Saga FÍR

UPPHAF RAFMAGNS OG FYRSTU STARFSÁR FÉLAGASAMTAKA RAFVIRKJA

Stofnár félagsins var 4. júní 1926

Höfundur greinar: Guðmundur Gunnarsson
Tók saman í janúar 1995, Reykjavík

FORMÁLI

Á 60 ára afmæli Félags íslenskra rafvirkja (FÍR) var ákveðið að safna saman upplýsingum til útgáfu Rafvirkjatals. Í ritnefnd voru valdir Guðmundur Gunnarsson og Svavar Guðbrandsson. Fljótlega eftir að vinna ritnefndar hófst kom í ljós að Gissur Pálsson, starfsmaður Landssambands íslenskra rafverktaka (LÍR), hafði safnað saman miklum upplýsingum um rafverktaka, fyrst á vegum Félags löggiltra rafverktaka (FLRR) og síðar á vegum (LÍR). Gögn Gissurar nýttust í talið og það varð að samkomulagi að fella þau í það. Gissur var í ritnefndinni fyrstu árin og veitti henni ýmsar verðmætar upplýsingar, þar til að hann féll frá á síðasta ári.

Strax í upphafi var sú ákvörðun tekin að einskorða sig við þá sem lokið hafa sveinsprófi í rafvirkjun eða rafvélavirkjun eða fengið iðnréttindi í þessum iðngreinum. Eins og fram kemur í inngangi þá störfuðu margir við raflagnir fyrstu áratugi þessarar aldar og margir skráðu sig sem rafvirkja þóttt þeir hefðu ekki lokið sveinsprófi. Ef nefndin hefði tekið á skrá alla þá sem hafa kallað sig eða verið nefndir rafvirkjar eða rafmagnsvirkjar í bókum og minningargreinum, hefðum við lent á villugötum og nánast hefði verið útilokað að átta sig á hverjir hefðu haft rétt til þess að vera með og hverjir ekki. Má t.d. benda á þann fjölda manna sem starfaði við að reisa rafveitur á millistríðsárunum. Þessir menn voru oftast sjálfmenntaðir og tóku að sér að leggja raflagnir víðsvegar um landið.

Fljótlega varð okkur það ljóst að hvergi var til heildarskrá um hverjir höfðu sveinsréttindi. Vinnan við að safna saman staðfestum upplýsingum varð vegna þessa mun meiri og erfiðari en við höfðum gert okkur grein fyrir. Einnig voru það okkur veruleg vonbrigði hversu seint og illa menn svöruðu spurningalistum sem við sendum út. Eftir tveggja ára starf réðum við Hólmfríði Gísladóttur til að aðstoða okkur við söfnunina. Hún vann gríðarlega mikið og verðmætt starf við að elta uppi upplýsingar bæði hjá einstaklingum, Hagstofu Íslands og söfnum.
Hjá menntamálaráðuneytinu er til skrá um hverjir hafa tekið sveinspróf eftir lýðveldisstofnunina 1944, en göt eru í þeirri skrá vegna eldsvoða þar sem gögnin voru geymd. Þrátt fyrir að lögð hafi verið gífurleg vinna í að fá staðfestingar á hverjir hafa tekið sveinspróf eða fengið iðnréttindi, eiga vafalaust eftir að koma fram nöfn sem okkur hefur sést yfir. Einnig er næsta víst að afkomendur ýmissa frumkvöðla í íslenskri rafiðnaðarsögu telji að nöfn þeirra eigi heima í Rafvirkjatalinu.

Ritnefndin vill gjarnan fá allar upplýsingar, svo hægt sé að hafa Rafvirkjatalið sem réttast. Störfum við það er ekki lokið, t.d. þarf að bæta þeim við sem ljúka sveinsprófum á komandi árum. Sú skrá sem varð til við störf nefndarinnar, er eina heildarskráin sem til er yfir rafvirkja og rafvélavirkja. Hún hefur nú þegar reynst mikið og verðmætt hjálpargagn við starfsemi FÍR.

Vegna lélegra skila rafvirkja var skráin að nokkru leyti unnin upp úr gögnum sem ritnefndin og Hólmfríður söfnuðu. Það vantaði því mikið af ljósmyndum auk þess sem margir sendu okkur einungis spurningalistann til baka en ekki ljósmyndir. Í ársbyrjun 1993 réði ritnefndin Sigurð Steinarsson til þess að safna saman ljósmyndum. Á haustdögum 1993 töldum við að verkið væri nú loks komið svo vel á veg að það væri tilbúið til útgáfu. Haft var samband við útgefendur og tókust samningar við Þjóðsögu. Páll Bragi Kristjónsson í Þjóðsögu og Þorsteinn Jónsson í Ættfræðistofunni fóru yfir verkið. Þá kom í ljós að gallar voru á uppsetningu og víða ósamræmi í framsetningu á upplýsingum. Við höfðum lagt gífurlega vinnu í verkið og gátum því ekki hugsað okkur að senda það frá okkur með þeim göllum sem sérfræðingarnir bentu á. Því var valinn sá kostur að endurvinna verkið. Til þess að ljúka þessari vinnu sem allra fyrst var Þór Ottesen ráðinn til viðbótar. Hafa þeir Sigurður, ásamt ritnefndinni undir stjórn Þorsteins Jónssonar, endurunnið alla skrána, leiðrétt og aukið.

Margskonar vandamál hafa orðið á vegi okkar, m.a. það hvernig menn hafa viljað að upplýsingar væru settar fram. Stundum hefur verið um að ræða óskir sem ritnefndin gat ekki tekið tillit til vegna heildarsamræmis og lágmarksupplýsinga um einstaklinga. Þó er það svo, að mun oftar hefur verið farið eftir þeim. T.d. hefur það álit komið fram að menn hafi ekki numið rafvirkjun við iðnskóla, heldur hjá rafvirkjameistara. Hér er um að ræða túlkunaratriði á texta, en allir vita á hvern hátt nám rafiðnaðarmanna er skipulagt. Eftir ítarlega umfjöllun var valin sú framsetning sem er í bókinni.
Við samningu spurningablaða setti ritnefndin sér það markmið að vera ekki að leita eftir ítarlegum upplýsingum um ætterni tengdaforeldra, eða um móður barns sem viðkomandi átti utan hjónabands og foreldra hennar. Nokkrir hafa haft samband við okkur og talið að þessar upplýsingar ættu að vera í bókinni, en þessu varð ekki breytt. Þó eru þessar upplýsingar birtar ef viðkomandi hefur sent þær inn með spurningalistum.

Það er sumum tilfinningamál hvort greint er frá fyrrverandi mökum eða barnsmæðrum og börnum sem þeir eiga. Við völdum þá leið að birta það sem er öllum aðgengilegt í opinberum gögnum, í þeim tilfellum sem upplýsingar bárust ekki frá einstaklingum. Oft vantaði upplýsingar um foreldra eða tengdaforeldra og ótrúlega oft voru ártöl röng. Þetta var leiðrétt í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.
Mjög algengt var í þeim upplýsingum sem við fengum að einungis væru lágmarksupplýsingar um börn, maka og foreldra en ekki var stafkrókur um starfssögu. Að mati undirritaðs er starfssagan oftast mun forvitnilegri og hjálpar manni oftast að átta sig á því hver viðkomandi er. Það er oft erfitt að afla upplýsinga um starfssögu en við reyndum eftir bestu getu þar sem hana vantaði.

Skráning sögu FÍR hefur oft borið á góma á undanförnum áratugum. T.d. birti Óskar Hallgrímsson fyrrv. formaður félagsins nokkrum sinnum kafla úr sögu félagsins í tímaritum FÍR á árunum 1950 – 1965. Þetta var oft rætt á fundum t.d. gaf Samvirki á 50 ára afmæli FÍR 100.000 kr. til þessa. Ekkert var gert í þessu, en þegar vinna var hafin við söfnun í Rafvirkjatalið árið 1987 bar skráningu á sögu félagsins oft á góma. Haft var samband við aðila sem oft hefur tekið að sér samskonar verkefni. Fljótlega eftir að hann hóf þessa vinnu réði hann sig til skráningar á sögu annarra félagasamtaka og hætti þá.
Ég hef oft leitað í eldri fundargerðir eftir upplýsingum og margt áhugavert hefur orðið á vegi mínum. Margir eldri félagsmenn hafa einnig sent félaginu margskonar upplýsingar um upphafsárin. Þetta ásamt því sem Óskar hafði birt, varð til þess að fyrstu drög að sögu FÍR urðu til. Það var svo sumarið 1992 að ég settist ákveðið að þessu verkefni þegar tími vannst til og vann mikið í því fram á sumar 1993, var þá kominn að upphafsárum formennsku Óskars Hallgrímssonar, u.þ.b.1950.
Þá varð ég að leggja verkefnið til hliðar vegna anna. Þegar svo að útgáfu Rafvirkjatalsins dró, var um það rætt meðal forystumanna félagsins hvort ég gæti ekki gengið frá verki mínu og það yrði birt sem inngangur í Rafvirkjatalinu. Í þessum skrifum var fjallað um upphaf notkunar rafmagns og þá félagslegu þróun sem átti sér stað á síðustu öld og varð til þess að stéttarfélögin voru stofnuð á fyrstu árum þessarar aldar. Þetta verk er ekki heildarsaga FÍR, það fjallar um aðdraganda að stofnun félagsins og fyrstu starfsár þess.
Það væri ekki óeðlilegt að félagið setti sér það mark, að t.d. á 75 ára afmæli þess verði sagan gefin út og þá viðbætur og hugsanlegar leiðréttingar á Rafvirkjatalinu.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn svona verk. Við frágang hef ég notið margskonar leiðbeininga frá prófarkalesurum um hvað mætti betur fara, hér er um að ræða Svavar Guðbrandsson, Bjarna Sigfússon, Kolbrúnu Friðriksdóttir og Þorkel Örn Ólafsson. Auk þess hafa Páll Bragi Kristjónsson og Þorsteinn Jónsson komið fram með margar góðar ábendingar. Öllu þessu fólki stend ég í mikilli þakkarskuld við.

Fyrir hönd ritnefndar,
janúar 1995, Guðmundur Gunnarsson

1. KAFLI

RAFMAGNIÐ UPPGÖTVAÐ

UPPHAF RAFMAGNSINS

Langt er síðan maðurinn uppgötvaði rafmagn, en árhundruð liðu áður en hann fór að gera sér grein fyrir notagildi þess. Í fornöld er talið að Egyptar hafi þekkt það og hagnýtt sér við helgisiði sína. Lýsing biblíunnar á sáttmálsörk Gyðinga og hinum allra helgasta stað, sem hún var geymd á, bendir eindregið til þess að prestarnir hafi hagnýtt sér gildi rafmagns.
Örkin og altarið voru gerð sem þéttar sem hægt var að hlaða upp til nokkuð hárrar spennu. Örkin var gerð af akasíuviði, sem er þéttur og góður einangrari og var gullrekinn að innan og utan. Hinn heilagi eldur sem hljóp í menn er þeir snertu hana, fékkst með því að menn voru látnir draga af sér skó og stóðu óeinangraðir á tjaldbúðargólfinu. Hleðslan fékkst með því að láta olíulampa síbrenna á altarinu, en við það fékk lampinn jákvæða hleðslu sem leiddi í sáttmálsörkina.
Líklegt þykir að maðurinn hafi þekkt hina sérstæðu eiginleika segulsteina þegar á steinöld. Þeir voru notaðir á miðöldum sem leiðarsteinar skipa, til þess að segla hinn frumstæða áttavita miðaldaskipanna. Í fornum grískum heimildum er greint frá því, að sé raf núið með klút, geti það dregið að sér ýmsa létta hluti, en raf nefnast gulir, gagnsæir steinar, sem voru mjög eftirsóttir skartgripir. Raf hét á grísku “electron”.

Á 16. og 17. öld var farið að nota silki. Menn gengu í ullarsokkum og gjarnan í silkisokkum utan yfir á tyllidögum. Þegar silkisokkurinn var dreginn af fætinum, utan af ullarsokknum, var hann hlaðinn og neisti hljóp á milli og höfðu menn mikla skemmtan af þessu.
Á 18. öld fann Ítalinn Galvani upp rafhlöðu, þétti sem kenndur er við hann. Galvani útskýrði niðurstöður sínar á rangan hátt. Skömmu síðar hóf landi hans, Alessandro Volta, sem var prófessor við háskólann í Pavia, tilraunir með rafmagn. Árið 1800 uppgötvaði hann að við rök samskeyti tveggja málmtegunda hljóp rafstraumur. Volta útbjó sér hlaða af málmplötum úr silfri og sinki, sem lágu á víxl hver ofan á annarri. Á milli platanna lagði hann pjötlu sem hafði verið vætt í saltupplausn. Væru efsta og neðsta platan tengdar saman hljóp þar um rafstraumur.
Benjamín Franklín lét flugdreka reika um þrumuský og gat með því sannað að eldingar væru rafmagnsneisti. Hann kom fram með skilgreininguna á jákvæðu og neikvæðu rafmagni. Árið 1820 uppgötvaði danski eðlisfræðingurinn Örsted rafsegulmagnið. Frakkinn Charles Coulomb skilgreindi rafkraftinn. Frakkinn Ampere (1775-1836) skýrði rafsegulmagn sem hringrás rafhleðslna. Þjóðverjinn Georg Símon Ohm (1787-1854) komst að raun um að styrkleiki rafstraums færi eftir hlutfallinu milli spennu hans og viðnáms gegn honum. Nokkrum árum síðar var farið að nota þessa þekkingu í samskiptum með morse sendingarkerfinu.

Englendingurinn Mikael Faraday (1791-1867) bætti uppgötvun Örsteds og sannaði að segulmagn gæti haft áhrif á rafmagn og uppgötvaði þannig spanstrauminn, og lagði þar með grunninn að rafvélinni. Í kjölfar þess sýndi annar Englendingur, James Maxwell (1831-1879) árið 1864 fram á að í rafsegulsviði ætti sér stað bylgjuhreyfing með ljóshraða. Maxwell skýrði öll þekkt fyrirbæri rafsegulfræðinnar með fjórum jöfnum, en átti torvelt með að sýna fram á hvað hann ætti við, því enginn hafði orðið var við þessar bylgjur. Þetta var ekki staðfest fyrr en mörgum árum síðar, að Þjóðverjinn Hinrik Hertz (1857-1894) gerði sér lítið fyrir árið 1888 og sannaði með tilraunum að jöfnur Maxwells stæðust. Þjóðverjinn Röntgen (1845-1923) uppgötvaði árið 1895 rafsegulgeisla sem voru náskyldir ljósi, en með miklu meiri öldulengd. Þessi uppgötvun átti eftir að valda byltingu í sjúkdómsgreiningu.

Um miðja 19. öld var fyrsti rafallinn byggður eftir kenningum Faradays, en hann var þá til lítils gagns því rafveiturnar vantaði. Menn voru víðs vegar í veröldinni að finna upp á ýmsum hlutum er varðar rafmagnið en þetta var allt sundurleitt og til lítilla nota. Fyrsta rafknúna járnbrautarlestin var tekin í notkun í Þýskalandi árið 1879.

Á mikilli rafmagnstækjasýningu í París árið 1881 má segja, að allri þekkingu og nýjum tækjum í rafmagnsfræði væri safnað saman á einn stað. Það má fullyrða að engin sýning hvorki fyrr né síðar hafi haft jafnmikil áhrif, og sprenging varð í verkfræðilegri þróun eftir hana. Þarna komu saman menn með margar nýjungar, m.a. Edison með glólampann sinn, kolþráðarlampann.
Fyrsta almenningsrafveitan var opnuð í London 12. janúar árið 1882 og sama ár, þann 4. september opnaði Thomas Alva Edison stöð í New York. Sú stöð framleiddi orku fyrir 1.300 ljósaperur. Upp úr þessu hófst saga rafveitna, fyrst voru það litlar ljósastöðvar í helstu hverfum stórborga, þetta voru ljósaveitur með bogalömpum. Aldrei virtist skorta úrræði til þess að leysa úr þeim vandamálum sem komu upp, allir voru rafvirkjar. Fregnir af Parísarsýningunni bárust hingað árið 1882. Rætt var um mikla furðusýningu í París, en menn hér á landi gerðu sér skiljanlega ekki fulla grein fyrir því hvaða nýjungar voru þarna á ferð.

Tækniþróunin var mishröð eftir löndum. Englendingar nutu lengi forskotsins sem þeir höfðu frá upphafi iðnbyltingarinnar. En önnur lönd fylgdu fast á eftir. Grundvöllurinn að aukinni iðnaðarframleiðslu varð sífellt traustari. Járnvinnsla jókst hröðum skrefum og stálframleiðsla fór batnandi. Bensín-, dísilvélar og rafmótorar gjörbreyttu framleiðslugetu iðnfyrirtækja og var mikið notað til þess að knýja litla rafala til húsveitna. Árið 1885 var fyrsta stöðin í Noregi opnuð og árið 1892 í Danmörku. Nú var farið að flytja orku á milli staða og spennar voru teknir í notkun.

SKAMMDEGISMYRKUR Á ÍSLANDI

Skemmstur sólargangur í Reykjavík er um fjórar klukkustundir. Það má örugglega halda því fram, að baráttan við myrkrið hefur verið ofarlega í hugum Íslendinga alla tíð. Um langan aldur var skammdegismyrkrið einn af höfuðóvinum íslensku þjóðarinnar, sem menn urðu að berjast við með þeim föngum sem landið sjálft veitti.

Mörin úr kindunum, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi, hákarlslýsi og lýsi úr fiskalifur. Kveikirnir voru gerðir úr fífu. Ljósaáhöldin voru kolur og lampar. Þetta ljósmeti var dýrt og óhentugt, svo það var sparað eftir föngum. Mun þá hafa verið venja að kveikja ekki ljós fyrr en seint í október, eða með vetrarkomu, þegar dagsbirta er ekki nema um þriðjung sólarhringsins. Ekki var þó kveikt um leið og fór að skyggja, heldur fengu menn sér þá rökkurblund og mun hafa verið venja að vakna svo klukkan 6. Þegar ljósið kom tóku menn til við vinnu og var venja að allir kepptust við fram að klukkan 22. Þá var víðast lesinn húslestur og menn gengu til náða.

Það var ekki allra siður að sofa í rökkrinu, sums staðar var það siður að kveikja ljós undir eins og skuggsýnt var orðið og hefja þá þegar innivinnu og keppast við fram að háttatíma. Var þetta einkum á heimilum útvegsmanna, þar sem var margt fólk og mörgu þurfti að afkasta áður en vermenn kæmu heim. Nú mundi engum detta í hug að vinna við þessa lélegu birtu, en við megum ekki gleyma að við þessa birtu voru mörg meistaraverk unnin. Fornsögur voru ritaðar og margir hagleiksmenn unnu listaverk sem enn er dáðst að.

En úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram.

Þannig var ástandið til ársins 1860 þegar nýtt ljósmeti kom til sögunnar sem olli byltingu. Steinolíulamparnir fóru þá að flytjast til landsins. Fyrst voru þeir notaðir í sölubúðum og íbúðarhúsum kaupmanna í Reykjavík. Upp úr árinu 1870 fóru þeir að tíðkast í torfbæjum. Og bæjarstjórn Reykjavíkur var stórhuga. Hún fékk 2.000 kr. lán í hafnarsjóði til þess að kaupa götuljósker, sem komu hingað árið 1876. Fyrsta ljóskerinu var valinn staður á Lækjarbrúnni við Bankastræti. Það var kveikt á því 2. september sama ár. Eitthvað var gleði bæjarbúa blandin og töldu sumir að það væri hreint og klárt hneyksli að bæjarstjórn væri að taka lán úr hafnarsjóði til þess að lýsa fyllibyttum og þjófum til vegar um bæinn.

Þessi ljósker voru notuð til ársins 1910, en þá hófst rekstur gasstöðvar í Reykjavík. Þá var kveikt á 207 nýjum ljóskerum, eða um helmingi fleiri en áður voru. Með gasstöðinni hófst bylting í baráttu Íslendinga við myrkrið og margir létu setja gasljós í híbýli sín. Edison fann upp rafmagnsperuna árið 1879 og strax í febrúar árið 1880 flutti Þjóðólfur fregn um þennan atburð.

FYRSTA RAFMAGN Á ÍSLANDI

Á 18. öld fóru að berast upplýsingar um rafmagn til Íslands. Magnús Stephensen lýsti eiginleikum þess árið 1793. Í þeirri lýsingu notaði hann orðið rafkraftur sem Jónas Hallgrímsson breytti síðar í rafurmagn. Í orðabók Konráðs Gíslasonar kemur orðið rafmagn fram. Árið 1852. þýddi séra Magnús Grímsson á Mosfelli og gaf út eðlisfræði í samráði við Bókmenntafélagið. Þar voru sýndar ýmsar eðlisfræðilegar tilraunir sem tengdust rafmagni og segulmagni.

Breskt tilboð um raflýsingu Reykjavíkur barst árið 1888. Nota átti 10 ha. gufuvél til þess að framleiða rafmagnið. Bæjarfulltrúar voru langt frá því að vera reiðubúnir að samþykkja svona byltingarkennda tillögu og henni var umsvifalaust hafnað. Kennslutæki í rafmagni voru keypt til Lærða skólans á árunum 1888 og 1889. Ætla má að þá hafi verið í fyrsta skipti kveikt á peru á Íslandi. Það næsta sem hægt er að segja úr sögu rafmagns hér á landi, er að árið 1894 var rætt á Alþingi hvort raflýsa ætti þinghúsið, en úr því varð þó ekki.

Árið 1894 kom til Reykjavíkur frá Kaupmannahöfn Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson. Hann hafði stundað sjálfsnám í Vesturheimi í rafmagnsfræðum, m.a. var talið að hann hefði unnið hjá Edison. Frímann kom einkennilega fyrir, hann var fullur af skrumi og skrýtilegheitum og var illa til fara og staurblankur. Nokkrir Íslendingar komu honum til hjálpar í Kaupmannahöfn og sendu hann heim.
Hann fór fram á það bréflega við bæjarstjórn að hún kannaði hversu mikið vatnsmagn væri í fossum Elliðaánna og vegalengd frá þeim í bæinn. Sumum bæjarfulltrúum fannst þetta furðuleg dirfska, “að eitthvert aðskotadýr úr Vesturheimi skyldi dirfast að biðja bæjarstjórn um svona upplýsingar. Honum væri nær að afla þeirra sjálfur.”

Það kom fram við þessar umræður í bæjarstjórn, að bæjarbúar eyddu 20 þús. kr. í steinolíu í 62 götuljós í bænum. Eftir miklar umræður var ákveðið að verja 30 kr. til þess að afla þeirra upplýsinga sem Frímann óskaði eftir. Sæmundur Eyjólfsson búfræðingur var fenginn til verksins. Hann mældi hæðina í Skorarhylsfossi og reyndist hún vera 21 fet, en vatnskrafturinn 960 hestöfl.

Að þessum upplýsingum fengnum hélt Frímann geysilega langan og háfræðilegan fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu fyrir fullu húsi. Með endalausum útreikningum og rafmagnsformúlum komst hann að þeirri niðurstöðu að með þessu afli mætti fá 20 faldan þann kraft sem þyrfti til þess að lýsa 200 hús í Reykjavík með þremur átta kerta perum, og götur bæjarins með álíka lýsingu og þegar væri á þeim. Hann áætlaði að virkjun ásamt öllum tækjum til raflýsingarinnar myndi kosta 60 þús. kr. En ef farið væri í rafhitun líka myndi kostnaðurinn verða með öllum rafmagnsofnum 250 þús. kr., Árlegur rekstrarkostnaður myndi verða um 30 þús. kr. Þessu svaraði bæjarstjórn með því að kalla Frímann “humbugista og þetta væru svo háar tölur, að auðvitað kæmu þær ekki til greina.”
Þetta varð revíuhöfundum efni í eftirfarandi söngtexta í fyrstu íslensku revíunni sem sýnd var í Reykjavík í leikhúsi Breiðfjörðs, 6. janúar 1895:

Við Arnarhól er höfuðból
þar er hálært bæjarþing
sem vantar eitt og vantar eitt,
það vantar alltaf, viti menn,
og vill fá – upplýsing.
Og þessu spurning kemst í kring;
Hvað kostar raflýsing?

Frímann fór nú til Skotlands og árið 1895 rakst Einar skáld Benediktsson á hann í Leith. Einar taldi Frímann á að fara á nýjan leik til Reykjavíkur. Nú hafði Frímann með sér þrjú tilboð frá þekktum rafmagnsfélögum, tveimur enskum og einu þýsku. General Electric í London bauðst til þess að koma upp aflstöð við Elliðaár, koma fyrir rafmagnslömpum í 200 húsum, á götum og við höfnina fyrir 59 þús. kr. Siemens Bros í London vildi reisa 1000 hestafla virkjun og selja öll áhöld til lýsingar og hitunar fyrir 225 þús. Siemens og Halske í Berlín gerði einnig tilboð en ekki eru til upplýsingar um hvernig því var háttað.

Frímann kom þessum tilboðum til bæjarstjórnar. Nú var honum ekki tekið með sama þvergirðingshætti og áður. Var samþykkt að kanna hug Reykvíkinga til rafvæðingar. En áhugi bæjarbúa var lítill eða að meðaltali jafngildi um 21 kertaljóss á hús, málið náði þar með ekki fram að ganga.

