.
45. GREIN
Sjóðir félagsins eru:
- Félagssjóður.
- Menningarsjóður.
Félagið á aðild að eftirtöldum sameiginlegum sjóðum rafiðnaðarmanna:
- Styrktarsjóði rafiðnaðarmanna.
- Orlofsheimilasjóði rafiðnaðarmanna.
- Vinnudeilusjóði rafiðnaðarmanna.
Á aðalfundi skal setja reglugerð um Menningarsjóð. Stjórn félagsins skal fara með stjórn Menningarsjóðs.
Félagið er aðili að rekstri Ákvæðisvinnustofu rafiðna og Menntasjóði rafiðnaðarins, sem hvor um sig er sjálfstæður fjárhagsaðili.
46. GREIN
Gjöld til félagssjóðs eru ákveðin á aðalfundi. Ákveða má gjöld til félagssjóðs á félagsfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að ákvörðun þar um sé á dagskrá fundarins.
47. GREIN
Gjalddagi gjalda til sjóða félagsins er hvern kaupgreiðsludag. Þó er heimilt að greiða gjöldin mánaðarlega, sé þess óskað, enda komi samþykki gjaldkera til. Gjöldum skal halda eftir af vinnulaunum félagsmanna hjá atvinnurekanda, enda sé kveðið á um það í kjarasamningum sbr. 6. gr. laga nr. 55/1980.
48. GREIN
Hafi félagsmaður verið atvinnulaus eða veikur í einn mánuð eða lengur samfleytt, er stjórn félagsins heimilt að fella niður gjaldskyldu hans til sjóða félagsins tímabundið, enda komi atvinnulaus maður til skráningar og sá sem veikur er leggi fram vottorð um veikindi sín.
49. GREIN
Gjaldfrjálsir til sjóða félagsins skulu þeir félagsmenn vera, sem stunda nám hér á landi eða erlendis og eru launalausir þess vegna þann tíma sem á námi stendur. Einnig þeir félagsmenn sem lokið hafa störfum vegna aldurs og greiddu til félagsins í a.m.k. fimm ár fyrir starfslok. Þeir sem gjaldfrjálsir eru samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skulu þó njóta fullra félagsréttinda.
50. GREIN
Félagsmaður sem stundað hefur vinnu erlendis og ekki greitt gjöld til sjóða félagsins þann tíma, skal því aðeins fá full félagsréttindi á ný, að hann sýni vottorð um að hann hafi greitt stéttarfélagsgjöld í dvalarlöndum erlendis sem eru með saming við FÍR. Að öðrum kosti öðlast hann ekki félagsréttindi á ný, fyrr en hann hefur staðið skil á gjöldum til sjóða félagsins fyrir þann tíma sem hann var fjarverandi.
51. GREIN
Kostnaður við rekstur félagsins skal greiðast úr félagssjóði. Stjórn félagsins er heimilt að greiða þeim félagsmönnum, sem stjórn eða félagsfundur kveður til starfa fyrir félagið, laun fyrir þann tíma, sem þeir fella niður fasta vinnu vegna starfa fyrir félagið. Heimilt er að formaður félagsins sé í allt að 50% starfi og fái greitt eftir taxta nr. 32 í RSÍ-SA/SART almenna samningnum og til viðbótar greitt fyrir akstur samkvæmt akstursdagbók. Formaður skal vera tiltækur fyrir félagsmenn og skal það fyrirkomulag tilkynnt á heimasíðu og vefmiðlum félagsins.
52. GREIN
Sjóði félagsins skal ávaxta á sem hagfelldastan hátt, í banka, ríkis- eða fasteignatryggðum skuldabréfum, eða hlutaeign í traustum eignahaldsfélögum í samstarfi við önnur stéttarfélög.
Gjaldkera er heimilt að taka sjóðina í sína vörslu, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þarf til þess samþykki félagsstjórnar, enda beri hún sameiginlega ábyrgð á sjóðunum meðan þeir eru í vörslu gjaldkera.
Á annan hátt er óheimilt að ráðstafa sjóðum félagsins, nema með samþykki félagsfunda og þarf til þess 2/3 atkvæða. Tillögum um slíkt skal getið í fundarboði.
53. GREIN
Reikningsár sjóða félagsins skal vera almanaksárið og skulu reikningar yfirfarnir af kjörnum skoðunarmönnum og af löggiltum endurskoðenda, liggja fyrir til skoðunar fyrir félagsmenn minnst þrjá daga fyrir aðalfund.
8. KAFLI HEIÐURSFÉLAGAR OG GULLMERKI FÉLAGSINS.
54. GREIN
Heiðursfélagar geta þeir félagsmenn orðið, sem unnið hafa lengi fyrir félagið eða gegnt þýðingarmiklum trúnaðarstörfum fyrir stéttina. Trúnaðarráð útnefnir heiðursfélaga, enda sé það gert með samhljóða atkvæðum. Einnig geta 15 félagsmenn gert tillögu um heiðursfélaga og skal hún lögð fyrir trúnaðarráð til afgreiðslu. Heiðursfélagar skulu vera undanþegnir gjaldskyldu til félagssjóðs og kjörskyldu til trúnaðarstarfa, en eru háðir ákvæðum laga þessara að öðru leyti.
55. GREIN
Þeir félagsmenn sem hafa verið í félaginu 25 ár skulu eiga rétt á að fá afhent gullmerki félagsins. Stjórn félagsins ákveður hvenær og á hvern hátt afhending gullmerkja fer fram. Stjórn og trúnaðarráði er heimilt að heiðra sérstaklega þá sem lagt hafa fram með starfi sínu mikilsvert framlag til félags- og menningarmála rafiðnaðarmanna.
9. KAFLI LAGABREYTINGAR.
56. GREIN
Lögum þessum má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi, hafi þess verið getið í fundarboði og þarf til þess 2/3 atkvæða viðstaddra félagsmanna. Hægt er að bera fram breytingartillögur á þær lagabreytingar sem hafa verið lagðar fram fyrir aðalfund á fundinum. Stjórn áskilur sér rétt til að laga málfars- og/eða stafsetningarvillur milli aðalfunda.
57. GREIN
Tillögur um lagabreytingar skal afhenda stjórn félagsins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Skal stjórnin láta tillögurnar liggja frammi á skrifstofu félagsins, til skoðunar fyrir félagsmenn, sex daga fyrir aðalfund.
10. KAFLI FÉLAGSSLIT.
Félaginu verður því aðeins slitið að tillaga um það hafi verið samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu með 2/3 atkvæða. Um sameiningu félagsins við annað félag skal fara á sama hátt.
59. GREIN
Verði félaginu slitið skulu allar eignir þess afhentar Rafiðnaðarsambandi Íslands til vörslu, þar til nýtt félag verður stofnað með sama tilgangi. Nú verður ekki stofnað nýtt félag innan fimm ára frá félagsslitum, skal þá stofna sjóð sem styrki rafiðnaðarmenn til framhaldsnáms og skulu allar eigur félagsins renna til sjóðsins. Reglugerð fyrir sjóðinn skal síðasta stjórn félagsins semja og afhenda RSÍ ásamt eigum félagsins.