Frímann setti fram margar hugmyndir. Hann taldi gerlegt að breyta stefnu Golfstraumsins með þeim afleiðingum að loftslag myndi stórum hitna hér, á Grænlandi og í Norður-Ameríku. Einnig var honum hugleikið hversu mikil eyðilegging fylgdi eldgosum. Hann taldi að eldfjöll væru nokkurskonar yfirþrýstingsventlar jarðar, þar sem innilokaðar lofttegundir og vatnseimur söfnuðust upp við aðgang að miklum hita úr jarðskorpunni. Með því að bora göt á eldfjöllin mætti leiða yfirþrýstinginn í pípum til sjávar eða til annarra staða þar sem útgufun þeirra myndi ekki valda skaða. Frímann varð sér út um alfræðibækur þar sem kom fram að kostnaður við gerð járnbrautarganga væri um 4 millj. franka á km. Hann aflaði sér upplýsinga um að Hekla væri 1460 m á hæð og um 7-8 km að þvermáli. Út frá þessum upplýsingum reiknaði Frímann að Íslendingar gætu losað sig við eyðileggingu frá Heklugosum með því að hleypa út yfirþrýstingi af henni í gegnum pípugöng fyrir 30 millj.kr. Frímann lét ekki þar við sitja, heldur aflaði hann sér upplýsinga um að það væru 330 virk eldfjöll í byggð í veröldinni og reiknaði út kostnað við að gera þau óvirk: “30 x 330 : 9,9 milljarðar kr., eða ekki helmingi meira en Evrópa eyðir árlega í vínföng og stríðskostnað. Samdi jeg ritgerð um það, með teikningum, til að skýra hvernig jeg hugsaði mjer að göngin yrðu grafin og verkið unnið. Jeg varði til þess eitthvað tveimur til þremur mánuðum. Jeg mun hafa sýnt blaðinu Cosmos þessa ritgerð, en þeir birtu hana ekki, enda fóru vísindamenn Frakka þá bæði að rannsaka Mont Peel og síðan að skrifa um hvernig helst mætti verjast tjóni af eldgosum.”

Og skáldin sömdu revíusöngva:

Þúsund hesta þrótt,
Þúsund og eina nótt,
amperés, voltas, elektrós,
en ætli það gefi nokkur ljós,
að ræða um raffærin og ræskja skraffærin
og reikna öll feikn við gjósandi glóðir og ós?

Valgarður Ó. Breiðfjörð ritstjóri var mikill áhugamaður um hvers kyns framfarir, hann varð vinur Frímanns og í samvinnu smíðuðu þeir rafhlöðu og tengdu við hana peru sem gaf frá sér dauft ljós. Þetta varð Valgarði hvatning til þess að kynna sér enn frekar rafmagnsáhöld og sumarið 1896 hafði hann rafmagnsdyrabjöllur til sölu.
Tveim árum síðar, 7. maí 1898, auglýsti Eyjólfur Þorkelsson, fyrsti lærði úrsmiður Reykjavíkur í Ísafold: “Rafmagnsdyrabjöllur með öllu tilheyrandi mjög ódýrar. Tilsögn fæst í að setja þær upp. Bjöllur þessar eru mjög nytsamar í stórum húsum.

Stundaklukkur sem ganga með rafkrapti fást einnig. Þær eru mjög góðar í stórhýsi, þar sem þyrfti margar klukkur, því ekki þarf nema eina almenna klukku til að stýra mörgum rafklukkum og það er mikill sparnaður sjérílagi í viðhaldinu. Þeir sem kynnu að vilja fá sjér eitthvað af þessum raftólum gjöri svo vel að líta við hjá mjér”.

FYRSTU VIRKJANIR

Ekki var unnt að leggjast í margskonar stórframkvæmdir í einu. Það var eðlilegt, að bæjarfélagið hugsaði fyrr um hafnarframkvæmdir en um rafmagn til ljósa og götulýsingar. Neysluvatn sóttu menn í fötum og skjólum í brunna, þar sem einatt þraut í þurrkum og frosthörkum. Frárennsli voru opnar göturennur. Heilsufar var þannig að læknirinn Matthías Einarsson, rakti taugaveikifaraldur í bænum til neysluvatns úr einum brunnanna. Bæjarbúar lögðu meiri áherslu á neysluvatn en rafvæðingu.

En eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra. Mór hafði alltaf verið aðaleldsneytið, og mótekjan í Vatnsmýrinni og Kaplaskjóli hafði dugað til þessa, en varð lélegri með ári hverju. Bærinn óx í austurátt, og Austurbæingar sóttu sinn mó austur á bóginn, í Norðurmýri, Elsumýri og síðar í Kringlumýri, en austubæjarmórinn þótti lakari.

Um miðja nítjándu öld voru Reykvíkingar um 1.200 talsins, en á fyrsta áratug þessarar aldar fjölgaði bæjarbúum mikið og árið 1910 voru þeir orðnir 11.500. Mörg verkefni biðu bæjarstjórnarinnar, en vatnsveitan var talin brýnust. Árið 1906 keypti bærinn Elliðaárnar vegna vatnsveitunnar. Landsfeður höfðu ekki mikla trú á framtíð raforkunnar. Rafveitumál voru mikið rædd í Reykjavík um og eftir aldamótin, einkum var deilt um hvort betra væri að setja upp gasstöð til suðu eða rafstöð til ljósa. Umræðurnar enduðu með því að reist var gasstöð 1910. Var stöðin í fyrstu nýtt bæði til ljósa og suðu, einnig voru settir upp nokkrir gashreyflar.  Einar Benediktsson byrjaði um aldamótin að ræða um beislun fossanna. Hann samdi um leigu og kaup á nokkrum fossum og leitaði til útlanda. Menn sáu þá líkt og nú ekki nokkurn grundvöll fyrir nýtingu okkar stóru fallvatna.

Eyjólfur Þorkelsson úrsmiður þótti hugvitssamur og smíðaði ýmsa gripi sem vöktu athygli. Björn Jónsson ritstjóri fékk, árið 1897, 8-10 hestafla olíuvél og lét hana knýja hraðpressu í prentsmiðju sinni. Haustið 1899 rafvæddi Eyjólfur vélaherbergi prentsmiðjunnar og leiddi einnig þráð til sín í Austurstræti 6 og setti upp tvö ljós á vinnustofu sinni. Þriðja herbergið sem hann setti upp ljós í var skrifstofa Ísafoldar. Notaðir voru 16 kerta bogalampar. En mótorinn var svo máttlaus að einungis var hægt að halda lifandi þremur lampanna í senn. Haustið 1900 skrifaði Eyjólfur bréf til bæjarstjórnar og bauðst til þess að útvega tilboð frá þýsku fyrirtæki í raflýsingu og rafhitun í bæinn. Bæjarstjórn skipaði nefnd í málið og tilboð barst í virkjun Varmár í Mosfellssveit. Þetta mál dagaði uppi.
Jóhannes J. Reykdal réðst í að koma fyrstu rafmagnsstöðinni á Íslandi fyrir í nánd við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Þetta stórvirki vann hann einn og óstuddur og Hafnarfjörður varð fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi. Fyrsti rafallinn var 9 kW 230 volta rakstraumsrafall frá Frognerkilens Fabrik í Ósló. Hann snérist 620 snún. á mín. og vó 1,5 tonn. 1906 virkjaði Jóhannes enn við Hafnarfjarðarlæk og nú með 37 kW rafli. 1909 keypti Hafnarfjarðarbær þessa stöð. Um 16 húsveitur með 150 lampastæðum voru tengdar við hana. Hver pera var 16 kerta eða 25 wött. Þessi stöð var notuð lengi og síðar var sett upp dísilstöð henni til aðstoðar. Jóhannes keypti stöðina aftur 1926 og starfrækti hana til 1952 fyrir bú sitt að Setbergi. Dísilstöð sá alfarið um rafmagnið til Hafnarfjarðar næstu árin.

Sú saga er til, að rétt um aldamótin hafi Jóhannes Reykdal hitt Einar Benediktsson á götu í Kaupmannahöfn. Jóhannes bað Einar að lána sér 100 kr.
“Hvað ætlar þú að gera með þær?” spurði skáldið.
“Ég ætla að rafvæða Ísland”, svaraði Jóhannes.
Einar horfði um stund á viðmælanda sinn og sagði síðan: “Það er þarft verk” og rétti honum peningana.
Einhvern tíma síðar hittust þeir Einar og Jóhannes í Reykjavík og greiddi þá Jóhannes skáldinu skuld sína. Einar spurði: “Nú, hættirðu við að raflýsa?”
“Nei, ég er hálfnaður”, svaraði Jóhannes.

Á bæjarstjórnarfundi 7. maí árið 1914 var ákveðið að athuga virkjunarmöguleika í Elliðaánum. Norskt verkfræðifyrirtæki var fengið til þess að mæla fyrir Elliðaárvirkjun árið 1916 og skilaði árið 1917 áætlun um 5 þús. hestafla virkjun, jafnframt kom áætlun um 8 þús. hestafla virkjun í Sogi. Árið 1915 var íbúafjöldi Reykjavíkur 14 þús. Þessar áætlanir voru mönnum ofviða og íslenskir verkfræðingar, Guðmundur Hlíðdal og Jón Þorláksson, voru fengnir til að lækka þær. Þeir lögðu fram áætlanir sínar í maí 1918, þar komu fram tveir kostir. Annars vegar var þús. hestafla stöð við Ártún, sem mátti stækka, hins vegar var 5 þús. hestafla stöð við Grafarvog, ekki fjarri því sem sjúkrastöð SÁÁ stendur nú. Hún yrði gerð með því að grafa skurð úr Elliðavatni yfir í Rauðavatn og leiða vatnið þaðan niður í Grafarvog.
Upp úr aldamótunum var farið að ræða um stórvirkjanir. Innlend og erlend fossafélög skiptu stóránum á milli sín. Helstu fallhæðir voru mældar og rennsli kannað. Einar Benediktsson stofnaði með Norðmönnum hlutafélög um virkjanir í Skjálfanda og Dettifossi. Fossafélagið eignaðist virkjanarétt í Gullfossi og fleiri fossum. Einar stofnaði hlutafélagið Titan um virkjanir í Þjórsá árið 1914. Árið 1918 var gefin út bók þar sem hönnun og vatnsmælingum var lýst fyrir 6 virkjanir í Þjórsá.

Viðbrögð voru misjöfn. Sumir hrifust af stórhugnum, en aðrir settu fyrir sig náttúruverndarsjónarmið. Árið 1907 voru sett á Alþingi fossalög. Þar var tekið fram að þeir einir hefðu umráðarétt yfir fossum sem ættu lögheimili á Íslandi.

Hinn 16. jan. árið 1917 flutti Jón Þorláksson landsverkfræðingur erindi sem braut blað í vatnamælingum hér á landi. Þungamiðja erindisins voru hugleiðingar um hvort tímabært væri að hugsa um rafmagn til almenningsnota eða ekki. Jón sagði m.a.: “Það hafa ekki farið fram svo ég viti, fyrr en í sumar, nokkrar rannsóknir á vatnsafli landsins, nema hvað núverandi borgarstjóri Knud Zimsen athugaði árið 1901 nokkra smáfossa í sambandi við undirbúning stofnun klæðaverksmiðju, en þær rannsóknir voru gerðar að tilhlutan landsstjórnarinnar. Einstakir menn og félög, sum hálfútlend og sum alútlend, hafa látið gera nokkrar athuganir um hina stærri fossa, sem ráðgert hefur verið að nota til áburðarframleiðslu eða annars verksmiðjuiðnaðar, en ekkert af þessu hefur birst opinberlega, svo ég viti”.
Og Jón sagði síðar í erindinu: “Fullkomna mynd af fossabraskinu gefa veðmálabækurnar að vísu ekki, en svo mikið má af þeim sjá, að tími er kominn fyrir löggjafavaldið að taka í taumana til þess að tryggja landsmönnum sjálfum hentugustu fossana í hverjum landshluta til fullnægingar sínum eigin þörfum”.

Upp úr þessu var farið að vinna við landmælingar og hannanir á virkjunum í Soginu. Allt reyndist okkur ofviða og það var ekki fyrr en árið 1934 sem gengið var frá útboði í Ljósafossvirkjun og ákveðið að setja upp tvær vélasamstæður, 12,5 þús. hestöfl samtals (8.800 kW). Árið 1937 var svo ráðist í Sogsvirkjun, fyrstu stórvirkjunina.

Síðan má segja að hver virkjunin reki aðra: Árið 1939 Laxá í Þingeyjarsýslu, 1944 aukning Sogsvirkjunar og sama ár var Laxárvirkjun stækkuð, 1945 Skeiðárfoss fyrir Siglufjörð og 1947 Andakílsárvirkjun. Stærsti áfanginn náðist 1953 með virkjun Laxár og Írafoss. Þá var talið að 85% landsmanna hefðu raforku til afnota, en aðeins 1,3% af virkjanlegu vatnsafli nýtt, eða um 80 þús. kW.

Á bæjarstjórnarfundi 4. desember árið 1919 var ákveðið að virkja eftir þeirra tillögum þús. hestafla virkjun við Ártún. Hún stækkaði í meðförum nefnda í 1.500 hestöfl og tók til starfa árið 1921 og náði til 773 heimtauga. Í kjölfar þessa lögðust allar mótorvirkjanir niður. Hin stærsta þeirra, frá Nathan og Olsen, var flutt Hafnarfjarðar til hjálpar Reykdalsstöðinni eins og áður hefur komið fram.
Virkjunin við Elliðaár var fullnotuð á tveim árum, þá var bætt við þriðju vélasamstæðunni, 1.000 hestafla vatnshverfli. Í Reykjavík voru smárafstöðvar, drifnar af litlum bensínrokkum, reistar við hús víðsvegar um bæinn. Þetta var algengt fram að fyrri heimsstyrjöld. Engin lög eða reglugerðir voru um þetta og mikil slysa- og brunahætta af þessum stöðvum. Árið 1920 voru 20 rafstöðvar í Reykjavík, flestar fyrir eitt hús hver, þetta voru 110 volta rakstraumsvélar.

FYRSTI ÍSLENSKI RAFVIRKINN

Halldór Guðmundsson, f. 14. 11. 1874 að Eyjarhólum í Mýrdal. Hann fluttist 8 ára gamall með foreldrum sínum að Felli í sömu sveit. Þar dvaldist hann til 13 ára aldurs, er foreldrar hans fluttust úr Mýrdalnum að Laxnesi í Mosfellssveit árið 1888. Um Halldór segir í Óðni, XX. árg., bls. 63: “Félaus og heilsulítill lagði hann af stað úr föðurgarði 18 ára gamall, með einlægum ásetningi um að afla sér menntunar á eigin spýtur”.

Árið 1894 var hann skráður sem járnsmíðanemi hjá Þorsteini Jónssyni járnsmíðameistara á Vesturgötu 33. Þar lauk hann 4 ára námi í járnsmíði í júlí 1898. Veturinn 1898-1899 var hann innritaður í alþýðuskóla í Reykjavík, meðal annars til tungumálanáms. Hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1899. Þar innritaðist hann í vélskóla. Hann lauk námi í vélfræði 28. ágúst 1901. Árið eftir vann hann baki brotnu við byggingu véla og prófun þeirra til þess að afla sér fjármuna til frekara náms. Hann var farinn að velta fyrir sér íslenskum fossum og rafmagni og sótti um styrk til Alþingis en fékk synjun. Þrátt fyrir það tók hann sig upp í ágúst 1902 og fór til Berlínar, ákveðinn í að komast í raffræðiskóla. Hann komst inn í “Fachschule für Elektrotechnik an der I. Handwerkerschule zu Berlin” og lauk þaðan prófi 30. sept. 1903. Að loknu prófi vann hann við raflagnir í Berlín, varð brátt meistari þar og tók að sér í ákvæðisvinnu raflagnir í nokkur hús. Fyrri hluta árs 1904 fékk hann lítils háttar styrk frá Alþingi til þess að fara til Sviss og víðar, til að kynna sér rafmagnsframkvæmdir. Þaðan fór hann til Skotlands, hann ætlaði sér að komast í vinnu þar til þess að kynnast málinu frekar. Það tókst ekki, svo hann hélt heim eftir 5 ára dvöl erlendis.

Þegar Halldór kom heim var örlítill áhugi vaknaður á rafmagni í kjölfar erinda Frímanns B. Arngrímssonar og Eyjólfs Þorkelssonar úrsmiðs. Halldór setti upp rafstöð Jóhannesar Reykdal í Hafnarfirði og raflýsti þar nokkur hús. Reykvíkingar litu öfundaraugum á þessar framkvæmdir og veittu Halldóri 600 kr. styrk til þess að kynna sér rafvæðingu í Noregi. Í fróðlegri skýrslu hans kemur m.a. fram sú hugmynd að virkja Sogsfossa sem aflgjafa fyrir Reykjavík, en hann telur þar að langt sé í þá framkvæmd og álítur að 300 ha. stöð nægi til að byrja með. Að frátöldu vatnsaflinu telur hann að tveir dísilhreyflar dugi og áætlar kostnað vegna þeirra 76 þús. kr.

Halldór virtist eitthvað hræðast Elliðaárnar, bæði vegna ísingarhættu og vegna þess að þær voru þá í eigu erlendra manna. Hann skrifaði nokkrar greinar í Ísafold og rak þar á eftir aðgerðum í rafmagnsmálum. Hann fékk Björn Jónsson ritstjóra í lið með sér í baráttunni gegn gasstöðinni. Vegna reynslu Hafnfirðinga og þess að Halldór var við höndina urðu nokkrir Reykvíkingar sér úti um litlar rafstöðvar og lýstu upp hús sín.

Árið 1905 kvæntist Halldór Guðfinnu Gísladóttur, Engilbertssonar verslunarstjóra Brydesverslunar í Vestmannaeyjum. Þau eignuðust tvö börn, Gísla og Hildigunni.
Fyrstu árin eftir að Halldór kom heim lagði hann rafmagnspípur í nokkur hús sem voru í byggingu í Reykjavík. Hann byggði árið 1905 hengibrú yfir Sogið við Alviðru. Árið 1906 stækkaði hann rafstöð Jóhannesar Reykdal og raflýsti stóran hluta Hafnarfjarðar. Sama ár setti hann upp vatnsaflsstöð í Bíldsfelli í Grafningi og raflýsti bæjarhúsin þar. Halldór raflýsti timburverksmiðju Völundar og nokkur fiskhús í Viðey fyrir Milljónafélagið. Þar fékk hann orku fyrir rafalinn frá gufumótor sem notaður var til þess að draga upp bátana. Hann raflýsti ullarverksmiðjuna Reykjafoss í Ölfusi, þar fékk hann orku fyrir rafalinn frá aðalás verksmiðjunnar, sem var knúinn vatnshverfli.

Á næstu árum kom Halldór víða við, t.d. á Vífilsstaðahælinu, Víkurkauptúni, Vestmannaeyjum, Patreksfirði, Bíldudal, Þingeyri við Dýrafjörð, Ísafirði og á Akureyri. Fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst þegar hann var að setja upp stöðina í Vestmannaeyjum. Halldór hafði pantað allar vélar frá Þýskalandi, en þegar þær áttu að flytjast heim höfðu Englendingar bannað allan flutning frá Þýskalandi. Í stað þess að hætta við eða panta aðrar dýrari og verri vélar fór hann sjálfur utan og náði í vélarnar. Á heimleið var komið við í Skotlandi og var mikil hætta á að eftirlitsmenn fyndu vélarnar, en hann slapp heim og kom stöðinni upp á tilteknum tíma.

Á síðustu æviárum Halldórs voru nokkrir einstaklingar farnir að vinna sjálfstætt við raflagnir. Engar reglugerðir voru til eða ákvæði um hver hæfni manna þyrfti að vera til starfa. Af þessum ástæðum var samkeppnin hörð. Hann rak umfangsmikla starfsemi á tímabili, byggði virkjanir víða um land og rak umfangsmikla verslun í Reykjavík. Hann var stundum með yfir 40 manns í vinnu og þótti afburða vandvirkur. Aðalverkstjórar hjá honum voru Eiríkur og Jón Ormssynir, uns þeir stofnuðu sitt eigið fyrirtæki, Bræðurna Ormsson. Eins og Sigurður málari hafði sem kjörorð: “Fátækt er óþrifnaður og óþrifnaður er skortur á smekk.”, þá hafði Halldór sem kjörorð: “Rafmagn er lyftistöng allra framfara, hverju nafni sem nefnast.”
Halldór var alla tíð heilsuveill og andaðist eftir uppskurð í Reykjavík 15. mars 1924 á fimmtugasta aldursári.

BRAUTRYÐJENDUR

Rafmagnslögin voru sett árið 1915, vatnalögin árið 1923, lög um sérleyfi til virkjana voru sett árið 1925 og lög um raforkuvirki árið 1926, sem komu m.a. í stað rafmagnslaganna. Raforkulög voru síðan sett 1946 og orkulög árið 1967. Þar var að finna ákvæði um stofnun rafveitna og einkaleyfi ríkisins til þess að reisa stærri virkjanir en 2 MW.

Þegar Rafmagnsveita Reykjavíkur tók til starfa var samin um hana sérstök reglugerð. Hún var samin eftir norskum fyrirmyndum og staðfest í nóvember árið 1920. Samkvæmt reglugerðinni voru samdar raflagnareglur og löggildingarskilyrði fyrir rafvirkjameistara, að miklu leyti eftir dönskum reglugerðum. Þá var ekki komið á neitt eftirlit af ríkisins hálfu, en lagningareglurnar höfðu mikil áhrif á að samræma og vanda efnisval. Fyrsti eftirlitsmaður raflagna var norskur maður, rafvirkjameistari sem kom hingað árið 1920 en fór árið 1923. Þá tók við Nikulás Friðriksson. Hann hafði starfað sem línumaður við Rafveituna frá árinu 1920. Nikulás gegndi starfinu þar til hann dó árið 1949. Hann, ásamt þeim bræðrum Eiríki og Jóni Ormssonum, sem síðar urðu löggiltir rafvirkjar, voru meðal helstu brautryðjenda í faginu ásamt Eiríki Hjartarsyni og Sigurði Kjartanssyni. Einnig má nefna Edvard Jensen og Jón Sigurðsson, sem reyndar lést skömmu eftir að hann kom heim úr námi í rafmagnsfræðum. Úti á landi má nefna Indriða Helgason á Seyðisfirði, sem síðar flutti til Akureyrar.

Upp úr 1910 unnu bræðurnir Jón og Eríkur í Vík við iðnir sínar skósmíði og trésmíði. Þeir höfðu nýlokið við sveinspróf sín þegar Halldór Guðmundsson hófst handa við að raflýsa Víkurkauptún. Bræðurnir urðu aðstoðarmenn Halldórs og þar með voru þeir búnir að ákvarða hvert ævistarfið yrði. Rafvæðing Vestmannaeyja og á Vestjörðum tók síðan við. Þeir bræður reistu saman hús sín við Baldursgötu 13 og Óðinsgötu 25 árið 1920. Höfðu þeir lítinn verkstæðiskrók Óðinsgötumegin. Þar unnu þeir á kvöldin við að breyta gaslömpum og gasljósakrónum í rafmagnsljósatæki. Var við þetta mikil vinna eftir að Elliðaárstöðin tók til starfa.. Fyrsta virkjun Elliðaánna árið vakti menn til meðvitunar um að hérlendis vantaði kunnáttumenn í viðgerðum rafvéla og vindingu þeirra. Eiríkur fór til Danmerkur í febrúar 1922 og vann hjá nokkrum fyrirtækjumvið vindingar og mælastillingar. Þegar heim kom stofnaði hann fyritæki á Óðinsgötu 25 og vann aðallega við vindingar. Árið 1923 gerðist Jón bróðir hans meðeigandi í fyrirtækinu og það nefndist Bræðurnir Ormsson eftir það. Verkefnin urðu fjölbreyttari og meðal annars var farið í að framleiða ljóskastara og ýmis önnur smátæki. Jón varð löggiltur rafvirkjameistari 1923 og með fyrstu húsum sem hann lagði í var Dómkirkjan í Reykjavík.

Fyrirtækið tók að sér verkefni víðsvegar um landið auk þess að taka að sér raflagnir í Reykjavík. 1. október 1936 er fest kaup á Vesturgötu 3 og verkstæðið flutt þangað. Þá var hafin framleiðsla á svonefndum dvergum fyri vind- og vatnsafl. Vindvélarnar voru 300 wött, 32-45 volt, vatnsdvergarnir voru aftur á móti 75-350 wött, 32 volt og einstaka 110 volt, ef stöðin var sett upp lengra frá bænum. Einn þessara dverga var settur upp á Hrafnseyri við Arnarfjörð hjá séra Böðvari Bjarnasyni. Í tilefni þess setti klerkur saman þessa stöku:

Dvergasmíði er dvergurinn,
dags er hverfur röðullinn,
ber hann geisla inn
og endurlýsir bæinn minn.

Raflagnaefni á þessum árum var ákaflega sundurleitt. Það var flutt inn frá Bandaríkjunum, Englandi og nokkuð frá Norðurlöndunum. Utanáliggjandi lagnir voru algengastar á klemmum eða hnöppum, svo og opnar pípur eða píputaugar. Þetta á sína skýringu, því að nær allar lagnir voru lagðar í eldri hús og var meiri hluti þeirra timburhús.

Aldamótaárið 1900 ritaði Valtýr Guðmundsson grein í Eimreiðina undir fyrirsögninni “Aflið í bæjarlæknum”. Greinin var hugvekja til bænda og höfundurinn kennir þeim jafnframt að mæla læki sína með svokallaðri flotholtsaðferð. Þetta var í fyrsta sinn sem vatnsmælingarfræði var boðuð hér á landi. Í greininni komst Valtýr svo að orði :

“En vaknaðir eru menn þó ekki enn í þeim efnum, þó sumir séu farnir að rumskast og í svefnrofunum. Ef þeir væru vaknaðir, þá mundu þeir ekki láta allar þær ár og læki, sem eru í hverri einustu landareign, vera alveg arðlausa og eyða afli sínu til ónýtis. Menn mundu þá taka sig til og leggja beizli við þessar ótemjur og knýja þær til að vinna fyrir sig”.

10 árum seinna lagði bóndinn að Bíldsfelli í Grafningi við ótemju sína. Til aðstoðar fékk hann sér Jóhannes Reykdal, þessu verki lauk árið 1911. Á stöku stað úti um land vaknaði áhugi á einkarafstöðvum og urðu Skaftfellingar brautryðjendur. Helgi Þórarinsson að Þykkvabæ í Landbroti reið á vaðið 1913. Hann fékk Halldór Guðmundsson til þess að hjálpa sér. Halldóri til aðstoðar var Bjarni Runólfsson frá Hólmi í Landbroti.

Bjarni Runólfsson, f. 10. apríl 1891, á Hólmi, V.-Skaft. Hann var sjálfmenntaður rafvirki og brautryðjandi hér á landi í að smíða túrbínur og setja upp virkjanir víða um land. Árið 1921 smíðaði hann sína fyrstu túrbínu sjálfur úr járni úr strandi. Hann var verkfæralaus og smíðaði öll sín verkfæri sjálfur og tók allt járn sitt úr ströndum. Oft var þetta járn beyglað og ryðgað og erfitt viðfangs. Bjarni þótti völundarsmiður og átti auðvelt með að tileinka sér skilning á eðli rafmagns.

Hans fyrsta túrbína er nú á byggðasafninu að Skógum. Hann smíðaði um 100 túrbínur. Árið 1927 fékk Bjarni rennibekk úr vélsmiðjunni Hamri í Reykjavík og gastæki hjá Ísaga. Hann keypti fyrsta bílinn sem kom í V.-Skaftafellssýslu. Þetta var Ford T-módel, 1 tonn. Þegar spurðist hversu vel túrbínur Bjarna reyndust, tókst að fá 5 þús. kr. styrk frá Alþingi. Þá gat Bjarni loks búið verkstæði sitt þeim verkfærum sem hann þurfti. Bjarni lést 4. september 1938.

Indriði Helgason, f. 7. okt. 1882 í Skógargerði í Fellum, Fljótsdalshéraði. Hann var sonur hjónanna Ólafar Helgadóttur og Helga Indriðasonar. Indriði lauk búfræðinámi frá búnaðarskólanum að Eiðum árið 1904, stundaði nám við lýðháskólann í Askov árið 1906-1908 og fór síðan í raffræðinám og lauk því árið 1911. Hann kom heim þá um vorið og vann að því að setja upp virkjun á Eskifirði og leggja í hús ásamt Halldóri Guðmundssyni. Árið 1912 fór Indriði aftur til Danmerkur, en kom heim alkominn árið 1913 og settist að á Seyðisfirði. Þar setti hann upp virkjun og lýsti upp bæinn. Hann starfaði þar sem rafvirkjameistari og umsjónarmaður stöðvarinnar til ársins 1922. Hann reisti nokkrar smástöðvar á Austfjörðum auk þess að mæla fyrir öðrum og kynna möguleika rafmagnsins. M.a. má geta þess að hann gerði kostnaðaráætlun um að fara frá Seyðisfirði til Möðrudals og rannsaka aðstæður til raflýsinga. Fyrir þessa ferð vildi hann fá 50 kr. Þetta þótti Möðrudalsbændum óheyrilegt og höfnuðu þessi tilboði.
Árið 1922 fluttist hann til Akureyrar og stofnaði fyrirtækið Elektro Co. Þar var Indriði í hópi forystumanna iðnaðarmanna auk þess að gegna margskonar trúnaðarstörfum fyrir Akureyrarbæ. Indriði lést 25. mars 1976.

Á þessum árum var mikið byggt af litlum virkjunum á heimabæjum. Frá upphafi voru reistar 530 einkarafstöðvar. Margir sjálfmenntaðir menn komu til sögunnar í sveitum landsins og unnu að túrbínusmíð, gerð þrýstivatnspípna, mælingum á fallhæð, vatnsmagni og vatnsvegum smávirkjana hér á landi. Jón Þorláksson og Guðmundur Hlíðdal skrifuðu greinar og kenndu mönnum að mæla læki sína og smáár með yfirfallsstíflum.

Af frumkvöðlum í byggingu virkjana má nefna Eirík og Sigurjón Björnssyni frá Svínadal í Skaftártungum, sem báðir unnu um tíma með Bjarna frá Hólmi, Einar Sverrisson í Kaldrananesi í Mýrdal, Sigfús H. Vigfússon í Geirlandi í Kirkjubæjarhreppi og Helga Arason á Fagurhólsmýri.

Jón Sigurgeirsson í Árteigi í S.-Þingeyjarsýslu setti upp um 40 stöðvar víðs vegar. Hann virkjaði á annað megawatt úr sytrum landsins. Einnig má þar nefna Skarphéðin Gíslason á Vagnsstöðum. Hann fór um Suðursveit og fleiri byggðir til þess að athuga möguleika til virkjana. Hann sá flestum Skaftfellingum fyrir ljósi og vatni með því að byggja virkjanir, þar sem hann smíðaði sjálfur túrbínurnar.

2. KAFLI

UPPHAF STÉTTABARÁTTUNNAR

FYRSTA ALÞJÓÐASAMBAND VERKALÝÐSINS

Lífskjör bötnuðu yfirleitt í Evrópu á síðustu öld, verulega dró úr ungbarnadauða og meðalaldur hækkaði geysilega sem leiddi til mikillar fólksfjölgunar. Árið 1815 voru íbúar Evrópu líklega um 200 millj. og árið 1870 um 300 millj. Árið 1914 bjuggu um 470 millj. í Evrópu, og nokkrar borgir voru komnar með yfir millj. íbúa. Það er talið að Íslendingar hafi að jafnaði verið um 50 þús. fram yfir aldamótin 1800 en þeim fór fjölgandi eftir 1820. Um 1870 voru þeir orðnir um 70 þús. og um 90 þús. um 1914.

Í grein í Vinnunni, 9. tbl. árið 1945 um “Kjör verkafólks á Íslandi á 19. öld”, sem Haraldur Guðnason ritaði, segir m.a.:
“Í píningardómi árið 1490 er vistaskylda ákveðin fyrir alla, sem ekki eiga 3ja hundraða eign. Talið er, að ákvæðum þessum hafi ekki ávallt verið fylgt, en skatt urðu lausamenn að greiða. En árið 1783 eru öll réttindi lausamanna afnumin, og þeim skipað í vist innan 6 mánaða, en ógnað með gapastokki, hýðingu og tukthúsi, ef út af var brugðið.

Árið 1834 er hert á þessum ákvæðum og skyldi lögunum beitt án vægðar, en hreppstjórar þeir sem linir voru í sókninni skyldu settir af og sæta sektum, ef um endurtekið brot var að ræða.
Loks kom svo að árið 1863 var bannið gegn lausamennsku numið úr gildi, en 5 hundruð á landsvísu urðu menn að eiga, ef þeir vildu frjálsir teljast. Allir er náð höfðu 25 ára aldri, gátu fengið leyfisbréf hjá lögreglustjóra, en 100 á landsvísu kostaði það; konur greiddu helmingi minna gjald. Hins vegar hlutu þeir ókeypis leyfisbréf er höfðu verið í vinnumennsku í 20 ár.
Um miðja 19. öld er farið að hreyfa því, að setja þurfi ný allsherjarlög. Voru hjúamálin mikið rædd á Alþingi í heilan áratug, 1855-1865. Um lausamennskuna var gerður sérstakur lagabálkur, er hlaut afgreiðslu þingsins 1863.

En 23. maí 1866 voru hjúalögin loks samþykkt eftir 12 ára þjark og þras. Meðal ákvæða laganna er, að vistráðningartími skuli vera 1 ár og engin vistráð bindandi fyrir lengri tíma en 12 mánuði. Kaupgjald skal ákveðið eftir samkomulagi. Vistaskyldan -ófrelsisákvæðið- helst enn, en var afnumið með lögum 2. febrúar 1894. Samkvæmt því var hverjum manni, er hefur tvo um tvítugt, heimilt að taka leyfisbréf hjá lögreglustjóra gegn 15 kr. gjaldi, konur 5 kr., en sá sem er fullra 30 ára fær leyfisbréfið ókeypis”. Það losnaði um vistaskylduna um líkt leyti hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum.

Um aldamótin var hugtakið frjálslyndi (líberalismi) orðið þekkt í Englandi. Það átti rætur að rekja til upphafs iðnbyltingarinnar. Með vaxandi vélvæðingu varð handverkið undir í samkeppni um vinnuaflið og fólkið flykktist úr sveitum að námum og verksmiðjum. Reynt var að framleiða sem ódýrasta vöru með ódýru vinnuafli. Karlar, konur og börn unnu sums staðar 14-18 klukkustundir á sólarhring. Atvinnuleysisvofan var alltaf nálæg. Þegar vinna dróst saman var ódýrara að nota vinnuafl barna en feðranna. Það þekktist að konur tóku léttasótt niðri í námunum. Þegar rætt var um úrbætur, snérust frjálslyndir gegn því og verkalýðsfélög voru bönnuð árin 1799-1824. Með verksmiðjulögunum árið 1833 var takmörkuð vinna barna í verksmiðjum við 9 ára aldur og vinnutími styttur. Námulög voru sett árið 1847 og bönnuð vinna kvenna og barna lengur en 10 tíma á dag. Þetta var upphafið á 10 tíma vinnudegi.

Ýmsir tóku nú til við að leggja niður fyrir sig hvernig bæta mætti hag verkalýðsins. Sú kenning hafði verið sett fram af Davíð Riccardo (1772-1823), að vinnan væri uppspretta þjóðarauðs. Verkamaðurinn fengi laun sín fyrir vinnu, eigandi framleiðslufjár vexti af því og jarðeigandinn jarðrentu. Laun gætu ekki verið hærri en hrykki fyrir brýnustu nauðsynjum. Ef þau hækkuðu mundi verkamönnum fjölga svo mjög, að þau færu niður fyrir það lágmark sem þyrfti til þess að draga fram lífið. Þá mundi fólki fækka uns jafnvægi kæmist á aftur. Þurftarlaun væru því náttúrulegt verð á vinnu (natural price of labour).

John Stuart Mill (1806-1873) setti fram þá skoðun, að ríkisvaldið yrði að hlaupa undir bagga með þeim sem stæðu höllum fæti í lífsbaráttunni. Hann vonaði enn fremur að útrýma mætti allri fátækt með réttlátri jarðeignaskiptingu, takmörkun barneigna og með stofnun samvinnufélaga. Hann varaði við því að gera heiminn að ríkisreknum vinnubúðum þar sem sköpunargleði einstaklingsins fengi ekki að njóta sín. Hann studdi stofnun verkalýðsfélaga sem hefðu verkfallsrétt. Stjórnmálakenningar Mills eru stundum nefndar sósíallíberalismi.

Ýmis sjónarmið frjálslyndra blönduðust þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Afkastamesti hagspekingur okkar á þessum árum var Arnljótur Ólafsson (1823-1904). Hann gaf út bókina Auðfræði árið 1880 sem var mjög í anda frjálslyndra.

Hugsuðir beindu í auknum mæli sjónum sínum að eignarhaldi á framleiðslutækjunum og skiptingu arðsins í framleiðslunni. Um árið 1830 var farið að kenna slíka menn við sósíalisma eða kommúnisma. Gísli Brynjúlfsson (1827-1888) nefndi sósíalista “samlagsmenn” í Norðurfara árið 1848, en síðar tók að bera á nafninu félagshyggjumenn. Gísli var rómantískt skáld og bókmenntafræðingur, síðar prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.

Reyndar er sá maður sem fyrstur er talinn hafa hugsað sér þjóðfélagsskipun byggða á grundvelli jafnaðarins, gríski heimspekingurinn Plató, sem var uppi á 4. öld f. Kr. Hans kenning var að vitrustu og bestu mennirnir ættu að stjórna. Þeir áttu að efla menntun og siðgæði og allt það sem horfði til almenningsheilla. Þeir máttu ekkert eiga sjálfir annað en þau laun, sem þeir fengu hjá þjóðinni fyrir starf sitt. Hver maður átti að stunda það starf, sem hann kaus sér sjálfur og var færastur til eða hneigðastur fyrir. Konur og karlar áttu að hafa sömu réttindi.

Karl Marx (1818-1883) lagði stund á sögu og heimspeki í Berlín og setti fram ýmsar kenningar um eignaskiptingu, framleiðsluferli og verkamanninn. Hann þyrfti ekki að nota nema hluta af tíma sínum til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða, en vegna atvinnuleysisvofunnar væri unnt að halda launum í lágmarki og þess vegna færi drjúgur hluti vinnutímans í að skapa verðmætisauka í vasa eiganda fyrirtækisins. Hann setti fram m.a. þá skoðun að í framtíðinni gæti verkamaðurinn unnið fyrir hádegi, farið á veiðar eftir hádegi og skemmt sér á kvöldin. Karl Marx hélt því fram að sjálfvirknin myndi breyta verkafólki í eftirlitsmenn. Um leið benti hann á að slíkir verkamenn væru í raun handbendi vélanna, en stjórnuðu þeim ekki.

Marxisminn varð fræðilegur grundvöllur í baráttu verkalýðsins í sókn hans gegn auðvaldsskipulaginu. Nauðsynlegt var að efla stéttarvitund hjá verkamönnum. Stofnað var til samtaka sósíalista, sem síðar varð að Alþjóðasambandi verkalýðsins eða Internasjónalnum, árið 1865. Marx mótaði stefnu sambandsins. Alþjóðasambandið hafði veruleg áhrif á uppvaxandi verkalýðshreyfingu og stjórnmálaflokka sem henni voru tengdir.

Sambandið stóð í mestum blóma fram undir árið 1870. Þá kom til styrjaldar milli Þjóðverja og Frakka þar sem samherjar í verkalýðsstétt bárust á banaspjót. Frakkar biðu algjöran ósigur í ársbyrjun 1871. Í mars tóku verkamenn völdin í París. Alþjóðasambandið hafði samúð með með Parísarkommúnunni. Frönsk stjórnvöld gengu milli bols og höfuðs á kommúnunni og á einni viku í maí voru allt að 30 þús. manns teknir af lífi. Þetta var mikið áfall fyrir Alþjóðasambandið og það leið undir lok árið 1876.

Þegar kom fram yfir miðja öld mynduðu iðnlærðir menn með sér samtök sem sum hver minntu á samtök sveina og meistara á miðöldum. Í Englandi urðu félög iðnaðarmanna öflug. Þau gerðu samninga við atvinnurekendur þar sem ákveðið hlutfall launa rann til viðkomandi félags auk viðbótargreiðslu frá atvinnurekanda. Innan vébanda þessara félaga voru reknir sjúkra-, atvinnuleysis- og örorkutryggingasjóðir. Félagsmenn þóttust því ekkert vera upp á ríkisvaldið komnir til að tryggja afkomu sína og öryggi. Ófaglærðir verkamenn fóru ekki að skipuleggja samtök sín fyrr en á 9. áratug aldarinnar. Einkum kvað að hafnar- og námuverkamönnum og starfsmönnum í klæðaverksmiðjum. Þessi félög fóru að gera sér vonir um þjóðfélagsúrbætur sem gætu dregið úr öryggisleysi þeirra vegna atvinnu og launakjara. Baráttan fyrir efnalegum jöfnuði innan ríkjandi hagkerfis einkenndi stjórnmálaskoðanir þeirra.

Marx boðaði að auðvaldsskipulagið yrði hemill á framleiðsluna, andstæður yrðu skarpari milli auðvalds og öreigalýðs og aðeins þjóðfélagsbylting gæti bjargað því frá efnahagslegu hruni. Aðeins verkalýðshreyfingin sem upplýst fjöldahreyfing gæti haft forystu í slíkri byltingu.

Í Englandi varð Verkamannaflokkurinn til í nánum tengslum við verkalýðsfélögin. Í Þýskalandi mótuðu stjórnmálamenn, einkum marxistar, verkalýðshreyfinguna. Verkalýðsfélög voru bönnuð í landinu árin 1878-1890 og þar með stjórnmálasamtök sósíalista.

Í Frakklandi voru verkalýðsfélögin lögformlega viðurkennd árið 1884. Verkalýðshreyfing í Bandaríkjunum var veikburða á þessu tímabili. Hún var margklofin hugmyndafræðilega og foringjar hennar höfðu ekki áhuga á stjórnmálum. Mótun stétta átti sér aðrar og ekki eins djúpar rætur og í Evrópu. Bandaríski draumurinn um að verða eitthvað af sjálfu sér var sterkur, einstaklingshyggjan var rík og djúpt var á stéttarvitundinni. Verkföll þóttu tilræði við löghelgan eignarrétt atvinnurekenda og þeir réðu ekki til sín félagsmenn úr verkalýðsfélögunum heldur stofnuðu atvinnurekendur sín eigin stéttarfélög og þjálfuðu vopnaða verði til þess að brjóta niður verkföll. Launmorð voru tíð í deilum vinnuveitenda og launþega.

Í Rússaveldi hafði öll þjóðfélagsþróun gengið hægar en annars staðar í Evrópu. Þar var bændasamfélag með lénsskipulagi. Samtök verkamanna áttu erfitt uppdráttar. Sósíaldemókrataflokkur var stofnaður um aldamótin en klofnaði fljótlega í tvennt, endanlega árið 1912. Önnur hreyfingin var kölluð mensévíkar og hin bolsévíkar, foringi þeirra var Lenín (1870-1924). Hann taldi nauðsynlegt að flokkurinn leiddi verkalýðinn til byltingar. Honum tókst ásamt flokki sínum að leiða bændur og verkamenn til sigurs í þjóðfélagsbyltingu árið 1917. Á Norðurlöndum höfðu iðnaðarmenn forystu um stofnun verkalýðssamtaka. Í Danmörku og Noregi hófust þeir handa á 8. áratugnum, en nokkru síðar í Svíþjóð og Finnlandi. Jafnframt mynduðu þeir stjórnmálasamtök og fengu menn kjörna á þing þrátt fyrir takmarkaðan kosningarétt.

Annað alþjóðasamband verkalýðsins var stofnað í París árið 1889. Þar var mikið rætt um réttindi kvenna. Einn af fulltrúum þeirra á stofnþinginu var Clara Zetkin (1857-1933). Hún deildi harkalega á þá úr verkalýðsstétt sem höfðu horn í síðu kvenna í hópi launþega. Umbylta þyrfti auðvaldskipulaginu til þjóðfélags sósíalisma, sem tæki að sér uppeldi barna að hluta til og stuðlaði að frelsi kvenna jafnt sem karla. Með svipuðum hætti og karlar væru undirokaðir af auðvaldinu, gætu konur orðið ambáttir karlveldis. Með aukinni hagsæld óx þörfin á vinnuafli í barnakennslu, verslunum, á skrifstofum og við ný tæknistörf, m.a. símaþjónustu. Konur fóru í auknum mæli að sækja út á vinnumarkaðinn. Þær fóru að taka til hendinni í réttindamálum sínum.
Í upphafi heimsstyrjaldarinnar beið alþjóðahyggja verkalýðsins mikið skipbrot því að meirihluti í verkalýðsflokkum á þjóðþingum greiddi atkvæði með stríðsrekstri heimsauðvaldsins eins og gagnrýnendur orðuðu það. Annað alþjóðasambandið klofnaði í tvær meginfylkingar eftir styrjöldina. Þá var farið að greina á milli sósíaldemókrata sem höfnuðu byltingarleiðinni og kommúnista, en þeir stofnuðu Þriðja alþjóðasambandið.

IÐNAÐARMANNAFÉLAGIÐ Í REYKJAVÍK

Til sveita á miðöldum gengu menn til flestra starfa. En ef þeir höfðu áunnið sér vissa hæfni í ákveðnu starfi, t.d. feldskurði eða smíðum, gátu þeir gert sér það að lifibrauði í borgunum. Þessir handverksmenn fóru síðan að bindast samtökum um að einoka starfsgrein sína, t.d. með því að leigja skemmur og höfðu samstarf um hráefnisöflun. Jafnframt leituðu þeir viðurkenningar borgaryfirvalda á einkarétti sínum til þess að vinna að sérgrein sinni. Smám saman tók skipan handverksins á sig fast form. Landamærin voru ákveðin í skýrri skiptingu iðngreina. Einstökum mönnum voru veitt meistararéttindi í hverri iðngrein. Þeir söfnuðust saman í ákveðin gildi sem voru hæstráðandi um málefni iðngreinarinnar. Í starfsemi gildanna fóru að myndast hátíðlegir siðir og leyndarreglur, enda urðu þær fyrirmynd frímúrara og fleiri slíkra reglna.

Til þess að öðlast réttindi í iðngrein, varð að komast á námssamning hjá viðurkenndum meistara og réði gildið fjölda iðnnema á hverjum tíma. Að loknum námstíma, sem oft var 6 ár, gekkst neminn undir sveinspróf og varð að sanna að hann kynni til allra starfa viðkomandi iðngreinar. Í stað þess að vera einungis matvinnungur, eða þurfa jafnvel að borga með sér, fékk iðnsveinninn nokkuð hátt kaup og hann gat flutt sig um set milli meistara.

Innan þessa ramma varð til fjöldi iðngreina. Vinnubrögðin voru leyndarmál, sem meistarinn einn mátti kenna þeim iðnnemum sem gildið hafði samþykkt. Smám saman myndaðist mikið verksvit innan hverrar iðngreinar. Hver og einn iðnaðarmaður kunni allt sem að hans iðngrein laut, hann hafði mikla verk- og efniskunnáttu, réði sjálfur verkhraðanum og naut þess að sjá afurðir sínar, sem oft voru svo listilega vel gerðar, að þær gátu talist listaverk.

Á fyrri öldum lærðu nokkrir íslenskir handverksmenn til verka, einkum í Danmörku og nokkrir í Þýskalandi. Þeir stunduðu oft iðn sína eftir að þeir komu heim, ýmist í fullu starfi á biskupssetrum eða öðrum stórbýlum og stundum í hjáverkum með eigin búskap. Langt fram á síðustu öld var iðnaðarmönnum bannað að bindast samtökum. Iðnaðarmannafélögin urðu víða fyrstu stéttarfélögin sem stofnuð voru. Þau urðu víða mjög öflug og komu á víðtækum umbótum fyrir félagsmenn sína.

Um aldamótin 1800 voru aðeins 5 iðnaðarmenn í Reykjavík, 1 bakari, 1 skósmiður, 1 járnsmiður og 2 trésmiðir. Íbúatala var 300. Annars staðar á landinu þekktust ekki iðnaðarmenn nema í prenti. 50 árum síðar voru íbúar Reykjavíkur orðnir 1150 og iðnaðarmenn voru orðnir 40, flestir trésmiðir, 15 talsins, hinir voru 4 járnsmiðir, 4 skósmiðir, 3 prentarar, 2 bakarar, 2 glerskerar, 2 hattarar, 2 múrarar, 2 söðlasmiðir, 1 bókbindari, 1 beykir, 1 silfursmiður og 1 sótari. Um aldamótin var Reykjavík orðin að stórbæ með 6700 íbúa, þá er talið að 650 manns hafi unnið að iðnaði. Iðngreinar voru taldar vera 29. 1930 voru íbúar Reykjavíkur taldir vera 26.500, iðnaðarmenn voru um 1700 og iðngreinarnar voru um 50.

3. febrúar árið 1867 var stofnað í Reykjavík Handiðnaðarmannafélagið af 31 handiðnaðarmanni í þeim tilgangi að koma upp duglegum iðnaðarmönnum og efla og styrkja samheldni milli handiðnaðarmanna á Íslandi. Nafni félagsins var breytt 6. mars árið 1882 í Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Talið er að Sigfús Eymundsson ljósmyndari og Einar Þórðarson hafi verið helstu hvatamenn að stofnuninni. Félagið sinnti aðallega menningarmálum og var það frumkvöðull að mörgum merkum málum.

Á fundi 1. febrúar árið 1891 var vakið máls á því hvort “félagið ætti ekki að reisa fundarhús til útláns fyrir söng og sjónleiki”. 12. apríl árið 1891 var samþykkt að byrja að safna fé til húsbyggingarinnar og “skyldi verkið hafið þegar vissa væri fyrir að kr. 4000 væru handbærar til fyrirtækisins”. Næsta spor var stigið 10. des. 1893 þegar samþykkt var að fá útmælt svæði suður í Tjörn og ákveðið að byrja uppfyllingu undir grunninn eins fljótt og hægt væri. þann 24. febrúar árið 1895 var samþykkt að reisa eins lítið hús og hægt væri, 17 álnir að lengd og 14 á breidd.

Sumir voru stórhuga og töldu þetta hús vera alltof lítið og á fundi 19. jan. árið 1896 var samþykkt að reisa hús samkvæmt teikningu sem búið var að gera og verja til þess allt að 7 þús.kr. En húsið var stækkað og reist í sjálfboðavinnu, endanlegur kostnaður varð 36 þús. kr. Þann 29. des. árið 1896 var haldinn fyrsti fundurinn í húsinu, “Iðnó”, eins og það var fljótlega kallað. Dagana á eftir voru haldnir samsöngvar í húsinu og voru um 400 áheyrendur hvort kvöld. Aldrei höfðu verið haldnar jafnfjölmennar samkomur innan dyra hér á landi. Fljótlega eftir að byggingu hússins lauk var stofnað Leikfélag Reykjavíkur.

En lánin þurfti að borga og urðu stjórnendur félagsins þreyttir á að vera í sífellu að taka ný lán til þess að borga hin eldri. Einnig kom fljótlega fram, að gera þyrfti miklar endurbætur á húsinu svo það gæti nýst sem leikhús bæjarins. Þetta varð til þess að ákveðið var að selja húsið. Tilboð kom frá Fr. Håkonsen, veitingamanni að upphæð kr. 75 þús. Ákveðið var að gefa leikfélaginu kost á að ganga inn í kauptilboðið, en af því varð ekki. þann 6. maí árið 1918 var húsið svo selt Håkonsen.

Á fundi 5. maí árið 1892 var ákveðið að vinna að stofnun sjúkrasjóðs fyrir félagið. Hann var svo stofnaður 7. jan. árið 1894 en þá var samþykkt: “Fjelagið stofni sem allra fyrst styrktarsjóð handa fátækum iðnaðarmönnum og ekkjum þeirra, þegar sjúkdómar eða ófyrirsjáanleg óhöpp bera að höndum”. Skipulagsskrá sjóðsins fékk konunglega staðfestingu 18. sept. árið 1896. Ákveðið var að allir meðlimir Iðnaðarmannafélagsins sem vildu ganga í sjóðinn, skyldu greiða til hans eina krónu og fimmtíu aura, en aðrir iðnaðarmenn tvær krónur. Þann 17. maí árið 1921 var stjórn sjóðsins gerð sjálfstæð, enda þótti það eðlilegt því fleiri en meðlimir Iðnaðarmannafélagsins áttu aðild að honum. Í 2. gr. skipulagsskrárinnar stóð: “Tilgangur sjóðsins er að styrkja meðlimi sjóðsins, ekkjur þeirra og börn, en meðlimir geta orðið allir meðlimir Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík og aðrir iðnaðarmenn í Reykjavík, ef þeir eru samþykktir á aðalfundi sjóðsins”. Þá voru meðlimir 67 og árgjald var 5 kr.

Iðnaðarmannafélagið stóð fyrir iðnsýningum. Sýndir voru ýmsir munir sem iðnaðarmenn höfðu gert. Fyrsta sýningin var haldin í Barnaskólahúsinu 2. ágúst árið 1883. Á sýningunni voru 390 munir og hinn dýrasti metinn á 400. kr. Árið 1905 var haldin sýning á prófmunum iðnnema. Næst var haldin mikil sýning 17. júní árið 1911, þar voru sýndir 1100 munir, dýrasti gripurinn var metinn á 6 þús. kr.

Á fundi 17. sept. árið 1906 var ákveðið að standa fyrir því að reisa minnismerki fyrsta landnámsmanns Íslands og fá Einar Jónsson til þess að vinna verkið. Þann 24. febrúar árið 1924 var styttan af Ingólfi Arnarsyni afhjúpuð á Arnarhóli að viðstöddum miklum mannfjölda. Ingólfsmyndin kostaði 40.000 kr. og langmestur hluti þess var greiddur úr sjóðum félagsins.

STOFNUN ALÞÝÐUSAMBANDS ÍSLANDS

Fólksfjölgunin í Reykjavík um aldamótin var gífurleg. Löngun manna til þess að verða sjálfs sín herra var mikil. Menn vildu öðlast frelsi til þess að afla tekna með eigin vinnuafli og njóta afraksturs vinnu sinnar.

Margar lýsingar eru til um vinnutíma verkafólks í Reykjavík áður en verkalýðsbaráttan hófst. Þetta birtist í Ísafold árið 1889:
“Í Reykjavík og víðar í verslunarstöðum gengur sama óreglan, að daglaunamenn verða að vinna hjá kaupmönnum óákveðinn vinnutíma og þar á ofan er þar beitt allmikilli hörku, ég vil segja harðýðgi við verkamennina; verða þeir að vinna frá því snemma á morgnana, stundum frá því stundu fyrir miðjan morgun (þ.e. kl. 5.00) til kl. 9 – 10 á kvöldin; og þar við bætist, að þeir fá engan ákveðinn tíma til að neyta matar, heldur verða nærri því að stelast til að rífa í sig matinn undir pakkhúsveggjum og á bryggjunum, eins og hungraðar skepnur eða siðlausir mannsmenn. Skyldi í nokkrum höfuðstað nokkurs lands vera farið þannig með menn sem eru frjálsir í orði kveðnu? Og á ekki hingað rót sína að rekja sljóleiki sá og hugsunarleysi, deyfð og doði, sem gjörir daglaunamenn almennt svo vanafasta og framtakslausa? …

Hvað kaup karlmanna snertir þá er það að nafninu til ekki svo lágt … En kvenmannsdaglaunin eru aftur á móti svo lág að slíkt er á engu viti byggt; eða hvaða sanngirni er að gjalda kvenmanninum ekki nema 3/5 á móti karlmanni, eða kannski tæplega það, og það þó kvenmaðurinn beri á börum móti karlmanni frá morgni til kvölds? Og þegar þau skila börunum að kvöldi fær karlmaðurinn 2 kr. 50 a., en kvenmaðurinn 1 kr. 50 a. Er eigi þetta ástæðulaus og gegndarlaus ójöfnuður?”

Sá sem skrifaði þetta taldi að verkamenn yrðu að beita samtökum og skynsamlegri festu til að lagfæra kjör sín. Algengt karlmannskaup upp úr aldamótum var 50 aurar á tímann. Vinna var ótrygg og hjá flestum komu löng hlé, einkum síðari hluta árs fram í febrúar, þegar vetrarvertíð hófst. Á þessum árum var hin alræmda “milliskrift” í algleymingi, þ.e. að vinnulaun voru aldrei greidd í peningum, heldur eingöngu í vörum, er reiknaðar voru hærra en peningaverðið var.

Þjóðólfur komst svo að orði um þessi mál í 32. árg., 180. tbl.: “Hið sanna er, að verstu ævi í þessum höfuðstað vorum eiga gamlir þægir útigangshestar og þar næst gamalt, heilsulaust kvenfólk, sem félaust og munaðarlaust er að reyna að hafa ofan af fyrir sér”.

Í áðurnefndri grein sinni um “Kjör verkafólks á Íslandi á 19. öld” í Vinnunni árið 1945 segir Haraldur Guðnason: “Um 1870 var hæsta vinnumannskaup á Suðurlandi 48 kr. og auk þess fjögur föt og kindafóður. Sumir vinnumenn sunnanlands höfðu hálfan hlut sinn um vetrarvertíðina í árskaup. Þóttu það hin mestu kostakjör, ef skipsrúm voru góð og miklu betra en 48 kr. Í hlut vinnuveitandans féll svo hálfur vertíðarhluturinn og vinna verkamannsins allt árið utan vertíðar. Vinnukonukaup var 16 kr. á ári að meðaltali eða 12-20 kr., auk 3-4 föt og kindafóður eitt. Kaup norðanlands var svipað víðast hvar.

Verkafólk 19. aldarinnar hafði ekki kosningarétt og konur ekki heldur, þótt húsfreyjur væru. Kosningarétt höfðu einungis búendur. Að vísu höfðu tómthúsmenn kosningarétt, en til þess að öðlast hann, urðu þeir að greiða 6 ríkisdali í útsvar. Með öðrum orðum: eignin hafði kosningarétt. Árið 1855 voru 140 tómthúsmenn í Reykjavík. 6 þeirra greiða 6 rd. í útsvar, 134 eru réttlausir á vettvangi landsmálanna. Árið 1847 var kosningaréttur bundinn við 10 hundraða fasteign. Þá höfðu jafnvel sumir embættismenn ekki kosningarétt, ef þeir áttu ekki áskilda eign.

Um þessar mundir höfðu Vestmannaeyingar engan fulltrúa á þingi, vegna þess að aðeins 2-3 menn í héraðinu áttu 10 hundr. fasteign. Það er ekki fyrr en 1915, að verkafólk hlaut kosningarétt samkvæmt lögum”.

Pétur Pétursson verkamaður giftist árið 1909 og fór að búa í litlu herbergi með eldunarplássi á Hverfisgötunni. Hann sagði:
“Um leið hóf ég þunga göngu sem stóð óslitið í 4 ár og verður mér ógleymanleg eins og ég hugsa að fari fyrir öllum sem hana hafa orðið að þreyta. Ég gekk um eyrina í Reykjavík og snapaði eftir vinnu; elti alla þá, sem höfðu yfir einhverri vinnu að segja, og þá fyrst og fremst verkstjórana. Þarna var ég nafnlaus verkamaður í stórum hóp nafnlausra verkamanna. Ef mér tækist ekki að fá eitthvað að vinna í dag, fengjum við ekkert að éta á morgun. Og allir vorum við undir sömu sökina seldir. Þetta var erfitt líf og niðurlægjandi. Ég fór oft að heiman frá mér án þess í raun og veru að nokkuð væri til á heimilinu; fór eldsnemma morguns og rölti um eyrina, gægðist inn í pakkhúsin og elti verkstjórana. Mjög oft fékk ég ekkert að gera. Gangan heim var þá oft mjög þung en léttari var hún ef manni hafði tekist að næla sér í ýsu á leiðinni heim. En þegar manni tókst að fá eitthvað að gera, virtist manni lífið blasa við, fagurt og heillandi …”

Einnig er lýsing Haraldar Ólafssonar í bókinni Brimöldur forvitnileg:
“Fyrstu ár mín í Reykjavík var mér ekki greitt neitt kaup í peningum en fékk húsaskjól, fæði og vinnuföt. Sagt var að þessi fatnaður, vaðmálsföt og leðurskór, væri mikil hlunnindi en ég efast um það því að hann var ódýr og ég sleit ekki miklu”.

Þegar húsbóndinn falaðist eftir Haraldi sem vinnumanni var ekki samið um kaup. Bóndinn nýtti sér vinnumanninn á vertíðinni og hirti drýgsta hluta teknanna:
“Jón yngri á Hlíðarenda gerði mig út fyrstu vertíð mína og greiddi húsbónda mínum 250 kr. fyrir mannslánið en hann borgaði mér 150 kr. í vinnumannskaup það árið 1921”.

Öryggi í örbirgð var lakari kostur en hin háu laun sem togarasjómönnum buðust, jafnvel fimm eða sexföld árslaun vinnumanns eftir eina saltfisksvertíð. Atvinnubyltingin við sjávarsíðuna dró fólk til sín. Togarasjómenn urðu brátt fjölmennasta atvinnustétt höfuðborgarinnar. Félagslegur grundvöllur var að skapast.

Í grein í Dagskrá árið 1896 um “Félagsskap verkamanna” hvatti Einar skáld Benediktsson til þess að stofnuð yrðu verkamannafélög: .”Hér á landi eru slík samtök nær því óþekkt enn, og er þó auðsætt, að þau gætu komið að miklu gagni hér eins og annars staðar, ef þau aðeins væru sniðin rétt eftir öllum ástæðum lands og þjóðar. Sérstaklega gætu samtök verkamanna í Reykjavík hjálpað miklu til þess að bæta kjör hinna fátækari, starfandi borgarastéttar og jafnframt einnig aukið velmegun bæjarins í heild.

Þannig löguð samtök miða að því að varðveita einstakan verkamann eða iðnaðarmann gegn samkeppni eða undirboði stéttarbræðra sinna og um leið halda uppi réttu hlutfalli milli þess hagnaðar, sem vinnuveitandi hefur, og þeirra launa sem hann geldur fyrir vinnuna. Því meiri sem fátæktin er meðal verkamanna og því lægra sem allar vinnuafurðir eru metnar til peninga, því nauðsynlegri er þessi félagskapur og því meiru góðu getur hann komið til leiðar.

Ef verkamennirnir færu að halda saman mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju sem þeir vinna nú að ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annarsstaðar í heimi”.

Það var ný hugsun hér á landi að semja um takmörkun vinnutíma. Til þessa hafði verkalýður orðið að vinna myrkranna á milli ef á þurfti að halda. Sumarfrí voru óþekkt fyrirbæri. Fyrsti vísirinn að slíku var þegar kaupmenn tóku upp á því árið 1894 að loka búðum sínum einn dag á sumri og kölluðu það hvíldar- eða frídag verslunarmanna. Í samningum prentara árið 1908 fengu þeir inn ákvæði um, “að þeir sem unnið hefðu eitt ár eða lengur, skyldu fá allt að þriggja daga sumarleyfi án kaups”. Árið 1915 fengu prentarar því svo framgengt að þessir þrír sumarleyfisdagar yrðu borgaðir. Þetta voru mikilvægar nýjungar og stefnumarkandi fyrir önnur félög.

Prentarar voru í fararbroddi verkalýðsbaráttunnar og stofnuðu fyrsta eiginlega stéttarfélagið árið 1887, Prentarafélagið, það lognaðist út af árið 1890. Árið 1888 stofnuðu skósmiðir stéttarfélag, Skósmiðafélag Reykjavíkur, það starfaði í eitt ár.

Hið íslenska prentarafélag var stofnað árið 1897, þeir höfðu forystu næstu áratugina. Þeir stofnuðu sjúkrasjóð árið 1897, sömdu reglur fyrir atvinnuleysistryggingasjóð árið 1900 en stofnuðu hann árið 1909.

Saga verkalýðshreyfingarinnar hér á landi hófst í raun þegar skútukarlafélagið Báran var stofnað árið 1894. Fyrr það ár höfðu eigendur þilskipa stofnað með sér Félag útgjörðarmanna við Faxaflóa. Aðalforgöngumaður þess var Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, en hann hafði þá nýverið beitt sér fyrir því að keyptir voru 8 stórir kútterar til Reykjavíkur. Fyrsta verkefni þessa félags var að birta reglugerð um ráðningarkjör sjómanna. Launakjörin versnuðu við þetta og mataræðið versnaði til muna. Þá voru 12 – 15 ára drengir eða örvasa gamalmenni höfð til þess að sjá um matseldina um borð, kokka ofan í allt að 24 menn. Fljótlega eftir stofnun höfðu 80 hásetar samþykkt að ráða sig ekki á skip nema samkvæmt samþykkt félagsins. Þar voru ákvæði um bætt fæði og að a.m.k. helmingur launa yrði greiddur í peningum. Meðal forystumanna Bárunnar voru góðtemplarar sem vildu koma drykkjuóorðinu af sjómönnum og hafa siðbætandi áhrif á félagsmenn. Eftir að Dagsbrún var stofnað árið 1906 lækkaði sól Bárunnar og árið 1910 lognaðist félagið endanlega út af.

Verkamannafélög voru stofnuð samtímis árið 1897 á Seyðisfirði og á Akureyri. Steinsteypan ruddi sér til rúms sem byggingarefni á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum 20. aldar. Múrarar vori 11 hér um aldamótin, þar af líklega 7-8 steinsmiðir. Þeir stofnuðu Múr- og steinsmiðafélagið 23. feb. árið 1901. Þetta félag starfaði með miklum þrótti til ársins 1908, þá lognaðist það út af.

Járnsmiðir í Reykjavík höfðu með sér samtök um að vinna ekki á sunnudögum árið 1889, en 7. feb. árið 1899 var stofnað Járnsmíðafélag Reykjavíkur, það var í byrjun nefnt Bandalagið Framsókn. Félagið starfaði í ein 6 ár en var formlega slitið árið 1925. Í millitíðinni var Sveinafélag járnsmiða stofnað, 11. apríl árið 1920.

Þann 10. des. árið 1899 var Trésmiðafélag Reykjavíkur stofnað af 51 manni. Það leið undir lok árið 1914 en var endurvakið 1917.

Árið 1894 voru íbúar Reykjavíkur 4031, en 9797 árið 1906 þegar verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað. Úr vexti bæjarins dró árið 1908 en aftur tók hann kipp árið 1911 og var fólksfjöldinn orðinn liðlega 14.000 í ársbyrjun 1916. Árin 1906-1908 voru gróskuár í upphafi verkalýðshreyfingarinnar. Í byrjun árs 1906 hóf Alþýðublaðið göngu sína. Fyrsta tilraunin til þess að stofna heildarsamtök var stofnun Verkamannasambands Íslands árið 1907. Forgöngumenn að Verkamannasambandinu voru m.a. Ágúst Jósefsson prentari, frændi hans Pétur G. Guðmundsson og Ottó N. Þorláksson. Verkamannasambandið leið út af árið 1911. Stefnuskrá sambandsins var pólitísk og sniðin eftir stefnuskrá jafnaðarmanna á Norðurlöndum.

Stjórnmálaflokkar hér á landi höfðu fram að þessu myndast um utanríkismál. Menn skiptust í flokka eftir því hversu langt þeir vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni. Þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á var þessi flokkaskipting orðin úrelt. Við höfðum tekið atvinnumálin í okkar hendur. Útgerð og verslun jókst hröðum skrefum. Baráttan einkenndist af kaupgjaldsmálum og breytingum á fyrirkomulagi verslunar. Lög um greiðslu verkakaups í peningum voru sett 14. febrúar árið 1902. Reyndar sögðu lögin að laun ætti að greiða með peningum nema öðruvísi væri um samið. Einstaklingar stóðu höllum fæti gagnvart kaupmönnum þegar þeir vildu greiða fyrir vinnu með vöruúttekt.

Á fundi í Verkamannafélaginu Dagsbrún 28. október árið 1915 voru Ottó N. Þorláksson og Ólafur Friðriksson kosnir til þess að koma á samvinnu milli verkalýðsfélaga. Frá nóvember árið 1915 fram í mars árið 1916 starfaði undirbúningsnefnd frá 5 verkalýðsfélögum, Ottó og Ólafur frá Dagsbrún, Guðleifur Hjörleifsson og Jónas frá Hriflu fyrir Hásetafélagið í Reykjavík, Jónína Jónatansdóttir og Karólína Siemens fyrir Verkakvennafélagið Framsókn, Þorleifur Gunnarsson og Gísli Guðmundsson fyrir Bókbandssveinafélagið og Guðjón Einarsson og Jón Þórðarson fyrir Hið íslenska prentarafélag. Verkamannafélagið Hlíf og Hásetafélagið í Hafnarfirði komu seinna til sögunnar.

Sunnudaginn 12. mars árið 1916 var stofnþing ASÍ og Alþýðuflokksins sett í Bárubúð. Fjöldi stofnfélaga var um 1500. Þingið setti Jónas frá Hriflu. Hann var leiðandi maður í samningu stefnuskrár ASÍ og Alþýðuflokksins. Honum er eignuð sú hugmynd að gera þessi tvenn samtök að einni félagslegri heild, en svo var allt til ársins 1940. Á stofnþinginu var Ottó N. Þorláksson kjörinn fyrsti forseti ASÍ, en á fyrsta sambandsþinginu var Jón Baldvinsson kjörinn forseti og jafnframt formaður Alþýðuflokksins. Á stofnfundinum gerði Jónas frá Hriflu Jón Baldvinsson að ritara. Jónasi leist vel á forystuhæfileika Jóns og er talið að hann hafi beitt áhrifum sínum til þess að Ottó var vikið úr forsetastólnum á sambandsþinginu og Jón valinn. Með Jóni og Jónasi var gott samband og höfðu þeir um margt svipaðar skoðanir. Þetta stuðlaði að því bandalagi sem var með Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum næstu áratugina.

Verkamenn unnu stórsigur í bæjarstjórnarkosningum árið 1916. Þessi óvænta uppákoma kom eins og köld vatnsgusa yfir borgarastétt Reykjavíkur. Morgunblaðið sagði frá úrslitunum: “Verkamannahreyfingin hér í bæ minnir á kvennahreyfinguna hér um árið, fer geyst á stað og endar með deyfð og áhugaleysi. Öðru vísi getur ekki farið vegna þess að byggt er á óeðlilegum grundvelli. Það er verið að reyna að æsa verkamenn til stéttarrígs, sem hér hefur ekki þekkst áður, og er það illt verk og óheiðarlegt, getur engu góðu komið til leiðar, en mörgu illu. En vér trúum því að alþýða hér hafi svo næma dómgreind að hún sjái villuna áður en í óefni er komið”.

Stjórnmálin voru að breytast frá átökum um utanríkismál yfir í innanlandsmál. Forystumenn verkalýðsins voru orðnir hættulegir menn í augum borgaralegu aflanna. Vorið 1916 kom til fyrstu meiri háttar átakanna milli Hásetafélagsins og útgerðarmanna út af svokölluðum lifrarhlut. Togararnir í Reykjavík voru stöðvaðir og verkfallsmenn gengu í hópum um götur bæjarins. Verkfallið stóð í nær hálfan mánuð og urðu mikil átök í bænum. Þetta var langmesta verkfall sem orðið hafði á landinu til þessa og vakti mikla athygli. Skipulag verkalýðshreyfingarinnar breyttist. Á fjórða áratugnum var mikill ágreiningur milli stéttarfélaganna og pólitísku flokkanna. Eftir mikið þóf árið 1940 var ákveðið að gera ASÍ óháð pólitískum flokkum. Verkalýðsfélögin komu í gegn mörgum veigamiklum málum til hagsbóta fyrir sína félagsmenn. Vökulögin voru sett árið 1921, um 6 tíma hvíld á sólarhring á togurunum, lög um slysatryggingar árið 1925, lög um verkamannabústaði árið 1929, lög um alþýðutryggingar árið 1936 og lög um stéttarfélög og vinnudeilur árið 1938, þau eru enn í gildi.

Leiðtogunum var ljóst að viðurkenning á ASÍ sem samningsaðila var mikilvæg. Í málefnasamningi ríkisstjórnar Alþýðuflokks og Framsóknarflokks árið 1934 stóð: “Að viðurkenna Alþýðusamband Íslands sem samningsaðila um kaupgjald verkafólks í opinberri vinnu. Sé nú þegar gengið til samninga með það fyrir augum að jafna og bæta kjör þeirra sem þá vinnu stunda. Opinberri vinnu verði hagað þannig: að hún verði einkum til atvinnuaukningar í þeim héruðum, þar sem hún er unnin”.

Þessi viðurkenning markaði tímamót í sögu verkalýðshreyfingarinnar og leiddi til þess að vinnuveitendur í einkageiranum huguðu nú að betra skipulagi og stofnuðu Vinnuveitendafélag Íslands. Í kjölfar þessa þurfti að setja vinnureglur og viðurkenndar leikreglur undir nafninu Vinnulöggjöf. Félögum í Kommúnistaflokki Íslands þótti allar slíkar áætlanir uppgjöf í stéttabaráttunni, en lögin voru sett árið 1938. Þá urðu skyndiverkföll sem oft þurfti að grípa til, til þess að knýja á um að gerðir samningar væru virtir, í einni svipan óþörf. Félagsdómi bar að greiða úr slíkum ágreiningi.

Rafvirkjafélag Reykjavíkur var utan ASÍ fyrstu árin, en ekki kemur fram í gögnum félagsins hvers vegna. Á árinu 1937 kom fram á fundum að rétt væri að æskja inngöngu og á fundi 7. nóvember árið 1937 var samþykkt að ganga í ASÍ. Réðu þar atvinnusjónarmið, töldu félagsmenn sig með þessu tryggja atvinnu hjá rafveitunni. Af einhverjum ástæðum svaraði miðstjórn ASÍ ekki umsókn félagsins. Ekki er ólíklegt að pólitískar deilur hafi haft áhrif þar á. Á fundi í desember 1938 kom fram að þolinmæði manna væri þrotin og samþykkt að draga umsóknina til baka jafnframt sem því var harðlega mótmælt að á sama tíma og rafvirkjum væri ekki einu sinni sýnd sú kurteisi að þeim væri svarað, þá væru önnur félög tekin inn í ASÍ athugasemdalaust.

Samband íslenskra stéttarfélaga var stofnað vegna deilna innan ASÍ en varð ekki langlíft og lagðist af þegar skipulagsbreyting var gerð á ASÍ 1940. Sambandið bauð RVR inngöngu seinnihluta árs 1939. Umsókn um inngöngu var samþykkt á fundi í félaginu. Á næsta fundi á eftir var þessum málatilbúnaði mótmælt harðlega og því haldið fram að hér réðu pólitísk öfl of miklu.
Á félagsfundi 18. apríl árið 1942 var svo ákveðið að ganga í ASÍ og var félaginu veitt innganga 30. september sama ár.

3. KAFLI

RAFMAGNSVIRKJAFÉLAG REYKJAVÍKUR

STOFNFUNDUR

Það var fimmtudaginn 20. maí 1926 sem starfandi rafmagnsvirkjasveinar voru kallaðir saman til fundar í K.F.U.M. húsinu til þess að undirbúa stofnun fagfélags. Fundarstjóri var kosinn Hallgrímur Bachmann og Guðmundur Þorsteinsson ritari. Fyrstur tók til máls Jón Guðmundsson og lýsti nauðsyn þess að stofnað yrði félag meðal rafmagnsvirkja. Hann gat þess í ræðu sinni að félagið þyrfti að afla félögum sínum réttinda með tilliti til prófa, náms o.fl. Næstur tók til máls Einar Bachmann, bróðir Hallgríms, hann taldi nauðsynlegt, “að samið yrði frumvarp til laga er verndi iðnina fyrir fúski”. Hann batt miklar vonir við stofnun félagsins.

Í umræðum kom m.a. fram hjá Halldóri Bergmann, “að gera þyrfti störf rafmagnsvirkja að fagi í stað daglaunavinnu eins og hingað til. Gat hann þess hvílíkur baggi það er, að engin ákvæði eru til um eiginlegt nám. Það er illa farið hversu margir alóvanir eru nú að í þessari iðn. Við það bolast vanir menn smátt og smátt út úr atvinnunni og engin festa fengist í fagið”.

Guðmundur Þorsteinsson taldi “að mikil nauðsyn væri til samtaka meðal rafmagnsvirkja. Það væri vitanlegt að mjög mikið fúsk ætti sér stað um land allt. Æskilegt er að félagið gangist fyrir prófum á hæfni rafmagnsvirkja”. Guðmundur hélt áfram og sagði m.a.: “Akkorðsvinna er á mjög skökkum grundvelli eins og nú er”.

Umræðan snérist nú að því hverjum ætti að hleypa inn í félagið. Þar var tekist á um “hvort taka ætti alla sem vinna að þessari iðn inn í félagið eða einungis þá sem unnið hafa í full 4 ár”. Einar Bachmann “Kvað það ekki tíðkast að lærlingar og fullnemar væru í sama félagi. Sagði síðan sögu sína í Iðnnemafélagi Reykjavíkur, -stór raunasaga-. Áleit að stofna bæri sveinadeild eða sérstakt sveinafélag”.
Það kom fram hjá Jón Guðmundssyni, “að það væri hægt fyrir installatöra að láta hvern sem er leggja í loft og annað þess háttar, ef verkið aðeins stæðist einangrunarprófun Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það ætti að vera hið fyrsta verk félagsins að fá Rafmagnsveitu Reykjavíkur til þess að gangast fyrir því að ekki mætti meir en einn óvanur maður vinna með hverjum vönum manni… Enginn mætti vinna sjálfstætt nema hafa unnið í full 4 ár með öðrum fullnuma í iðninni”.

Á fundinum var samþykkt einu hljóði að stofna 5 manna nefnd til þess að semja lög og undirbúa stofnfund. Í nefndina voru kosnir: Ögmundur Sigurðsson, Jónas Guðmundsson, Jón Guðmundsson, Sæmundur Runólfsson og Hallgrímur Bachmann. Nefndinni var heimilað að kalla til þá menn sér til aðstoðar sem hún teldi sig þurfa. Í fundarlok var Einari Bachmann og Guðmundi Þorsteinssyni bætt í nefndina.

Föstudaginn 4. júní 1926 var haldinn stofnfundur Rafmagnsvirkjafélags Reykjavíkur í K.F.U.M. húsinu. Fundarstjóri var kosinn Hallgrímur Bachmann og fundarritari Hafliði Gíslason. Fyrsta mál á dagskrá var að formaður laganefndar, Ögmundur Sigurðsson, las upp lög félagsins grein fyrir grein og voru þær allar samþykktar án nokkurra breytinga.

Þá var gengið til stjórnarkosninga og voru þessir kosnir: Hallgrímur Bachmann formaður, Jón Guðmundsson varaformaður, Guðmundur Þorsteinsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldkeri, Hafliði Gíslason vararitari og Sæmundur Runólfsson varagjaldkeri. Endurskoðendur voru kosnir Einar Bachmann og Jónas Guðmundsson.

Síðan var farið yfir fundarsköp félagsins sem laganefndin hafði samið og þá var félagsgjald ákveðið, árgjaldið var ákveðið kr. 10.00 fyrir hvern aðalfélaga og aukafélagar greiddu hálft gjald. Inntökugjald var ákveðið kr. 2.00 fyrir aðalfélaga og hálft fyrir aukafélaga.

Næst tók til máls Hafliði Gíslason, hann taldi nauðsynlegt “að kjósa 5 manna nefnd til þess að athuga kaupgjaldsmál félagsmanna, til þess að full festa fáist í þessari iðn. Þessi nefnd á einnig að beita áhrifum sínum til þess að lærlingar fái betri tilsögn en verið hefði hingað til og koma í veg fyrir að byrjendum væri of fljótt sleppt lausum til verka”.

Tillaga Hafliða var samþykkt einu hljóði og í nefndina voru kosnir: Guðmundur Þorsteinsson, Jónas Guðmundsson, Ögmundur Sigurðsson, Ágúst Ólafsson og Hafliði Gíslason. Sú umræða sem fór fram það sem eftir lifði af fundinum, snérist um vinnuréttarmál félagsmanna. Þar kom fram, að samkvæmt upplýsingum frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, mátti hver sem er vinna að raflögnum hjá þeim sem tækju ábyrgð á lögninni. Samþykkt var í fundarlok að fela kaupgjaldsnefnd að leitast fyrir hjá rafveitustjórn um atvinnuvernd fyrir fullnuma meðlimi, svo og takmörkun á lærlingafjölda.

Næsti fundur var haldinn á Hótel Heklu þann 25. september 1926. Þar voru rædd samningsdrög sem samin höfðu verið. Einnig kom fram, að rætt hefði verið við rafmagnsstjóra um vinnuréttindi. Hann sagðist mundu taka til greina allar kærur sem væru byggðar á þeim grundvelli, að menn sem ekki hefðu verið full 4 ár við rafmagnsvinnu væru látnir vinna sjálfstætt og eftirlitslaust að raflögnum í húsum. Einnig hafði verið rætt við Gísla Guðmundsson gerlafræðing, formann nefndar sem vann að undirbúningi iðnlöggjafar fyrir næsta Alþingi. Hann tók málaleitan formanns félagsins vingjarnlega. Fram kom í umræðunni í fundarlok að verið væri að leita að húsnæði fyrir félagið.

Nafn félagsins breyttist fljótlega í Rafvirkjafélag Reykjavíkur. Á þessum árum var stéttin nefnd jöfnum höndum rafmagnsvirkjar, rafvirkjar og raflagningarmenn. Það kemur ekki fram í fundargerðum að þessi nafnbreyting sé formlega afgreidd. Í fyrsta kjarasamningnum í maí 1927 kom fram að hann var gerður í nafni Rafvirkjafélags Reykjavíkur. Þetta nafn birtist fyrst í fundargerðarbókum á aðalfundi 1928.
Á aðalfundi 1934 var felld tillaga um að félagið verði nefnt Sveinafélag rafvirkja.

STOFNENDUR RVR

Stofnendur félagsins voru: Ágúst Ólafsson f. 1898 Grindavík, Davíð Árnason f. 1892 Gunnarst. Þistilf., Einar J. Bachmann f. 1899 Steinholti Leirársv., Eiríkur Karl Eiríksson f. 1906 Stokkseyri, Eiríkur Helgason f. 1907 Keflavík, Guðmundur Þorsteinsson f. 1893 Reykjavík, Hafliði Gíslason f. 1902 Vestmannaeyjum, Hallgrímur Bachmann f. 1897 Steinholt Leirársv., Haraldur Jónsson f. 1907 Reykjavík, Högni Eyjólfsson f. 1905 Reykjavík, Ingólf Abrahamsen f. 1904 Osló, Ingvar Hjörleifsson f. 1887 Sel Grímsnes, Jóhannes Kristjánsson f. 1901 Eyrarbakka, Jón Guðmundsson f. 1896 Króki Rauðas., Jón Ólafsson f. 1886 S-Hömrum Ásahr., Jónas S. Guðmundsson f. 1890 Reykjavík, Knud Jensen f. 1886 Kaupm.h., Kristmundur Gíslason f. 1887 Stokkseyri, Osvald H. Eyvindsson f. 1904 Reykjavík, Páll Einarsson f. 1904 Stokkseyri, Pálmar Sigurðsson f. 1895 Berustöðum Ásahr. Rang., Ragnar Stefánsson f. 1901 Borgarnesi, Sigurður P. J. Jakobsson f. 1903 Húsavík og Sæmundur G. Runólfsson f. 1883 Reykjavík

HALLGRÍMUR JÓN BACHMANN

Sá maður sem án efa stuðlaði einna helst að stofnun félagsins og hafði mikil áhrif á mótun þess fyrstu árin, var fyrsti formaður þess, Hallgrímur Bachmann. Hann var fæddur 4. júlí 1897 að Steinsholti í Leirársveit í Borgarfjarðarsýslu. Hann var sonur hjónanna Jóns Bachmanns Jósefssonar bónda og sjómanns og konu hans, Hallfríðar Einarsdóttur ljósmóður. Hann var sjötti í röðinni af átta systkinum. Á fimmta ári var honum komið í fóstur að Læk í sömu sveit, þar sem hann var til 8 ára aldurs. Þá hafði móðir hans lokið ljósmóðurnámi. Foreldrar hans fluttu til Bolungarvíkur þar sem móðir hans hafði fengið veitingu og þjónaði í 20 ár.

Árið 1916 flutti Hallgrímur að heiman til Reykjavíkur og hóf nám í rafvirkjun hjá dönskum meistara að nafni Larsen. Hann fékk borgarabréf (verslunarleyfi) í Reykjavík 14. maí 1920. Að loknu námi réðst hann til Paal Smith þar sem hann starfaði í mörg ár , eða þar til hann réðst til Rafmagnseinkasölu ríkisins. Þar starfaði hann til 1940, þá var hann í nokkur ár hjá Raftækjasölunni hf. Hann fékk meistararéttindi 11. júní 1935. Árið 1943 stofnaði hann ásamt öðrum fyrirtækið Rafljós hf. Það fyrirtæki var innflutnings- og heildsölufyrirtæki fyrir raftækja- og leiksviðsbúnað. Hallgrímur vann við þetta fyrirtæki þar til skömmu fyrir andlát sitt.

Árið 1921 hóf hann störf sem ljósameistari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og starfaði þar til 1950, þegar hann réðst til Þjóðleikhússins. Hann gerðist félagi í Leikfélagi Reykjavíkur 1935, var gjaldkeri þess 1936-1943 og varagjaldkeri til ársins 1950. Hann gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum hjá Leikfélaginu og lék þar nokkur minni háttar hlutverk. Hallgrímur var hjá Þjóðleikhúsinu til 1965 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Hann sinnti starfi sínu sem ljósameistari af mikilli alúð og naut mikillar virðingar í því starfi.

Hallgrímur var sjálfmenntaður, m.a. í tungumálum og fór oft utan, aðallega til Norðurlanda, Þýskalands og síðar til Englands, til þess að kynna sér það nýjasta sem þekktist í ljósabúnaði leikhúsa. Hallgrímur starfaði um árabil innan Góðtemplarareglunnar.

Hann kvæntist Guðrúnu Þórdísi Jónsdóttur klæðskerameistara, f. 24. nóvember 1890, d. 16 apríl 1983. Þau eignuðust 7 börn. Fyrstu tvö börnin voru tvíburadrengir, f. 1922, sem báðir létust mjög ungir, annar 1923 og hinn 1929. Hin voru Jón Gunnar læknir, Halla Anna kristniboði, hún lést 1994, Helgi Þór viðskiptafræðingur, Helga Þrúður leikkona, og Hanna Guðný bókmenntafræðingur.

Hallgrímur var mjög listrænn maður. Kom það oft fram í starfi hans í leikhúsunum. Hann var ljóðelskur og kunni margar snjallar vísur sem stundum voru látnar fjúka í góðra vina hópi. Sjálfur var Hallgrímur prýðilega hagmæltur og flutti oft frumortar vísur til vina og vandamanna á hátíðarstundum. Á þeim árum sem Rafvirkjafélagið var stofnað, starfaði hann hjá Rafmagnseinkasölunni, en auk þess var hann hjá leikfélaginu, var í iðnráði auk ýmissa annarra nefndarstarfa. Þrátt fyrir þetta tók Hallgrímur auk formennsku þátt í nánast hverri nefnd sem stofnuð var á vegum félagsins. Vinnudagurinn var því oft mjög langur og lítið næði til hvíldar og leikja með fjölskyldunni.

Þessi ár voru róstusöm hjá félaginu. Félagsmenn áttu í deilum við aðra iðnaðarmenn um hverjir ættu að vinna við raflagnir. Smiðir og aðrir sem sáu um að reisa húsin töldu að rafvirkjar væru algjörlega óþarfir. Hver sem væri gæti auðveldlega lagt rafmagnið um leið og þeir reistu húsin og gerðu það reyndar í mörgum tilfellum. Þá var oft um alverktöku að ræða. Einn og sami maðurinn gróf fyrir húsinu, reisti það, lagði allar lagnir og smíðaði einnig innréttingarnar. Töluvert var um að ófaglærðir “fúskarar” væru notaðir til raflagnastarfa. Meistarar vildu hafa óbundnar hendur um fjölda nema og víða var lítið lagt upp úr að kenna nemum ýmis grundvallaratriði sem nauðsynlegt var talið að þeir lærðu. En þetta skýrðist mikið árið 1926 með lögum um iðju og iðnað. Á árunum þar á eftir var unnið brautryðjendastarf við mótun félaganna, auk þess sem verið var að vinna að gerð fyrstu kjarasamninga og bættri stöðu iðnnema.

Á 25 ára afmæli félagsins var Hallgrímur gerður að fyrsta heiðursfélaga þess og á 30 ára afmælinu er honum afhent fyrsta gullmerki félagsins ásamt öðrum stofnendum sem enn voru í félaginu. Hallgrímur Bachmann lést 1. desember árið 1969.

RÉTTINDI FÉLAGSMANNA

Fyrsti aðalfundur félagsins var haldinn á Hótel Íslandi 6. febrúar árið 1927. Þar var samþykkt lagabreyting um að greiða ætti félagsgjald einn mánuð fyrirfram og gjaldkeri mætti leita til vinnuveitanda með innheimtu þess. Þetta fyrirkomulag komst ekki á og það kom ítrekað fram á aðalfundum næstu árin að það gengi mjög illa að innheimta félagsgjöldin. Einnig var tillaga um að fá meistara til þess að innheimta félagsgjöldin hjá félögunum margoft borin upp en ætíð felld. Gjaldkeri bar einnig oft upp þá tillögu, að fella bæri niður eldri skuldir og byrja á núllpunkti með innheimtu, því það væri borin von að ná margra ára skuldum af sumum félagsmanna. Þessi tillaga var einnig ætíð felld. Á fundi 24. febrúar 1935 var rætt um að félagsgjald yrði 1/2% af fullum launum og það verði innheimt af meisturum. Þessi hugmynd kom fram vegna hugmynda um stofnun atvinnuleysistryggingasjóðs og greiðslur í hann yrði hlutfall af launum.

Á þessum aðalfundi var samþykkt “að þeir félagsmenn sem hafa verið atvinnulausir einn mánuð eða lengur eigi ekki að greiða félagsgjald”. Þessi samþykkt hefur alla tíð verið virt í samtökum rafiðnaðarmanna. Því miður virðist það vera svo að hún hafi ekki náð fram að ganga hjá öllum stéttarfélögunum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Á fundinum var ákveðið að félagsgjald yrði 12.00 kr. á ári en 4.00 kr. hjá aukafélagsmönnum. Hrein eign félagsins í árslok var 83,10.kr. Í stjórn voru kosnir: Hallgrímur Bachmann formaður, Jónas Guðmundsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldkeri, Jóhannes Kristjánsson vararitari, Davíð Árnason varagjaldkeri og endurskoðendur þeir Sæmundur Runólfsson og Jón Guðmundsson.

Á þessum árum byrjuðu allir fundir á því að inngöngubeiðnir voru bornar upp til samþykktar. Inngöngubeiðninni þurftu að fylgja meðmæli tveggja félagsmanna og staðfesting á því að viðkomandi hefði starfað sem rafvirki í 4 ár og síðar lokið sveinsprófi. Einnig þurfti að samþykkja á fundi, vildu menn komast úr félaginu. Félagið kom mjög fljótt á því fyrirkomulagi að samþykkja þyrfti hvern þann nema sem meistarar tóku í læri. Með þessu fyrirkomulagi og svo samningsákvæðum við meistarafélagið um forgangsrétt til vinnunnar, var haldið mjög ákveðið um hverjir fengju að vinna við rafvirkjun í Reykjavík og þess gætt, að fjölgun yrði ekki of mikil. Þetta var í raun sama fyrirkomulag og var á meðal iðnaðarmanna strax í upphafi iðngildanna á miðöldum og lýst er hér að framan í kaflanum um Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Nokkuð var um að Danir og Norðmenn væru hér við vinnu í rafvirkjun. Þeir virtust koma hingað án þess að hafa atvinnuleyfi og voru þyrnir í augum íslensku rafvirkjanna. Samþykkt eftirfarandi ályktunar á félagsfundi lýsir viðhorfum manna vel: “Fundurinn samþykkir að skora á stjórn félagsins að gera ítarlegar og áhrifamiklar ráðstafanir til að hverjum þeirra útlendinga sem hér vinnur að rafmagnsstarfsemi verði bolað frá atvinnu og landvistarleyfi þeirra, ef slík eru til, verði stytt svo mikið sem hægt er”.

Einnig bar töluvert á ríg milli Reykjavíkurrafvirkja og þeirra sem störfuðu að rafvirkjastörfum út á landi. Á aðalfundi 20. janúar árið 1929 var rætt um þá andúð sem félagsmenn mættu utan Reykjavíkur. Dæmi var tekið um að rafvirki úr Reykjavík hefði ætlað að fara að vinna við sjúkraskýli á Hvammstanga fyrir hönd lægstbjóðanda. Þá fékk sýslunefndin skeyti undirritað af Jónasi Jónssyni ráðherra, þess efnis að landssjóður greiddi ekki styrk þann til verksins sem lofað hefði verið, nema því aðeins að rafvirkjar úr Reykjavík ynnu ekki verkið. Í skeytinu var tekið fram hver mætti vinna verkið. Ekki þótti við hæfi að sá væri fenginn til starfans vegna þess að hann hafði ekki gert tilboð í verkið. Því var þess krafist að lægstbjóðandi væri látinn vinna verkið sjálfur.

Í þessari umræðu kom fram, “að fólk út á landi hefði mikinn trúnað á þeim mönnum sem smíðuðu og settu upp rafstöðvar þó að frágangur væri þeim ekki alltaf til sóma. Fólk mæti ekki hæfileika manna, það væri ánægt ef það fengi ljós. Þessir “fúskar” ynnu fyrir lægra kaup en félagsmenn gætu unnið fyrir. Tryggingafélög tryggðu ekki gegn bruna sem orsakaðist frá raflögn, nema hún væri lögð samkvæmt eigin reglum þeirra. En þessar reglur fengust ekki birtar hjá tryggingafélögunum”.

Það kom fram “að vonir stæði til að þessum þjóðlygum yrði hnekkt vegna þess að fyrir Alþingi lægi að stofna til embættis til þess að hafa eftirlit með raflögnum um land allt”.
Guðmundur Þorsteinsson stakk upp á því að gefið væri út blað í samvinnu við meistarana, með því mætti breyta hug landsmanna í garð félagsmanna. Þetta gæti tekist nú meðan góðærið væri.

Á aðalfundi árið 1934 var lesið upp bréf frá Rafmagnseftirliti ríkisins þar sem farið var fram á að félagið heimili 18 mönnum utan af landi að vinna við rafmagnsiðn í 6-12 mánuði, til þess að geta fengið ríkislöggildingu. Urðu miklar umræður um þetta. Var talið að þessir menn hlytu að vera mjög lélegir fagmenn úr því að Rafmagnseftirlitið treysti sér ekki til þess að löggilda þá. Samþykkt var að hafna þessu algjörlega á þeim grundvelli :

1. að það muni valda atvinnuleysi 18 rafvirkjasveina í Reykjavík.
2. að þessir menn ætli sér að vinna sig upp í atvinnurekendur í iðninni á fáum mánuðum.
3. að kunnátta þeirra muni vera mjög svo lítil að þeir geti ekki orðið fullnuma á svona
skömmum tíma.
Samþykkt að kjósa nefnd til þess að ræða við RER um þetta mál.

Á þessum árum, frá 1921 til 1940 voru mjög margar virkjanir reistar víða um landið, eins og kemur fram í kaflanum Brautryðjendur hér framar. Þeir sem að því störfuðu lærðu hver af öðrum og það er víst að þeir hafa lagt raflagnir í húsin, það var hluti verksamningsins um byggingu virkjunarinnar.

Rafmagnsstjóri hafði eftirlit með raflögnum frá árinu 1920. Ári síðar fékk hann sér aðstoðarmann, sá fyrsti var norskur rafvirkjameistari, Hårseth að nafni. Hann hafði komið hingað árið 1920 til þess að annast raflagnir fyrir Paal Smith verkfæðing. Haustið 1922 réðist Sigurður Jakobsson rafvirki til starfa með þeim og sá um mælauppsetningar og eftirlit. Eftirlitsstarf Hårseths jókst ört og varð hann að fá sér aðstoðarmann. Hann réði Nikulás Friðriksson, er hafði verið línumaður við uppbyggingu kerfisins. Áður hafði hann stundað rafvirkjastörf á Eyrarbakka m.a. hjá Halldóri Guðmundssyni.
Nikulás var bóndasonur. Fæddur á Litluhólum í Mýrdal, 29. mái 1890. Foreldrar hans voru Friðrik Björnsson, bóndi og Halldóra Magnúsdóttir, húsfreyja. Nikulás lærði húsasmíði og stundaði þá iðn til 1913, þegar hann hefur störf hjá Halldóri. Nikulás reyndist rafveitunni mjög traustur eftirlitsmaður. Hårseth féll ekki eftirlitsstarfið og hvarf aftur til Noregs eftir nokkur ár.

Nikulás mótaði eftirlitsstarfið og fór nokkrar ferðir utan til þess að kynna sér hvernig nágrannaþjóðir okkar stæðu að verki. Hann mótaði eftirlitsdeildina hjá rafmagnsstjóra mest eftir norskri fyrirmynd. Hann hafði mikinn áhuga á umbótum í frágangi raflagna og tilhögun þeirra. Hann kom á notkun samsetningardósa í öllum pípulögnum sem var mikil bót á verklegum frágangi. Hann lét sér mjög annt um grunntengingu og smá saman innleiddi hann reglubundna skoðun lagna. Í einni utanlandsferðinni undirbjó hann stofnun Raftækjaverksmiðju Hafnarfjarðar í samvinnu við norsku raftækjaverksmiðjuna Berg Hansen í Porsgrunn.

Nikulás var mikill áhugamaður um rafmagnsmál og stjórnaði eftirlitsdeildinni af mikilli reisn. Hann lést vorið 1949, eftir skamma legu. Þá tók við eftirlitsdeildinni Sigurður Jakobsson.

FÉLAGSSTARF OG HÚSNÆÐISMÁL

Á fundi 6. mars árið 1927 kom fram, að búið væri að semja við Helga H. Eiríksson, skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík, um að félagið gæti fengið húsnæði í skólanum gegn greiðslu 5.00 kr. fyrir hvern fund, auk þess að ef félagið kæmi sér upp bókasafni þyrfti að greiða fyrir það pláss sem það tæki. Fundir voru haldnir í Iðnskólanum út árið 1928, þá voru þeir fluttir í Varðarhúsið og voru þar fram á vorið 1930.
Á fundum fyrstu árin kom ítrekað fram, að félagið þyrfti að koma sér upp safni góðra bóka og tímarita, svo félagsmenn gætu sem best fylgst með nýjungum sem kæmu fram innan iðnarinnar. Einnig var rætt um að fá fræðimenn til þess að koma á fundi og halda fyrirlestra. Fyrsta bókasafnsnefnd félagsins var kosin í maí árið 1927. Í hana voru valdir: Jón Guðmundsson, Hafliði Gíslason og Sigurður P. J. Jakobsson. Nefndin ætlaði sér að safna upplýsingum um þær bækur sem félagsmenn ættu og benda þeim á að þeir gætu fengið þær lánaðar hjá eigendum beint. Þessi söfnun gekk ekki því einungis einn félagsmaður skilaði inn lista yfir þær bækur sem hann átti.

Það gekk erfiðlega að fá menn til þess að sækja fundi, en mikið var lagt upp úr því að halda a.m.k. einn fund í mánuði. Aðalfundum var oft frestað vegna þess hve fáir mættu. En áhugi stjórnarmanna virðist hafa verið ódrepandi og alltaf tókst að smala saman mönnum á fundi. Viðhorfið virðist hafa verið það, að ef ekki heppnaðist að halda fundi reglulega þá lægi vís dauði fyrir félaginu. Félagslega deyfð bar oft á góma í fundargerðum og hvað væri hægt að gera til þess að eyða henni, t.d. hvort ekki mætti koma á spilakvöldum eða skemmtifundum. Einar Bachmann sagði eitt sinn í umræðu um félagsstarfið, “að heppilegt væri að fá 1 eða 2 menn á fundi með einhver skemmti- eða fróðleiksatriði, sem mættu verða til þess að auka fundarsókn félagsmanna. Það er þreytandi að sitja lengi yfir alvörumálum án þess að hafa sér eitthvað til skapléttis”.

Það sem oftast kom fram í umræðunni á fundum þegar félagsstarf bar á góma var að koma þyrfti upp safni bóka og tímarita. Einnig var rætt um að félagið þyrfti að eiga lesstofu. Reyndar var þessu stundum mótmælt og því haldið fram að best væri að fá bækur heim, því þar væru á því mestar líkur að menn stunduðu lestur. Einnig kom það fram, “að félagið þyrfti að semja við einhvern raffræðing til þess að taka saman leiðbeiningar í undirstöðuatriðum rafmagnsfræðinnar, menn strönduðu yfirleitt snemma á formúlum við heimalestur í erlendum bókum”.

Í ársbyrjun 1930 var auglýst eftir stofu í dagblaðinu Vísi og nokkur tilboð bárust. Eftir að hafa farið yfir tilboðin þótti aðeins stofa hjá Eimskip koma til greina á 75.00 kr. á mánuði, upphituð. Mönnum fannst þetta heldur dýrt og var rætt við Rörlagningafélagið um samstarf um húsnæðið. Félagið tók stofuna á leigu eitt síns liðs og hélt sinn fyrsta fund þar 2. maí árið 1930. Keyptir voru þrjátíu stólar og tvö borð. Ákveðið var að efna til frjálsra samskota til þess að létta undir með félagssjóði í húsgagnakaupunum.

Veturinn 1930-1931 var stofan leigð málfundafélaginu Óðni öll mánudagskvöld gegn 7.00 kr. gjaldi fyrir kvöldið. Félagsstarfið fór fram í “Eimskip”, eins og félagsmenn kölluðu félagsheimili sitt með nokkru stolti, fram á vorið 1931. Næstu árin eftir það voru flestir fundir haldnir á Hótel Borg.

FERÐIR OG SKEMMTANIR

Á fundi þann 5. maí árið 1927 voru Jónas Guðmundsson, Ingolf Abrahamsen og Óskar Árnason valdir til þess að undirbúa skemmtiferð um sumarið. Einnig var ákveðið að leggja af föst fundahöld yfir sumarið. Nefndin reyndi hvað hún gat að fá menn til þess að fara í skemmtiferðina, en hún fékk einungis 3 til þess að sýna áhuga, svo ferðin var aldrei farin.

Haustið 1930 kom fram hugmynd um að reyna að halda árshátíð til skemmtunar félagsmönnum. Umræður voru um að eitthvað þyrfti að gera til þess að glæða áhuga manna á félaginu. “Það væru nægar veitingar þó að menn fengju einungis kaffi”. Fram kom, “að rétt væri að koma þessari skemmtun á sem allra fyrst svo félagsmenn næðu að kynnast almennilega og við förum sameiginlega upp úr skítnum og skemmtum okkur eins vel og hægt væri”.

Kosin var árshátíðarnefnd til þess að kanna áhuga félagsmanna og hvað til boða stæði af hálfu veitingahúsa bæjarins. Á næsta fundi lagði hún fram tilboð frá tveimur veitingahúsum :

A) Hótel Hekla: Matur (3 réttir) 4.50 kr. pr. mann og frítt hús til kl. 2.00 og músik til
kl 23.30. Húsið allslaust kostar 100.00.kr.

B) Hótel Skjaldbreið: Matur 4.00 kr. pr. mann. Húsið frítt til kl. 2.00-3.00 og músik til
kl. 23.30.

Í heitum umræðum um árshátíðina kom fram að það lægi ekki svo mikið á að halda skemmtunina fyrir hátíðir (fundurinn var 14. desember 1930), það hefði hvort eð er ekki verið haldin skemmtun þau 5 ár sem félagið hefði starfað. Einnig þótti músikin á Hótel Skjaldbreið ófær dansmúsik. Þrátt fyrir þetta var samþykkt á fundinum að fela árshátíðarnefndinni að semja við Hótel Skjaldbreið og sjá um allt er skemmtanahaldið varðaði. Árshátíðin var haldin 3. jan. 1931. Á fundi 13. jan. 1931 kom fram að halli hefði orðið á skemmtuninni upp á 189.00 kr. vegna þess hve illa hún var sótt. Urðu miklar og snarpar umræður um hver ætti að borga hallann. Fram kom tillaga um að greiða hann úr félagssjóði. Sú tillaga var felld og samþykkt að setja nefnd í að kanna betur tekjur og útgjöld skemmtunarinnar.

Eftir að farið hafði verið betur yfir reikningana og innheimtir ógreiddir aðgöngumiðar, kom í ljós að hallinn var 64.00.kr. Enn var gerð athugasemd við hallann og spurt hver hefði séð um miðasöluna. Hallgrímur Bachmann gaf skýringar og sagði, “að hallinn væri vegna þess að hann hefði talið að 60 manns myndu mæta. Kvaðst hann gjarnan vilja greiða hallann úr eigin vasa þar sem hann hefði verið sá glópur að ætla félagsmönnum meiri áhuga en fyrir fyndist hjá þeim”. Á fundinum var samþykkt að félagið greiddi hallann.

Næsta skemmtun sem haldin var í félaginu var 15. febrúar árið 1936. Hún var einnig haldin að Hótel Skjaldbreið. Uppgjörið fyrir þá skemmtun var svona:

Hótelið og kaffi 50.00
Akstur 2.80
Skattur 12.00
Kostnaður 178.60
Innkoma 144.00
Tap 34.60
Samþykkt að greiða tap úr félagssjóði.

Næsta skemmtun var svo 10 ára afmælishátíð félagsins. Í ársbyrjun 1937 var samþykkt að kjósa nefnd til þess að halda 10 ára afmælishátíð. Nefndin skilaði af sér 11. apríl 1937 og þar reyndist hafa verið 20 kr. halli á skemmtuninni. Hallinn var greiddur úr félagssjóði.

Á fundi 1. mars árið 1932 var ákveðið að fara í skemmtiferð að Kolviðarhóli 9. apríl. Kostnaður var 4.00 kr. fyrir máltíð á Hólnum og bílsætið 4.00 kr. fyrir manninn. Almennt var talið sjálfsagt að félagssjóður greiddi fyrir hljóðfæraslátt. Að auki var samþykkt að félagssjóður greiddi fyrir bílfarið. Á næsta fundi, 20. apríl á Hótel Borg kom fram að erfitt væri að fá menn til þess að greiða fyrir ferðina fyrirfram.
Um sumarið var farið í ferðina og tókst hún vel. Þar var farið með söguleg kvæði, upplestur og sungið við undirleik.

JÓNAS SIGURSTEINN GUÐMUNDSSON
Annar formaður félagsins var Jónas S. Guðmundsson. Hann var fæddur 31. mars 1890 í Reykjavík. Jónas var sonur Guðmundar Hallssonar trésmíðameistara, f. 1. nóv. 1866 og konu hans Guðrúnar Jakobínu Þorsteinsdóttur, f. 25. mars 1867. Þegar Jónas var 10 ára hóf hann vinnu við trésmíðar með föður sínum. Hann vann m.a. við byggingu Herkastalans og Kvennaskólans. Fimmtán ára hóf hann nám í Iðnskólanum. Hann lauk prófi frá skólanum en gekk aldrei undir sveinspróf í trésmíði. Á þessum árum var atvinnulíf ekki blómlegt, svo menn urðu að taka þeirri vinnu sem bauðst, allt var betra en atvinnuleysið. Jónas vann nokkur ár með föður sínum við leiktjaldasmíð í Iðnó. Hann var ljósameistari um tíma þar, en þá voru notaðar bensínluktir, svonefndar King stormluktir. Eitt sinn er verið var setja bensín á þær kviknaði í bensíninu, en fyrir snarræði tókst Jónasi að koma í veg fyrir stórbruna, en hann brenndist illa. Jónas vann við smíði Gasstöðvarinnar og réðst sem starfsmaður þangað er byggingu hennar lauk 1910. Launin voru 15 aurar á klst. Hann fékk löggildingu sem gaslagningamaður. Nóg var að gera við gaslagnir í nokkur ár á meðan þær voru lagðar í götur og hús.
Árið 1913 kvæntist Jónas unnustu sinni, Hólmfríði, f. 5. mars 1894 í Reykjavík, Jóhannsdóttur trésmiðs Jónssonar, kona hans var Jóhanna Jónasdóttir. Kjörsonur þeirra er Knútur Hallsson lögfræðingur, f. 30. desember 1923 í Reykjavík.

Árið 1918 vann Jónas hjá Steingrími Guðmundssyni byggingameistara við smíði prestseturs á Patreksfirði og verslunarhús Proppébræðra á Þingeyri. Þar kynntist Jónas Halldóri Guðmundssyni rafvirkjameistara. Þessi kynni leiddu til þess að Jónas gerðist aðstoðarmaður Halldórs. Þegar Jónas hafði unnið liðlega vikutíma hjá Halldóri þurfti Halldór að hverfa frá til annarra starfa. Hann fól þá Jónasi að ganga frá þeim lögnum sem eftir voru. Þetta hafði verið nokkuð stuttur námstími í rafvirkjun, en Jónas bjó að þekkingu sinni úr fyrri störfum og þegar Halldór kom til baka voru ljós komin á þau hús sem eftir voru.

Eftir dvölina fyrir vestan hélt Jónas til Reykjavíkur og réðst til Jóns Sigurðssonar rafvirkjameistara. Eitt af fyrstu verkum hans þar var að leggja raflagnir í Nýja Bíó. Jónas gerðist síðan aðstoðarsýningarmaður í bíóinu. Þá var sýningarvélunum snúið með handafli. Jónas tók við rekstri verslunar Jóns árið 1928, þegar hann dó. Hann var verslunarstjóri til 1932, þá gerðist hann rafvirkjameistari. Hann starfaði alltaf einn, utan seinni hluta starfsferils síns, þá var hann í samstarfi við Aðalstein Tryggvason.

Jónas var áberandi í RVR á fyrstu árum þess. Hann var í mörgum nefndum og var formaður í félaginu þegar vinnuveitandi hans dó. Jónas tók þátt í félagsstarfi meistara eftir að hann var orðinn félagsmaður þar og átti m.a. sæti í stjórn FLRR.
Jónas lést 5. júní 1984.

FÉLAG RAFVIRKJAMEISTARA Í REYKJAVÍK

29. mars árið 1927 komu 5 rafvirkjameistarar saman á skrifstofu Bræðranna Ormsson að Óðinsgötu 25 og stofnuðu Félag rafvirkjameistara í Reykjavík
Stofnendur rafvirkjameistarafélagsins voru :
Jón Ormsson, Jón Sigurðsson f.22.2.1884 í Flatey á Breiðafirði d. 8.7.1928, Eiríkur Hjartarson f.1.6.1885 að Uppsölum í Svarfaðardal, Edvard Jensen f.29.8.1891 í Odense á Fjóni Danm., d.19.11.1948, Júlíus Björnsson f.24.4.1892 að Lágafelli í Miklaholtshr.

Jón Ormsson var kosinn formaður, Júlíus Björnsson ritari og Jón Sigurðsson gjaldkeri. Félagsgjald var ákveðið 60.00 kr. á ári en var lækkað í 30.00 kr. ári seinna. Á stofnfundi voru samþykkt lög þar sem segir að tilgangur félagsins sé að styrkja samstarf félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna, svo og að halda uppi áliti og virðingu stéttarinnar með samheldni, framtakssemi og bættum vinnuaðferðum.

Strax á fyrsta ári komu fram áhyggjur meistaranna 5 út af verkefnaskorti. Töldu þeir fjölgun í félaginu ótímabæra og skrifuðu rafmagnsstjóra bréf þar að lútandi.
Á aðalfundi 1933 var nafni félagsins breytt í Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík.

Árið 1932 var Iðnsamband byggingamanna stofnað, ætlunin var að samtök byggingamanna, bæði sveina og meistara væru innan þess. Iðnsambandið átti að gegna sáttasemjarahlutverki í deilumálum ásamt því að vinna að framgangi sameiginlegra hagsmunamála. Iðnsambandið var oft gagnrýnt í fundargerðum RVR fyrir það að rafvirkjar töldu það alltof hliðhollt sjónarmiðum meistara. Úrsögn var oft til umræðu og var hún samþykkt í ársbyrjun 1935 en ekki kemur nægjanlega skýrt fram í fundargerðum hver framvindan varð.
FLRR gekk úr Iðnsambandinu 1936 og í Vinnuveitendasambandið sama ár. Ári síðar gekk FLRR í Landssamband iðnaðarmanna. Iðnsambandið lagðist af 1937. Þá var búið að stofna Iðju sem hefur örugglega haft áhrif á þróun þessara mála.

FYRSTI KJARASAMNINGURINN

Atvinnurekendur neituðu í fyrstu að viðurkenna félagið, en með stofnun meistarafélagsins í mars 1927 skapaðist grundvöllur til samninga.
Fyrsti samningurinn milli rafvirkjafélagsins og meistarafélagsins var undirritaður 1. maí 1927. Í fyrstu samninganefndina voru kosnir Guðmundur Þorsteinsson, Jónas Guðmundsson, Ögmundur Sigurðsson, Ágúst Ólafsson og Hafliði Gíslason

.
Á fundi 5. maí 1927 fór varaformaður, í fjarveru formanns, yfir nýundirritað samningsuppkast. Hann kvaðst vona; “að félagsmenn skildu þó eitthvað mætti að samningnum finna, þá væri hér um margar réttarbætur að ræða og þar eð þetta væri í fyrsta skipti er slíkur samningur væri gerður. Laga mætti þá galla er með reynslunni kæmu fram. Í samningnum kemur fram að engir aðrir megi stunda þessa atvinnu nema sveinar og lærlingar”.

Ábyrgðin sem getið er í 6. gr. átti eftir að valda geysilega miklum deilum í félaginu næstu áratugi.

Samningur

milli Félags löggiltra rafvirkja í Reykjavík og Rafvirkjafélags Reykjavíkur

1. gr.

Dagvinnutími telst frá tímabilinu frá 1. mars til 31. ágúst frá kl. 7 árdegis til kl. 6 síðdegis. Á tímabilinu 1. sept. til síðasta dags febr.mánaðar frá kl. 8 árd. til kl. 6 síðd.

2. gr.

Aukavinna. Vinna eftir hættutíma (samkv. 1. gr.) til kl. 10 síðdegis greiðist með 50% viðbót á dagvinnulaun. Vinna eftir kl. 10 síðdegis til vinnubyrjunar næsta dag (samkv. 1. gr.) svo og vinna á lögboðnum helgidögum og frídögum, greiðist með 100% álagi á dagvinnulaun.

3. gr.

Veikindi. Þeir rafvirkjar, sem ráðnir eru með árs- eða mánaðarkaupi, skulu ekki verða fyrir neinu frádragi af kaupi sínu þótt þeir verði veikir allt að 14 dögum á ári, ef veikindin stafa ekki af óreglu hlutaðeiganda.

4. gr.

Sumarleyfi. Hver sá, sem starfað hefur hjá sama meistara í eitt ár, og haft minnst 6 mánaða vinnu, skal fá 6 daga sumarleyfi með fullu kaupi.

5. gr.

Kaupgreiðsla. Þeim rafvirkjum, sem vinna gegn tímakaupi. skal greiða vinnulaun vikulega. Þeim, sem vinna gegn mánaðarkaupi, skal greiða kaupið við lok hvers mánaðar, nema öðruvísi sé um samið. Samningsvinna greiðist vikulega í hlutfalli við það sem unnið hefur verið. Öll aukavinna greiðist vikulega.

6. gr.

Ábyrgð. Komi í ljós eftir afhendingu verks -innan 6 mánaða- sem unnið er af rafvirkja og nemanda, sem honum -sveininum- hefur verið fenginn til aðstoðar, að verkið sé ekki unnið samkvæmt reglum Rafmagnsveitu Reykjavíkur um raflagnir í Reykjavík, skal Rafvirkjafélag Reykjavíkur þá gera á sinn kostnað nauðsynlegar umbætur á verkinu, svo að það verði í samræmi við áðurnefndar reglur og afhendi það síðan hlutaðeigandi rafvirkjameistara. Gagnkvæmt skuldbinda rafvirkjameistarar sig til að taka ekki í vinnu menn sem standa í óbættum sökum við Rafvirkjafélag Reykjavíkur.

7. gr.

Lágmarkskaup skal vera kr. 1.70 um kl.st. í dagvinnu, fyrir þá rafvirkja er unnið hafa hjá löggiltum rafvirkja að raflögnum eða öðru því er að iðninni lýtur í full 4 ár og reynast færir um að leggja í gömlu timburhúsi minnst 4 lampastæði á dag, eða standast það próf er ákveðið kann að verða.

8. gr.

Rafvirkjafélag Reykjavíkur skuldbindur sig til að sjá um að félagsmenn vinni ekki að neinni þeirri vinnu er til rafvirkjastarfsemi getur talist, nema í þágu löggiltra rafvirkjameistara.

9. gr.

Dagvinna í skipum og vélbátum skal til áðurnefnda rafvirkja greiðast m. kr. 2.00 pr. klst.

10.gr.

Mánaðarlaun mega vera 5% lægri en tímakaupið, séu menn ráðnir til 6 mánaða, en 10% lægri en tímakaupið, séu menn ráðnir til eins árs.
Aukavinna sé samkv. 2. gr.og 5 gr. Sjéu menn ráðnir til 6 mánaða eða lengur skal telja 25 virka daga til hvers mánaðar.

11. gr.

Samningsvinna í gömlum timburhúsum og húsum sem eru í smíðum, greiðist:

a. Þar sem algengir utan á liggjandi rofar og tenglar eru notaðir kr. 0.90 pr. metra í 5/8″ pípum.
b. Þar sem hálfinngreyptir rofar og tenglar eru notaðir kr. 1.00 pr. metra í sömu pípum.
c. Þar sem alinngreyptir rofar og tenglar eru notaðir kr. 1.20 pr. metra í sömu pípum.

Í a,b og c liðum er átt við fullgerðar ljósa- og hitagreinar með uppsettum mælum og greiniborðum, séu tréborð notuð.
d. Fyrir stofna og kvíslar í sömu húsum, í 5/8″ pípum kr. 0.90, í 3/4″ pípum kr. 1.00 og í 1″ pípum kr. 1.10.
Vinnuveitandi fái verktaka í hendur teikningu af og lýsingu á verkinu áður en á því er byrjað.
Fyrir blýstrengslagnir í timburhúsum greiðist kr. 1.20 pr. metra í lögninni fullgerðri með töflum. Blýstrengslagnir í steinhúsum með steinskilrúmum reiknast 40% hærra.
Sé nemandi látinn í té af vinnuveitanda til aðstoðar við samningsvinnu, skal hann fá í kaup frá verktaka:
á 1. ári 15%, á 2. ári 20%, á 3. ári 25% og á 4. ári 30% af samningsupphæðinni.

12. gr.

Verk, sem samkvæmt þessari verðskrá ekki nemur kr. 25.00, getur hvorugur samningsaðili krafist samningsverðs á. Lagnir sem lagðar eru í meir en 5 metra hæð frá gólfi, eða af öðrum ástæðum eru sérstaklega örðugar, greiðast eftir samkomulagi.

13. gr.

Rísi deilur út af samningsvinnu eftir samningi þessum skulu þær lagðar í gerð og velur stjórn RVR einn mann, löggiltir rafverktakar annan, en rafmagnsstjóri Reykjavíkur sé oddamaður

14. gr.

Fjöldi nemenda og aðstoðarmanna hjá hverjum rafvirkjameistara má ekki vera meira en einn á móti hverjum þeim er uppfyllir skilyrði 7. gr. Rafvirkjameistari skal sjá um að nemandi sé undir handleiðslu æfðs rafvirkja.

15. gr.

Nú þarf vinnuveitandi aukinn verkalýð og skal þá stjórn RVR skylt að gjöra sitt til að útvega honum hæfa menn til þeirra verka er fyrir liggja á hverjum tíma.

16. gr.

Rafvirkjameistara ber að stuðla að því, að sveinar þeir er hann ræður til sín gangi í RVR og séu þeir ekki í óbættum sökum við félagið. Þetta nær þó ekki til verkstjóra.

17. gr.

Rísi ágreiningur út af einhverju atriði í samningi þessum sker gerðardómur V.F.Í. úr. Þeim úrskurði má áfrýja til dómstólanna.

18. gr.

Brot á samningi þessum varða frá kr. 50.000 til kr. 300.000 sekt og ákveður gerðardómur V.F.Í. upphæðina í hvert sinn.

19. gr.

Samningur þessi gildir um eitt ár frá dagsetningu hans.

Reykjavík 1. maí 1927

F.h. Félags löggiltra rafvirkja í Reykjavík F.h. Rafvirkjafélags Reykjavíkur

A – TAXTI
Rafvirkjameistarafélags Reykjavíkur
á rafmagnslögnum

I. Innfelld, skrúfuð pípulögn, með alinnfeldum búnaði.

a) Einfalt lampastæði er talin lögn með einfaldri kveikingu, eða tengill, miðað við allt að 6 m pípulengd til jafnaðar á lampastæði og ekki færri en 8 lampastæði á grein eða í hús. Skal það fullbúið að lömpum reiknast á kr. 20.00 hvert lampastæði. Í þessu er innifalið: Stofn, trjesjald og spjaldkassi, vör og annar töflubúnaður.
Sé um færri lampastæði að ræða en 8, skal leggja á að minnsta kosti 7% aukagjald, miðað við tölu á grein, eða alls í húsi.

b) Krónustæði reiknast 1,5 einfalt stæði.

c) Einir samsnerlar fyrir einum lampa reiknast sem 1 3/4 einfalt lampastæði.

d) Einir samsnerlar fyrir tveimur lömpum reiknast sem 2,5 einfalt lampastæði.

Séu samsnerlar eða lampar fleiri, reiknast hver loftdós eða rofi með tilheyrandi pípu og þræði, til viðbótar, sem 60% úr einföldu lampastæði.

e) Tengill við rofa reiknast 0,5 einfalt stæði.

f) Hitagrein, með 1-2 stæðum, reiknast pr. stæði tvö einföld, en 3 stæði og þar yfir reiknast 1,5 stæði, enda sé að minnsta kosti vírinn 2,5 mm, pípuvídd 3/4″ og búnaður 15 amp.

g) Hringingarlögn. Eitt hringingarstæði reiknast tvöfalt, algengt lampastæði. Sé um að ræða 2-3 hringingarstæði, reiknast þau 1,5 pr. stæði. Sje um fleiri hringingarstæði að ræða, reiknast fyrstu 3 stæðin eins og áður er sagt, en hvert stæði þar fram yfir sem einfalt lampastæði, enda er þá númerakassi meðtalinn. Spennubreytir og ein bjalla fylgir ávallt með í verðinu.

h) Þar sem um lengri lagnir er að ræða en 6 m til jafnaðar pr. stæði í ljósa- og hitalögn, en 10 m. í hringingarlögn, skal reikna aukalega kr. 1.00 fyrir hvern m í ljósa- og hringingarlögn, kr. 1.50 pr. m í hitalögn með 3/4″ pípu. Í samsnerlum miðast yfirlengd á pípum við fjölda lampadósa.

i) Þar sem sótt er spjald í kjallara fyrir allar hæðir, skal reikna aukalega á grein sem hér segir:
1. hæð kr. 1.60
2. hæð kr. 3.50
3. hæð kr. 5.40
Greinikassar á hæðum eru meðtaldir þar sem þeirra er þörf.

j) Spjaldbúnað með gegnumsettum spjaldkassa 40 x 50 cm og ein hurð reiknast aukalega kr. 40.00. Sama stærð, læst beggja vegna, kr. 65.00. Spjaldkassi 60 x 70 cm og ein hurð kr. 60.00. Sami, læstur beggja vegna, kr. 75.00. Sé spjald úr marmara, skal það reiknað aukalega á 0,2 aura hvern fercm.

II. Blýstrengslögn, grunntengd, reiknast kr. 27.00 pr. algengt lampastæði, svo hlutfallslega sbr. liðina I a – i og j óbreytt, ef um það er að ræða, nema um vatnsheldan spjaldbúnað sé að ræða. Þá skal reikna hlutfallslega eins og I a – i.

III. Utanáliggjandi pípulögn, með utanáliggjandi búnaði, reiknast kr. 16.00 algengt stæði. Síðan hlutfallslega sbr. liðina I a – i og j óbreytt, ef um það er að ræða.

IV. Innfelld lögn, með utanáliggjandi eða hálfinnfelldum búnaði, reiknast kr. 18.00 pr. algengt stæði. Síðan hlutfallslega sbr. liðina I a – i og j óbreytt, ef um er að ræða.

Taxti þessi er lágmarkstaxti á verðlagi algengra ljósa-, hita-, og hringingarlagna í venjuleg íbúðarhús, búðir, skrifstofur og þ.u.l.

Taxti þessi er samþykktur á lögmætum félagsfundi Rafvirkjameistarafélags Reykjavíkur þann 7. september 1933, og gildir þangað til öðruvísi verður ákveðið af lögmætum félagsfundi.

4. KAFLI

KJARABARÁTTAN FYRSTU ÁRIN

FYRSTI SAMNINGUR ÓBREYTTUR

Kjarasamningurinn frá árinu 1927 var framlengdur lítið breyttur fyrstu árin. Meistararnir kröfðust þess ítrekað að nematakmörkun yrði aflétt og RVR krafðist þess að losna undan ákvæði um ábyrgðina. Einnig var ósamkomulag um ákvæðistaxtann.

Á framhaldsaðalfundi 12. febrúar árið 1928 las Hallgrímur Bachmann upp frumvarp til reglugerðar fyrir sveinspróf rafmagnsvirkja og óskaði eftir umsögn félagsins. Engar athugasemdir voru gerðar. Á næsta fundi, 25. mars árið 1928, var lögð fram til umsagnar reglugerð um verklegt nám rafmagnsvirkja og verkefni þeirra til sveinsprófs. Samþykkt var að leita til Iðnaðarmannafélagsins um að RVR fengi að segja álit sitt á reglugerðinni, meistarafélagið hafði breytt reglugerðinni án samráðs við RVR. RVR vildi fá fram breytingar á verkefnum til sveinsprófs.

Stofnuð var nefnd til að athuga hvort stofna ætti sjúkrasjóð. Niðurstaða nefndarinnar var að félagið væri of fámennt til þess að geta staðið undir slíkum sjóði, félagsmenn vildu ekki greiða hærri félagsgjöld, félagið stæði í stórræðum með leigu á fundarstað og frekar ætti að hvetja félagsmenn til að vera í Sjúkrasamlagi Reykjavíkur.

Á fundi 29. apríl 1929 var kynnt álit meistarafélagsins um að kaup nýsveina eigi að lækka niður í 1.62 kr. og nýsveinataxti fyrir sveina á 1. og 2. ári í 1.52 kr. og að ákvæðisvinnutaxti haldist óbreyttur þrátt fyrir að járnkassar væru settir undir töflur og pípur skrúfaðar saman. Einnig var þess krafist, að kaupið miðist framvegis við járnsmiðakaup en ekki húsasmiði eins og hingað til, þar sem rafvirkjar sinni léttari og þokkalegri vinnu sem útheimti ekki eins mikið fataslit og hjá smiðunum.

Til að réttlæta lækkun nýsveinakaupsins bentu meistararnir á að ekki væri tekið nægilega mikið tillit til raffræðinnar í Iðnskólanum. Fram kom á fundum í RVR að rafvirkjasveinar eyði meira í föt vegna þess að við værum í ýmsum óþverra á háaloftum og í kjöllurum og þess á milli þyrftum við að vera í stofum og yrðum að vera þokkalega til fara, þessvegna eyddum við meira í föt.
Haldnir voru nokkrir árangurslausir samningafundir. Meistarar samþykktu svo eftir nokkurt þóf að greiða mönnum kaup samkvæmt síðustu samningum þangað til samningar tækjust.
Hallgrímur Bachmann greindi frá því að stjórn meistarafélags hefði farið þess á leit við sig að hann hlutaðist til um að RVR menn ynnu ekki hjá öðrum en þeim rafvirkjameisturum sem væru í meistarafélaginu, gegn því að þeir hefðu einungis félagsmenn RVR í sinni þjónustu. Félagsmenn töldu nægilegt að samþykkja að þeir myndu ekki vinna fyrir lægra kaup hjá öðrum.
Í fundargerðum RVR árið 1929 kemur fram að samningar hafi ekki tekist. En í fundargerðum meistarafélagsins segir að samþykkt hafi verið að þeir sem vinni fyrir sæmilegu kaupi, 1.40 kr. og þar yfir, leggi sér til verkfæri.

Á aðalfundi árið 1930 var lögð fram sú tillaga frá meistarafélaginu, að sveinar eigi sjálfir sín verkfæri, tösku undir þau og tröppu. Samþykkt var að gera þetta að samningsatriði, en gera þá einnig kröfu um að meistarar ábyrgðust verkfærin á vinnustað og lærlingar fengju sömu verkfæri hjá meistara. Meistarar vildu samanburð við trésmiði, þeir sköffuðu sjálfir sín verkfæri Á það var bent af samningamönnum RVR, að slíkur samanburður væri ekki eðlilegur þar sem trésmiðir gætu notað sín verkfæri sjálfir utan vinnutíma, en það gætu rafvirkjar ekki sakir þess, að samkvæmt gildandi samningi mættu þeir ekkert vinna við iðnina nema fyrir löggilta meistara eða með samþykki þeirra. Það náðist ekkert samkomulag um þessi atriði og samningar héldust óbreyttir áfram.

Í samningaviðræðum árið 1932 vildu meistarar lækka ákvæðisvinnutaxtann og tímakaup í skipum í 2.00 kr. Þar kom fram að meistarar sögðu upp samningum. Fram kom að meistarar hefðu staðið slælega við samninginn í öllum tilfellum. Fundurinn vildi takmarka nemafjölda og skylda meistara til þess að greiða félagsgjöld þeirra sem hjá þeim vinna. Á næsta fundi kom fram að nær engin ákvæðisvinna væri unnin á félagssvæðinu. En þá var nær eingöngu unnið í ákvæðisvinnu hjá H.f. Rafmagn og þeir hafi skapað sér taxta sem væri 4.35 til 4.50 kr. pr. lampastæði og frían lærling. Samþykkt var að ófært væri að Rafmagn ynni eftir einkasamningi sem ekki væri samþykktur af félaginu. Samþykkt var að banna félagsmönnum að taka ákvæðisverk þar til tekist hefðu samningar um ákveðið verð fyrir ljósastæði.

FYRSTA VINNUDEILAN

Á fundum vorið 1934 komu fram vaxandi deilur á milli meistara og RVR um gerð kjarasamnings. Helstu ágreiningsefni voru að meistarar vildu ekki hækka kaup og samþykkja takmarkaðan fjölda nema. Þeir kröfðust þess að fá nemanda fyrir hverja 2 sveina sem væru í fullri vinnu 6 mánuði á ári. Einnig kröfðust þeir þess að sett yrðu inn ákvæði sem banni sveinum að vinna í iðninni í sumarleyfum.
Kosin var 3 manna samninganefnd, en auk þess voru settir í hana 2 lærlingar til þess að semja um taxta vegna lærlinga.

Á fundi þar sem undirbúningur samninga var ræddur veltu menn því fyrir sér hvort rétt væri að semja um akkorð. Það var dregið í efa vegna þess að þau væru einungis til þess fallin að kalla yfir menn kauplækkanir sem þeir reyndu síðan að vinna upp með aukinni yfirvinnu. Í umræðunni kom fram að það væri rétt að krefjast þess af meisturum, að vildu þeir semja um akkorð yrðu þeir að tryggja að menn fengju greitt vikukaup, reyndist akkorðið of lágt.

Á þessum fundum var samþykkt að stefna að því að dagvinna væri frá kl. 8 – 18.00 alla daga nema laugardaga, þá væri hún til kl. 13.00. Einnig komu fram tillögur um að meistarar mættu taka 1 nema á móti hverjum 2 sveinum í fullri vinnu allt árið. Með þessu yrðu nýir nemar ekki fleiri en sem svaraði 4-5 á ári. Einnig var fellt að taka upp samninga um akkorð. Á móti hverjum heilum mánuði sem sveinn ynni hjá meistara skyldi hann fá 1 dag í orlof á fullu kaupi og hafa heimild til að taka alla dagana í einu sem sumarfrí. Samningar náðust ekki og voru þeir eldri framlengdir óbreyttir.

Á þessum árum og fram yfir stríð, kostaði það mikla baráttu að fá rafvirkjanema samþykkta í félagið. Nemar utan af landi komu með skjöl undirrituð af heimamönnum þar sem því var lofað að viðkomandi nemi myndi flytjast út á land þegar að námi loknu. Þeir leituðu uppi áhrifamenn í félaginu með þessi skjöl og ef þeir fengu samþykki eða vilyrði fyrir inngöngu var mun auðveldara að komast á samning. Ef ekki var til staðar vilyrði fyrir inngöngu í félagið, var útilokað að nemar kæmust á samning. Einn rafvirkjanema utan af landi sem var vel liðtækur í fótbolta, fullyrðir að þegar hann hefði lofað stjórnarmanni að hann gengi í KR, fékk hann inngöngu í félagið.

Mikið var sett upp af vindmyllum með 6-12 volta rafal til ljósa. Lagðir voru annað hvort blýstrengir eða lagðar lagnir á hnöppum. Vatnsþétt efni var brætt í dósir. Efni var aðallega flutt inn af Einkasölunni, einnig af bræðrunum Ormsson og Eiríki Helgasyni. Í skipum voru allar lagnir úr málmi, snittaðar fittingslagnir. Farartæki sem rafvirkjar notuðu voru lang oftast reiðhjól, allt efni var borið á öxlunum eða hengt utan á hjólin. Þegar lagt var af stað í ný verkefni, var kassi með raflagnaefni settur á bögglaberann og búnt af járnrörum sett á öxlina, verkfærin voru hangandi um hálsinn framan á brjóstinu og síðan var hjólað, stundum bæinn á enda.

Rafvirkjar sem unnu við að koma fyrir sendum útvarpsins á Rjúpnahæð hjóluðu þangað á hverjum morgni árið 1930 neðan úr miðbæ. Oftast voru þeir með eitthvert efni á bögglaberanum og stundum líka á öxlunum. Reiðhjólið var rafvirkjum og nemum nauðsynlegt og voru þeir oft með kröfur um stuðning vegna útgerðar þeirra í kjarasamningum.

Það voru oftast mikil viðbrigði þegar kveikt var á rafljósunum. Myrkrið hafði verið allsráðandi og í torfbæjum var ekki mikið um glugga. Sá leikur var vinsæll hjá rafvirkjum þegar þeir lögðu í sveitabæi, að tengja raflögnina við vindmylluna eða heimavirkjunina án þess að minnast á hvað stæði til og láta svo öll ljósin kvikna allt í einu. Sumum húsmæðrum varð svo mikið um að þær fengu aðsvif eða misstu það sem þær voru með í höndunum í gólfið. Það var oft mikið hlegið og mikil kátína að þessu afstöðnu. Enda var hér um mikinn viðburð að ræða. Hin mikla birta raflýsingarinnar varð húsmæðrum torfbæjanna oft til mikilla vandræða og kinnroða. Birtan kostaði miklar hreingerningar og kröfur á hendur húsbændum þeirra um bættan frágang á veggjum, gólfi og lofti.

Veturinn 1934-1935 var unnið að stofnun Landssambands rafvirkja með rafvirkjameisturum, rafveitustjórum og vélgæslumönnum. Það kemur ekki fram í gögnum félagsins hvað varð um þetta samband.
Eftir mikinn uppgang frá lokum seinni heimsstyrjaldar dró heldur betur til tíðinda í október 1929. Verðbréf hrundu í kauphöllinni í New York og hvert fyrirtækið af öðru verður gjaldþrota. Kreppan kom harðast niður hér á árunum 1931-1933, en þá hrundi verð útfluttra landbúnaðar- og sjávarafurða um nærri helming miðað við árið 1929. Borgarastyrjöldin á Spáni setti einnig strik í reikninginn, því þar voru stærstu saltfiskmarkaðir okkar, þannig að kreppan stóð hér fram yfir árið 1940. Sumarið 1934 vann Framsóknarflokkurinn mikinn kosningasigur. Framsóknarmenn og Alþýðuflokksmenn höfðu gert með sér bandalag um að mynda stjórn ef þeir gætu.

Maðurinn bak við sigur Framsóknarmanna var Jónas frá Hriflu, en Alþýðuflokksmenn gátu ekki sætt sig við að hann yrði forsætisráðherra. En hann valdi mennina sem fóru fyrir Framsóknarmenn í stjórnina. “Stjórn hinna vinnandi stétta” var mynduð. Þar var Hermann Jónasson forsætisráðherra, Eysteinn Jónsson fjármálaráðherra og Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Þessi stjórn samdi áætlun um að koma á föstu skipulagi á allan þjóðarbúskapinn, jafnt opinberar framkvæmdir og fyrirtæki sem atvinnurekstur einstaklinga. Komið var á mjög ströngum gjaldeyrishöftum, settar voru á laggirnar nefndir sem sækja þurfti um leyfi til vegna hvers konar innflutnings og framkvæmda.

Fljótlega kom fram áætlun um að stofna Raftækjaeinkasölu ríkisins. Bæði rafvirkjar og rafvirkjameistarar börðust gegn þessu af miklum krafti. Á fundi 1. apríl 1935 segir Hallgrímur Bachmann að þetta sé fyrsta einkasalan sem sett er á stofn er við kemur sérstétt og þar hafi engir komið að málinu sem hafi til að bera sérþekkingu: “Þetta er slæmt fordæmi og getur alls ekki svo til gengið. Þetta er hrein móðgun við stéttina, en ef við erum nógu samtaka fáum við þessu breytt. Ef einhverjir vilja svíkjast undan merkjum blokkerum við þá”.

Á næsta fundi kom fram að ríkisstjórninni var sent bréf þar sem takmörkun á innflutningi byggingarefnis var mótmælt. Á næstu fundum kom þetta mál oft upp. Menn ræddu þar hvort knýja ætti á málið með vinnustöðvun.

Á fundi á Hótel Borg þann 30. maí 1935 kom fram að fjármálaráðherra hefði lofað rafvirkjameisturum að sjá í gegnum fingur við þá þó álagning á sumu af raflagnaefninu yrði aðeins hærri en leyfilegt væri samkvæmt reglugerðinni og atvinnumálaráðherra lofaði því. að hr. Seigler færi frá eftir eitt ár. Fjármálaráðherra lofaði að hr. Seigler starfaði aðeins inn á við sem verkfræðingur Einkasölunnar. Málinu var mótmælt eins og áður, en einkasalan náði fram að ganga og henni fylgdu mikil efnisvandræði, sem stóðu meðan þetta fyrirkomulag gilti, á annan áratug.

Fyrsta vinnudeila félagsins hófst 27. júní árið 1936 og stóð til 8. júlí sama ár. Vinnubrögð félagsins í deilunni voru mjög vel skipulögð, fundir haldnir á hverjum degi og farið var á vinnustaði. Þá voru í félaginu 73 menn. Höfðu atvinnurekendur sagt upp samningum og neituðu að undirrita nýja. Var því raunverulega um verkbann af hendi meistarafélagsins að ræða.

Var þessi deila all söguleg, m.a. sagði meistarafélagið sig úr Iðnsambandinu vegna hennar, en bæði félögin höfðu verið í sambandinu, sem og önnur hliðstæð félög. Í verkfallinu var það rætt á fundum að fara þess á leit við Rafmagnsveituna að hún tæki að sér allar raflagnir í bænum. Þetta virðist hafa haft jákvæð áhrif á meistarafélagið því daginn eftir kom tilkynning frá því um að það sjái ekkert sem standi í vegi fyrir því að samningaviðræður hefjist. Nokkrum dögum síðar kom beiðni frá Iðnsambandinu um að það fengi að taka inn einn löggiltan rafverktaka til þess að sjá um að leyst verði vinna við þær framkvæmdir sem stöðvaðar höfðu verið. Þessi tillaga var felld með öllum greiddum atkvæðum.

Deilu þessari lauk 6. júlí með tiltölulega góðum málalokum fyrir RVR. Nokkrar þýðingarmiklar breytingar náðust fram, þ.á.m. viðurkenning á forgangsrétti meðlima RVR til vinnu hjá meisturum. Nematakmörkunin var áfram og Hallgrími Bachmann iðnráðsfulltrúa var falið að samþykkja enga nemasamninga nema með samþykki sveinafélagsins. Á fundi í RVR 30. október árið 1936 var samþykkt að hækka hlutfall sveina á móti nemum upp í 3 fullvinnandi sveina hjá meisturum vegna atvinnuástands.

Eftir að þessum samningum var náð, færðist nokkur værð yfir kjarabaráttuna um skeið. Þó var á árinu 1937 gerður viðbótarsamningur við FLRR, þar sem ákveðið var að kaup rafvirkja skyldi hækka til samræmis við aukna dýrtíð, samkvæmt vísitölu Hagstofunnar. Varð þetta þannig í framkvæmd, að ef vísitala Hagstofunnar hækkaði eða lækkaði um 5 stig, breyttist kaup félagsmanna til samræmis við það. Þann 15. jan. árið 1941 átti félagið á ný í vinnudeilu við atvinnurekendur, og stóð hún til 22. sama mánaðar, að samningar tókust. Helstu breytingar frá fyrri samningum voru þær, að tímakaup hækkaði í 1.93 kr. á klst. og ákveðið var að greiða sveinum fæði og uppihald, auk ferðakostnaðar þegar unnið var utan Reykjavíkur. Samningurinn var gerður til eins árs, en uppsagnarfresturinn var 3 mánuðir.

Haustið 1937 voru Sogstöðvarnar teknar í notkun. Rafmagnsveitur Reykjavíkur höfðu þá töluverða umframorku og gripu til þess ráðs að hefja auglýsingaherferð til þess að fá bæjarbúa til þess að fjárfesta í rafmagnseldavélum.

Dagbók Hallgríms Bachmann úr ferðalagi hans kringum landið vorið 1935

Kl. 9.15 að kvöldi hins 10. maí 1935 var lagt frá Reykjavík með E.S. Esju til að safna undirskriftum rafvirkja og rafstöðvarstjóra. Vonir rafvirkja (í Reykjavík, Hafnarfirði) voru mikið bundnar við árangur þessarar ferðar. Því talið var víst að undirtektir rafvirkja og rafstöðvarstjóra þeirra er til næðist væru góðar. Kröfur er fram voru komnar frá rafvirkjum myndi fljótlega verða teknar til greina. Undir kröfur viðvíkjandi framkvæmd einkasölu á raftækjum og rafvélum og efni. Og kröfum um að Sigurði Jónssyni og Seigler verði báðum vikið frá starfi við undirbúning og framkvæmd nefndrar einkasölu.

Frá byrjun voru undirskriftir stuðningsmanna að kröfum rafvirkja þannig, að útilokað var að telja þær tengdar sértækri stjórnmálastefnu einni frekar en annarri því undir skrifuðu strax stuðningsmenn sjálfstæðismanna, kommúnista, jafnaðarmanna og framsóknar, því öllum virtist ljóst að þarna var um að ræða hverja möguleika í næstu framtíð rafvirkjar hefðu til að lifa af því starfi sem þeir hefðu valið sér sem aðalstarf. Og þeim virtist öllum ljóst að ef raftækjaeinkasalan seldi öllum þeim er reglugerð tilnefndi raflagningaefni og tæki, myndi vinnan, og þá um leið öryggið fyrir að sómasamlega væri frá lögnum gengið, að mjög miklu leyti hverfa úr höndum rafvirkja.

Til Vestmannaeyja var komið kl. 1.20 e.m. hinn 11. maí.
Haraldur Eiríksson rafvirki þar kom fljótlega út á skip og tjáði sig í öllu samþ. því er gert hafði verið og skrifaði nafn sitt því til staðfestu. Einnig kvaðst hann senda rafstöðvarstjórann til mín ef hann næði í hann áður en skipið færi sem þó ekki varð.

Til Hornafjarðar var komið kl. 8.25 f.m. hinn 12. maí.
Þar kom til mín á skip út Gísli Björnsson er þar er rafstöðvarstjóri og eini rafvirkinn á staðnum. Var hann einnig í öllu samþykkur og skrifaði nafn sitt og bað mig fara með endurnýjunarbeiðni löggildingar sinnar.

Til Fáskrúðsfjarðar var komið kl. 10 e.m. hinn 12. maí.
Þar kom til mín Snorri Magnússon sem er rafstöðvarstjóri og rafvirki þar á staðnum. Var hann einnig í öllu samþykkur því er gjört hafði verið. Og skrifaði nafn sitt sem fylgjandi því að áfram væri haldið með gerðar kröfur.

Til Reyðarfjarðar kl. 3 að nóttu hinn 13. maí.
Þar er Frímann Jónsson viðurkenndur rafstöðvarstjóri og rafvirki. Var hann einnig einhuga meðmæltur að halda fast fram gerðum kröfum og skrifaði nafn sitt.

Til Eskifjarðar kl. 6.20 að morgni hinn 13. maí
Er þar var lagst að bryggju svo ég fór heim til rafstöðvarstjórans þar og með honum út í rafstöð til að líta á vélarnar er farnar eru að gefa sig.
Var hann einnig mjög meðmæltur gjörðum kröfum og fyrirhuguðum framkvæmdum og skrifaði nafn sitt.

Til Neskaupstaðar í Norðfirði var komið kl. 11.30 f.m. hinn 13. maí.
Þar var einnig lagst að bryggju og fór ég því þar í land.
Af hendingu frétti ég að Kristján Imsland sem skráður er með rafvirkjaréttindum á Seyðisfirði væri þar staddur og fór ég því að leita hann uppi og fann hann von bráðar. Fylgdi hann einnig málinu og skrifaði undir. Síðan fór ég að leita rafstöðvarstjórans en hann er skráður Ólafsson en kvaðst vera Gunnarsson, en villa þessi kom þó ekki að sök og skrifaði hann einnig undir sem styrktarmaður málsins.

Til Seyðisfjarðar var komið kl. 5.30 e.m. hinn 13. maí.
Þar var einnig lagst að bryggju. Fór ég því heim til Kjartans Sigurðssonar rafstöðvarstjóra og rafvirkja þess staðar og taldi hann þetta er krafist var vera svo sjálfsagt fagmál að hann skrifaði undir það fúslega því til stuðnings.
Einnig fór ég heim til Guðmundar Benediktssonar er lengi hafði starfað þar við stöðina og var hann þessu máli mjög fylgjandi, en taldi sig ekki getað skrifað nafn sitt þar eð hann hefði engin viðurkennd réttindi í faginu.

Til Húsavíkur var komið kl. 10.35 hinn 15. maí.
Þar kom til mín út á skip rafstöðvarstjórinn þar, Jón Baldvinsson og í fylgd með honum Sigurður Bjarklind. Höfðu þeir ekkert fram að bera móti þessu en töldu kröfurnar rjéttmætar og skrifaði Jón Baldvinsson undir.

Til Akureyrar kl. 7.30 hinn 15. maí.
Þar hitti ég fyrst Samúel Kristbjarnarsonar og fór með honum heim í búð hans og símaði þaðan til Indriða Helgasonar og bauð hann mig hjartanlega velkominn. En þar sem Esja átti ekki að fara fyrr en kl. 11 daginn eftir var ákveðið að láta undirskriftir bíða til morguns.
Kl. 9.30 morguninn eftir voru allir rafvirkjar er skráð réttindi hafa á Akureyri mættir út á skip og skrifuðu þar nöfn sín. Síðan fylgdi Indriði Helgason og Samúel mér heim til (ólæsilegt) rafst.st. skrifaði hann einnig undir sem meðmæltur stuðningsmaður.

Til Siglufjarðar var komið kl. 4.20 e.m. hinn 16. maí.
Þá er lagst var þar að bryggju biðu þar þeir Jakob Jóhannesson, Jónas Magnússon og Ásgeir Bjarnason.
Fylgdi Ásgeir Bjarnason mér til veitingahúss þar, en Jakob og Jónas brugðu við að ná í þá aðra rafvirkja þar á staðnum og rafstöðvarstjórana. Að 15 mínútum liðnum voru allir þangað komnir er ætlað var og voru menn mjög einhuga og skrifuðu allir nöfn sín undir þar.
Rafvirkjar:
Ásgeir Bjarnason
Jónas Magnússon
Kristján Dýrfjörð
Jakob Jóhannesson
og stöðvarstjórar
Jón Kristjánsson
Sigurhjörtur Bergsson

Einangrunarmæli tók ég hjá Jónasi Magnússyni til viðgerðar hjá H.f. Rafmagn.

Til Sauðárkróks var komið kl. 10 að kveldi hinn 16. maí.
Þar var fyrst lagst við anker en strax létt aftur og farið að bryggju. Kom þar til mín Kristján Ingi Sveinsson. Sagði hann að Pétur Sighvatsson væri háttaður og líklega sofnaður, en gekk þá strax inn á það að fylgja mér heim til hans. Pétur Sighvatsson var háttaður en klæddi sig fljótlega og voru báðir alveg samþykkir og skrifuðu undir.

Til Blönduóss var komið kl. 10.10 f.m. hinn 17. maí.
Þar sem þar var skráður rafvirki sem ekki var þar á staðnum Páll Gíslason Vatnsdal. Þorði jég ekki annað en að fara í land til að reyna að hitta Óskar Sövik og ætlaði að taka til ef það tækist en rjétt um leið og jég steig upp á bryggjuna kom Óskar Sövik þar á hjóli. Var hann þessu meðmæltur enda þótt hann segðist ekki myndi vera þar á staðnum nema lítinn tíma ennþá. Skrifaði hann þó undir þar sem hann hefði þó réttindi til þess ennþá.

Til Hólmavíkur kl. 2 að nóttu hinn 18. maí.
Þar kom á skip út til mín Hjálmar Halldórsson rafstöðvarstjóri og rafvirki þess staðar. Var hann kröfum þessum er gerðar hafa verið samþ. og skrifaði nafn sitt.

Til Ísafjarðar kl. 5 hinn 18. maí.
Er komið var þar að bryggju beið þar Páll Einarsson ásamt þeim Jóni Albertssyni og Þórarni Helgasyni og fylgdu þeir upp í rafstöð til Þorleifs Þorsteinssonar voru allir á eitt sáttir og skrifuðu undir.

Til Flateyrar kl. 10.30 e.m. hinn 18. maí.
Þar var lagst að bryggju og mætti þar Halldór Ágúst Vigfússon rafvirki og rafstöðvarstjóri, þar var hann einnig meðmæltur og skrifaði undir.

Til Þingeyrar kl. 1.30 hinn 19. maí.
Þar var lagst að bryggju, kom þangað til mín út á skip Guðm. J. Sigurðsson. Fannst honum nauðsynlegt að mótmæla eins og gjört hafði verið en var hinsvegar vondaufur um að árangur fengist. Þó væri sjálfsagt að reyna betur og skrifaði hann undir.

Til Bíldudals var komið kl. 4.40 að nóttu hinn 19. maí.
Þar var lagst að bryggju eftir nokkra bið þar. Fór ég að spyrjast fyrir um Magnús Jónsson og fékk þá fregn að hann væri í Reykjavík.
Heimilisfang hans þar fékk ég upp hjá jómfrú 1. farrýmis þar sem hún hafði pakka er til hans var merktur.
Í Bíldudal frétti ég að sonur Magnúsar, Axel ætlaði að koma til móts við mig en úr því varð ekki.

Til Patreksfjarðar var komið kl. 8.50 f.m. hinn 19. maí.
Þar var lagst að bryggju. Þar kom út á skip til mín Helgi Einarsson rafvirki og stöðvarstjóri þess staðar. Taldi hann kröfur rafvirkja nauðsynlegar og sjálfsagðar og skrifaði nafn sitt undir.

Til Stykkishólms var komið kl. 6.30 e.m. hinn 19. maí.
Þar var lagst að bryggju. Þar hitti ég Harald Jónsson rafvirkja úr Reykjavík er þar er að vinna við spítalabygginguna og sagði hann mér að Lárus Rögnvaldsson væri í Reykjavík.
Fór ég heim til Lárusar og var þar sagt að hann myndi fara úr Reykjavík kl. 10 daginn eftir frá Bifr.st. Íslands.

Í Reykjavík kl. 10.30 hinn 20. maí.
Þegar komið var að uppfyllingunni hraðaði ég mér til Bifr.st. Íslands ef Lárus Rögnvaldsson væri ekki farinn.
Fékk ég þar frétt að hann hefði orðið fyrir að skemma bifreiðina og færi því áreiðanlega ekki fyrst um sinn. Hélt ég því heim. Fór ég síðar að hitta Magnús Jónsson frá Bíldudal á Sjafnargötu 4, gekk það greiðlega og skrifaði hann undir.
Síðan til Lárusar Rögnvaldssonar á Ásvallagötu 25. Hitti ég hann líka fljótt og skrifaði hann sömuleiðis undir.
Var þá hver einasti maður sem ætlað var að ná í búinn að skrifa nafn sitt til stuðnings kröfum rafvirkja og þar með fenginn sá styrkur sem frekast varð á kosið málinu til stuðnings.
Rétt er ég var að skilja við Lárus er var sá síðasti er skrifaði undir sá ég hvar Júlíus Björnsson fór framhjá í bíl. Kom hann auga á mig og steig út úr bílnum. Fór jég með honum á skrifstofu hans og afhenti honum skjalið með undirskriftunum og kosningarseðlunum og þá skýrslu að allir hefðu skrifað og þar með hinn besti árangur fengist. Var þar með starfi mínu í sambandi við sendiför þessa lokið kl. 1.30 20. maí.

TÍMARIT RAFVIRKJA

Vorið 1939 var samþykkt að gefa út tímarit. Kosnir voru í ritnefnd þeir Guðjón Guðmundsson, Jónas Ásgrímsson og Vilberg Guðmundsson. Þetta var stórhuga framkvæmd af ekki stærra félagi. Þrjú tölublöð komu út á árinu, það fyrsta í ágúst. Guðjón Guðmundsson var ritstjóri.

Í leiðara segir hann m.a.: ” Mörgum áhugamönnum innan rafvirkjastéttarinnar hefur fyrir löngu síðan verið það ljóst, hve mikil þörf væri á því að hún eignaðist sitt eigið blað eða tímarit.
Þessi nauðsyn hefur fyrst og fremst verið brýn vegna þess hve stéttin í heild hefur skilið hlutverk sitt, gagnvart sjálfri sér og þjóðfélaginu, illa. Í öðru lagi hefur hún verið brýn vegna þeirrar sérstöðu rafvirkjastéttarinnar fram yfir aðrar iðnstéttir: mikil bókleg eða fræðileg þekking.

Þetta tvennt: vöntun á fræðilegri þekkingu samfara verklegri reynslu eða öfugt og skilningsleysi eða öllu heldur athafnaleysi stéttarinnar í hlutverki sínu innan þjóðfélagsins, hefur valdið þjóðinni meiri skaða, en menn almennt hafa gert sér ljóst.

Flest raforkumál, eða einstakar framkvæmdir, stórar og smáar, hafa verið framkvæmdar á mjög sérdrægnislegan hátt, án samvinnu þeirra annarra aðila er rafvirkjastéttin samanstendur af, þ.e. rafmagnsverkfræðinganna, raffræðinganna, rafvirkjameistaranna og rafvirkjasveinanna. Þetta hefur gengið svo langt, að menn í hærri embættum innan stéttarinnar hafa beitt aðstöðu sinni til að ganga algerlega á snið við faglærða menn innan rafvirkjastéttarinnar tilheyrandi fagvinnu, heldur leitað utan stéttarinnar að mönnum til þessara starfa.
Þetta ásamt mörgu öðru, sem aflaga hefur farið, hefur skapað þá tortryggni og úlfúð innan stéttarinnar, sem ekki verður þolað lengur. Allir drenglyndir menn verða að leggjast á eitt um að vinna bug á því.

Í þessu landi fossanna, en sem á að verða land raforkuveranna, verður að skapa vel menntaða og samhuga rafvirkjastétt. Þarna er mikið verk að vinna. Stéttin er dreifð um byggðir landsins, þessvegna er henni nauðsynlegt að koma á þeim tengilið, sem tímarit getur orðið.

Rafvirkjafélag Reykjavíkur ákvað á síðasta aðalfundi sínum, að gangast fyrir útgáfu rafvirkja-tímarits, sem gæti komið út a.m.k. annan hvern mánuð til að byrja með.
Tímaritinu er ætlað að ræða hagsmunamál stéttarinnar frá sem flestum hliðum, flytja fræðandi greinar um raforkumál hér á landi og kynna helstu nýjungar raftækninnar á hverjum tíma.”

Tímaritið kom út eins og til var ætlast fyrsta árið. Blaðið var myndarlegt og flutti ýmsar fræðandi greinar um félags- og fagtæknileg mál. Ritstjórinn hvarf úr félaginu vegna starfa og útgáfan lagðist af. Árið eftir kom ekkert út en 1941 kom út eitt tölublað. Eftir þetta lagðist öll útgáfa af í mörg ár. Á fundi árið 1948 var ákveðið að reyna aftur. Óskari Hallgrímssyni var falin ritstjórn. Fyrsta blaðið kom út í mars árið 1949 og var ætlunin að reyna að koma blaðinu út þrisvar til fjórum sinnum á ári. Í desember gerðist FLRR aðili að útgáfunni. Þetta blað kom út um skeið en lagðist svo af.

GERÐARDÓMSLÖGIN

Á fyrstu árum stríðsins hækkaði vísitala mjög hratt og laun fylgdu, því þau voru vísitölutryggð. Þjóðstjórnin svonefnda, samstjórn Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokks, sem þá sat að völdum reyndi að gera ráðstafanir til þess að sporna gegn þessum víxlhækkunum launa og verðlags með lagasetningu. Seinni hluta árs 1941 hófust vinnudeilur milli nokkurra verkalýðsfélaga og vinnuveitenda þeirra. Í kjölfar þess gefur ríkisstjórnin út bráðabirgðalög í ársbyrjun 1942 um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Í lögunum kemur fram að allar breytingar á launum frá því sem gilti 1941 skuli leggja undir úrskurð gerðardóms. Þessi lagasetning varð til þess að Alþýðuflokkur sagði sig úr stjórninni.

Dómnum voru settar þær vinnureglur að grunnkaup skyldi ekki verða hærra en það var 1941. Ekki tókst með þessu að stöðva kauphækkanir eða framrás vísitölunnar og ákvæðum laganna var svo breytt mjög mikið 1942.

Þótt nokkrar lagfæringar fengjust á samningum eftir verkfallið árið 1941, voru ýmis veigamikil atriði í samningum, sem félagsmenn töldu nauðsynlegt að breyta, þ.á.m. sektarákvæðin, sem höfðu verið í samningum allt frá árinu 1927.

Á fundi þ. 26. september árið 1941 var því samþykkt að segja upp samningum frá 1. jan. 1942, en uppsagnarfrestur var, svo sem fyrr segir, 3 mánuðir. Á félagsfundi þ. 29 des. sama ár var lýst bréfi frá FLRR þar sem samningsuppsögnin var talin ólögleg og tilkynnt, að FLRR áskilji sér allan rétt í sambandi við uppsögnina.

Verður gangur þessa máls út af fyrir sig ekki rakinn hér, nema að því leyti sem hann tengist þeim atburðum sem hér er rætt um. Þó skal þess getið, að FLRR stefndi RVR fyrir ólöglega samningsuppsögn. En áður en dómur er gekk í því máli, gerðust aðrir hlutir sem urða örlagaríkir, ekki eingöngu fyrir rafvirkjastéttina, heldur verkalýðshreyfinguna í heild. Rafvirkjar hófu vinnustöðvun 1. jan. árið 1942 og auk þeirra hófu verkfall: prentarar, járniðnaðarmenn, skipasmiðir og bókbindarar. Höfðu þau félög samvinnu með sér um undirbúning og rekstur deilunnar. Varð nú ljóst, að einhver duld öfl byggju að baki hinni þvermóðskufullu afstöðu atvinnurekenda. Þann 8. jan. skýrðist hvað bak við bjó. Ríkisstjórnin gaf þann dag út bráðabirgðalög um gerðardóm í vinnudeilum. Með lögum þessum var verkalýðshreyfingin svipt þeim rétti sem hún átti lögum samkvæmt til þess að ákveða verðlag vinnu sinnar með frjálsum samningum.

Iðnsveinafélögin sem áttu í deilu, héldu með sér fund og mótmæltu gerðardóminum. Jafnframt var skorað á verkalýðsfélögin að sameinast um mótmælaaðgerðir til að hrinda kúgunartilgangi bráðabirgðalaganna. Þann 9. jan. var haldinn fundur í Rafvirkjafélaginu til þess að ræða hið nýja viðhorf sem skapast hafði við setningu gerðardómslaganna. Þar var ákveðið að tilkynna FLRR að félagið ætti ekki lengur í deilu við meistarafélagið og félagsmönnum því frjálst að hefja vinnu að nýju. Slíkt hið sama gerðu prentarar. Engir félagsmenn hófu þó vinnu hjá meisturum. Atvinnurekendur gerðu allt sem unnt var til þess að freista þess að kljúfa samstöðu iðnfélaganna, og tókst það að nokkru, er bókbindarar og járniðnaðarmenn ákváðu að semja og leggja samninginn fyrir hinn lögþvingaða gerðardóm. Með því höfðu þessi félög viðurkennt dóminn. Þóttu nú horfur á sigri í þessari deilu stórum versna.

Atvinnurekendur gerðu ítrekaðar tilraunir til þess að fá félagið til að undirrita svipaða samninga og járnsmiðir höfðu gert, þar sem slíkum samningi myndi verða tryggður byr í gegnum gerðardóminn. Þær tilraunir báru þó eigi annan árangur en að treysta samtök rafvirkja og skerpa andstöðuna gegn hinum lögþvingaða gerðardómi. Meðan á þessu gekk kvað Félagsdómur upp þann úrskurð að samningsuppsögn RVR væri ólögleg.

Eftir þessi málalok hertu rafvirkjameistarar róðurinn til muna fyrir nýjum samningum. Sendu þeir formann sinn á fund RVR með þau skilaboð, að nú gæti þó ekki verið neitt til fyrirstöðu að semja, þar sem dómur í Félagsdómi lægi fyrir!.

M.ö.o. þar sem ekki hafði tekist að kúga samtökin með hótunum um málsókn, stefnu eða væntanlegum dómsúrskurði hangandi yfir höfðinu, þá hlytu þau þó að bresta þegar dómurinn lægi fyrir!. En það sýndi sig hér, sem oft áður í sögu verkalýðshreyfingarinnar, að hótanir og málaferli atvinnurekenda, sett fram með það fyrir augum að veikja baráttuþrek verkalýðsfélaganna, verkuðu öfugt við þann tilgang sem slíku er ætlað að þjóna.

Samtök rafvirkja reyndust sterk og ekkert lát varð á baráttuviljanum. Þessi samheldni er fyrir það merkileg, að í félaginu voru nokkrir menn sem höfðu gerst meðeigendur í sameignarfyrirtækjum, sem þá voru nýlega stofnuð. Hafa meistararnir eflaust gert sér vonir um að fá einhverja áheyrn hjá þessum mönnum, öðrum frekar. Vonbrigðin hafa því orðið mikil, þegar einmitt þessir menn stóðu fast við hlið félaga sinna í RVR.

Þegar sýnt var að meistarafélaginu yrði ekkert ágengt, tók stjórn Vinnuveitendafélagsins öll forráð þeirra í sínar hendur. Var stjórn RVR boðuð til fundar hjá Vinnuveitendafélaginu og reynt enn á ný að fá félagið til að undirrita samninga á líkum grundvelli og járnsmiðir höfðu gert. Þegar enginn áhugi kom í ljós fyrir slíkri lausn, voru látin liggja orð að því, að unnt myndi vera að koma ýmsum frávikum frá samningi járnsmiða í gegn um gerðardóminn. En öll fyrirhöfn Vinnuveitendafélagsins kom fyrir ekki. Þann 15. febrúar var haldinn félagsfundur og skýrði stjórnin þar frá þeim viðtölum er fram höfðu farið.
Miklar umræður urða um málið, en að lokum voru þær tillögur sem hér fara á eftir samþykktar í einu hljóði:

1. Fundurinn samþykkir að fresta samningagerð um óákveðinn tíma.
2. Þar sem útilokað er með bráðabirgðalögunum að frjálsir samningar geti tekist um bætt kjör, en hins vegar brýn þörf fyrir aukinn vinnukraft í iðninni, skorar Rafvirkjafélagið á meðlimi sína að hefja vinnu fyrir það kaup sem best býðst.

Var síðari tillagan birt í útvarpi og blöðum, sem áskorun til félagsmanna um að hefja störf á ný. Þar með var þessari löngu og þýðingarmiklu deilu, – lengstu deilu er rafvirkjastéttin hefur háð til þessa – formlega lokið. Naumast er það þó sannleikanum samkvæmt. Réttara væri að segja að skipt hafi verið um baráttuaðferð.

Sú ákvörðun félagsins að vinna samningslaust, en hver og einn réði sig fyrir bestu kjör, var slungnari en ýmsum kann að virðast í fljótu bragði. Með þeirri ákvörðun var raunverulega stigið fyrsta jákvæða skrefið í baráttunni fyrir endurheimt samningsréttarins – afnámi hins lögþvingaða gerðardóms -, fyrsta skrefið í þeirri baráttu er síðar hlaut viðurnefnið “skæruhernaðurinn 1942”.

Prentarar viðurkenndu aldrei gerðardóminn, en framlengdu samninga óbreytta. Þegar líða tók á árið bættust stöðugt fleiri félög í þann hóp, er tók upp baráttu fyrir afnámi gerðardómsins. Sóknarþungi verkalýðshreyfingarinnar óx stöðugt, og um haustið hafði verkalýðurinn að fullu brotið af sér fjötra gerðardómslaganna.

Eftir að samningsfrelsið var endurheimt var farið að ræða um hvort gera ætti nýja samninga við FLRR. Af því varð þó ekki, en hins vegar var horfið að því ráði að setja taxta. Kom hann til framkvæmda á árinu 1943 og var þá ákveðinn 2.50 kr.í grunn á klst. Á það greiddist dýrtíðarvísitala að viðbættum 50%. Þessi háttur hélst næstu ár.
Taxtinn var framlengdur, en grunnkaup hækkað til samræmis við hækkanir hjá öðrum félögum.

5. KAFLI

RAFIÐNAÐARNEMAR

UPPHAF IÐNSKÓLANS

Á fyrri öldum lærðu menn til handverks á heimilum og verkkunnáttan gekk mann fram af manni. Hér á landi var ekki um margþætt handverk að ræða. Má þar nefna helst ullarvinnu og húsagerð. Ekki var um það að ræða að margir héldu utan til að læra handverk.

Svo virðist vera, að eini Íslendingurinn sem forframaðist erlendis á 17. öld hafi verið Gísli Magnússon (1621-1696), sýslumaður að Hlíðarenda í Fljótshlíð, oftast kallaður Vísi-Gísli. Hann fór til Kaupmannahafnar árið 1639 og stundaði háskólanám í 2 ár. Gísli fór síðan til Hollands, Englands og Frakklands þar sem hann lagði stund á náttúrufræði og “praktísk vísindi”. Fyrst eftir heimkomuna ferðaðist Gísli víða um landið og rannsakaði náttúru þess. Hann gerði tilraunir í jarðrækt og saltpétursvinnslu. Hann lagði mikið kapp á að gera brennistein að útflutningsvöru. Gísli skrifaði konungi bréf um viðreisn efnahagslífs og bætta stjórnarhætti árið 1647. Hann benti á að auka mætti gæði landsins með ræktun, fiskveiðum, fuglaveiðum og vinnslu jarðefna. Hann vildi byggja fátækrahús víðsvegar um landið og sjá þar fátæklingum og flökkurum fyrir kennslu í handmennt. Engu fékk Gísli áorkað nema hann fékk leyfi til brennisteins- og saltvinnslu.

Á seinni hluta síðustu aldar kom hagnýtishyggjan fram í Bandaríkjunum, helsti forkólfur stefnunnar var Willian James (1842-1910). Hann sagði m.a.: “Algildur sannleikur sem engin frekari reynsla fær haggað er aðeins fjarlægur draumur. Nú á tímum er eins og raunveruleikinn sé frumeindir eða rafeindir, en menn mega ekki taka það bókstaflega því áður en langt um líður getur þeim sannleika verið kollvarpað. Menn hafa skynsemi til að bera og beita henni sem tæki í lífsbaráttunni. Þessu tæki beita þeir til þess að laga sig að umhverfinu, gera náttúruna sér undirgefna, skapa ný verðmæti, hagnýt gildi.”

Bandaríkjamaðurinn John Dewey (1859-1952) var í þessum hópi. Hann gat sér einkum orð sem brautryðjandi í uppeldis- og kennslufræðum. Góður er batnandi maður og gildir einu um hversu illa hann hefur hagað sér áður. Snorri Sturluson sagði: “Drengir heita vaskir menn og batnandi”. Dewey vildi kenna piltum og stúlkum það sama, hvort heldur var verklegar eða bóklegar greinar. Virkja þyrfti nemendur með áþreifanlegum verkefnum, nám í verki. Skólinn átti að bera keim af rannsóknarstofu.

Í þessum hópi var einnig Þjóðverjinn Georg Kerschensteiner (1854-1932). Hann lagði grunninn að verknáminu, en víst þykir að Dewey hafði áhrif á hann. Georg taldi nauðsyn að leggja stóraukna rækt við handavinnu í skólum, slíkt nám hæfði betur þroska barna en glíman við óhlutstæð þekkingaratriði, það reyndist betur þegar út í lífið kæmi.

Íslendingar lögðu kapp á að efla svokallaða æðri menntun á 19. öld. Stofnaðir voru svonefndir embættismannaskólar, Prestaskólinn 1847, Læknaskólinn 1876 og Lagaskólinn 1908, þessir skólar mynduðu svo deildir í Háskóla Íslands árið 1911.

Almenn barnafræðsla var í miklum ólestri seinni hluta 19. aldar. Þá áttu allir að heita læsir um fermingu og flestir karlar voru þá skrifandi, en mjög algengt að konur lærðu ekkert. Hvert frumvarpið var flutt af öðru á Alþingi um aukna fræðslu barna en þau náðu ekki fram að ganga. Þessari tregðu olli einkum íhaldssemi bændaþingmanna. “Bókvitið verður ekki í askana látið” var vinsælt viðkvæði hjá þeim.
Árið 1901 var Guðmundi Finnbogasyni veittur tveggja ára styrkur til þess að kynna sér fræðslumál á Norðurlöndum. Árið 1907 voru svo samþykkt á Alþingi lög um fræðslu barna. Þar var skylt að hafa skóla fyrir 10-14 ára börn og farkennslu, þar sem heimangöngu var ekki við komið.

Á þessum árum voru stofnaðir sérskólar: Kvennaskólar, sá fyrsti í Reykjavík árið 1874, Búnaðarskólar, sá fyrsti í Ólafsdal í Dalasýslu, Stýrimannaskóli í Reykjavík árið 1891 og lög um Vélskóla voru sett 1915. Á þessum árum var Reykjavík að breytast í athafnabæ. Iðnfyrirtæki og iðngreinar spruttu upp. Algengt var að iðnaðarmenn sigldu til náms með styrk frá Alþingi og kæmu til baka með nýjar hugmyndir og nýja tækni. Árið 1890 lifðu 14,7% Reykvíkinga af iðnaði, en árið 1910 var þetta hlutfall komið í 25%.

Skipta má upphafi Iðnskólans í þrjú tímabil: Sunnudagaskóla, teikniskóla og síðan iðnskóla. Sunnudagaskólinn hófst í nóv. árið 1873 á vegum Iðnaðarmannafélagsins. Upphafsmaður var Sigfús Eymundsson ljósmyndari, og var hann í fyrstu skólanefndinni ásamt Árna Gíslasyni leturgrafara og Jónasi Helgasyni organista.

Skólinn var haldinn á sunnudögum, 3 tíma í senn. Aðallega var kenndur lestur, skrift og stærðfræði. Kennarar voru skólanefndarmenn sjálfir og fengu þeir engin laun fyrir. Einhver kostnaður var af skólahaldinu, borð og bekki þurfti auk bóka. Húsnæði fékkst ekki ókeypis fyrr en flutt var í Borgarasalinn í bæjarþinghúsinu haustið árið 1877. Iðnaðarmannafélagið hélt tombólur til þess að standa straum af kostnaði við skólahaldið, auk þess að það stóð fyrir almennum samskotum. Árið 1875 var ákveðið að koma upp bókasafni og lestrarfélagi í tengslum við skólann. Jókst félagslegt gildi skólans mikið við þetta. Skólinn var rekinn með þessu fyrirkomulagi til ársins 1883, þá féll kennsla niður vegna ónógrar þátttöku og áhugaleysis.

Það var lengi áhugamál Iðnaðarmannafélagsins að fá fullkomna löggjöf um iðnnám og iðnrekstur. Ráðamenn þjóðarinnar sáu þó ekki nauðsyn þess, en þann 16. desember árið 1893 voru loks samþykkt lög á Alþingi um iðnnám. Með þeim var stigið fyrsta skrefið til núverandi fyrirkomulags um iðnfræðslu. Fram að þessu hafði námstíminn verið samkomulagsatriði milli meistara og nema. Meistarinn lét nemann gera sveinsstykki í lok námstímans. En með tilkomu laganna var fyrst um formlegt sveinspróf að ræða. Framkvæmd laganna gekk með ýmsu móti. Það tíðkaðist t.d. sjaldnast, að iðnnemar gengju undir sveinspróf. Það var fyrst ellefu árum síðar, árið 1904 að gefin var út reglugerð og þá voru sveinsprófsnefndir skipaðar. Var þá algengast að meistari legði fram sveinsstykki nemans og vottorð tveggja valinkunnra manna úr sömu stétt um að neminn hefði lokið náminu. Þá var sótt um sveinsbréf hjá viðkomandi fógeta eða sýslumanni. Síðan sóttu iðnaðarmennirnir um borgarabréf og höfðu þá öðlast réttindi til þess að stunda iðnina, hafa með höndum eigin rekstur og standa fyrir vinnu.

Lögin um iðnfræðslu kröfðust skriflegra námssamninga, ef neminn var yngri en 18 ára. Námstíminn mátti aldrei verða lengri en 5 ár, að meðtöldum 3ja mánaða reynslutíma.

Í desember árið 1892 var skólamálið vakið upp og rætt um að koma á teiknikennslu. Iðnaðarmenn sem höfðu verið erlendis við framhaldsnám sáu gildi notkunar teikninga við öll iðnaðarstörf. Það var samþykkt að byrja aftur í upphafi árs 1893 og skyldi kenna á sunnudögum kl. 16.00-18.00. Kennslan var ókeypis fyrir félagsmenn Iðnaðarmannafélagsins, en kostaði 2.00 kr. fyrir aðra.

Næstu árin voru með svipuðu fyrirkomulagi, kennt var frá áramótum til aprílloka og aðeins var kennd flatar-, fríhendis- og húsateikning. En árið 1898 er byrjað að kenna 1. nóv., þann vetur voru nemendur 30 og kostnaður við skólann kr. 50.00. Haustið eftir var kennslan enn aukin og kennt í 6 tíma á hverjum sunnudegi. Árið 1900 var fyrirkomulaginu breytt, teikning var kennd í 2 tíma, en íslenska, reikningur og danska í 1 tíma á dag hver námsgrein. Einhver hluti kennslunnar var fluttur yfir á kvöldin. Færðist þá verulegt líf í skólann. Krafan um sæmilega undirstöðumenntun alþýðu fór vaxandi og lærlingarnir sjálfir tóku fegins hendi allri þeirri fræðslu sem þeim var boðin. Á fundi 13. nóv. árið 1901 var ákveðið á fundi í Iðnaðarmannafélaginu að gera skólann að kvöldskóla. Kostnaður félagsins af skólahaldinu var orðinn það mikill að ákveðið var að sækja um styrk til Alþingis. Því var vel tekið og veittur var styrkur að upphæð 1000 kr. á ári næstu tvö árin.

Í byrjun árs 1903 lauk Jón Þorláksson (1877-1935) verkfræðinámi við Kaupmannahafnarháskóla. Tók hann þegar að beita sér fyrir umbótum á iðnfræðslunni. Hann skrifaði Iðnaðarmannafélaginu bréf þar sem hann lýsti hugmyndum sínum hvernig reka mætti skólann. Í framhaldi af þessu skrifaði félagið Alþingi bréf og fór fram á 4500 kr. styrk og var bréf Jóns látið fylgja með umsókninni. Alþingi veitti 4000 kr. styrk, auk 1700 kr. námsstyrks handa iðnnemum utanlands. Á næsta þingi var styrkurinn hækkaður í 5000 kr. og á þinginu árið 1909 upp í 6000 kr. á ári. Haustið 1903 kom Jón á fund í Iðnaðarmannafélaginu og hélt ræðu um hvernig hann teldi að skólahaldið ætti að vera. Þar var samþykkt að kjósa 3 manna skólanefnd, auk þess átti að skipa skólastjóra. Landshöfðingi átti að útnefna teiknikennara. Þessir tveir menn áttu einnig að sitja í skólanefnd. Jón Þorláksson var skipaður fyrsti skólastjórinn í ársbyrjun 1904. Fastur teiknikennari var skipaður Þórarinn B. Þorláksson málari. Hann fór utan til þess að kynna sér hvernig þessu starfi væri háttað.

Haustið 1904 var kennt eftir hinu nýja fyrirkomulagi. Kennt var 2 tíma á kvöldi 6 daga vikunnar. Námsgreinar voru flatar-, fríhendis- og rúmteikning í 1. og 2. bekk, en iðnteikning í 3. bekk, íslenska og stærðfræði í öllum bekkjum og danska í 2. og 3. bekk. Kennarar voru Jón Þorláksson og Þórarinn B. Þorláksson í teikningu, Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur í íslensku, dr. Ólafur Daníelsson í stærðfræði og Þorsteinn Erlingsson skáld í dönsku. Nemendur voru 82 og skólagjald 5 kr. fyrir veturinn. Næsta vetur var 4. bekk bætt við.

Vinnutími var almennt 12 tímar á dag, nemendur unnu til kl. 19.00 og byrjuðu að vinna 6 að morgni. Síðan mættu þeir kl. 20.00 í skólann. Á fundi í Iðnaðarmannafélaginu 6. okt. árið 1904 flutti Jón Þorláksson erindi þar sem hann lagði til að vinnutíminn yrði færður niður í 10 tíma á dag og 8 tíma hjá lærlingum meðan þeir væru í skólanum. Þessu máli var vel tekið og voru flestir iðnmeistarar búnir að koma þessu vinnufyrirkomulagi á næsta vetur.

Fyrsta ár skólans var kennt í Vinaminni í Mjóstræti í tveimur stofum, auk þess voru 2 lítil herbergi til afnota. Næsta ár varð að bæta við Borgarasalnum svonefnda í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Í desember árið 1904 var ákveðið að hefja byggingu skólahúss. Samþykkt var að að kaupa lóð við Tjörnina við hliðina á Iðnaðarmannahúsinu (Iðnó) af Búnaðarfélaginu fyrir 3000 kr. Nýja skólahúsið var tilbúið haustið 1906 og má þá segja að skólanum hafi verið skipaður sá sess sem hann hefur haldið síðan.

Á Akureyri var stofnaður iðnskóli árið 1905, og síðar spruttu upp iðnskólar víða um landið, flestir mjög smáir í sniðum. Fræðslulögin voru samþykkt árið 1907. Þessi lög þóttu fljótlega ekki nægilega góð, en það var ekki fyrr en 25. mars árið 1927 sem lög um iðnaðarnám voru samþykkt á Alþingi. Þann 12. apríl árið 1927 voru samþykkt á Alþingi lög um iðju og iðnað. Þar var kveðið á um skilyrði þess að fá meistararéttindi. Samkvæmt þeim varð meistari að hafa sveinsbréf í iðn sinni og hafa unnið í 3 ár hjá meistara hið skemmsta að loknu iðnnámi. Meistarar höfðu einkarétt á að taka nema. Einkaréttur iðnaðarmanna til starfs í iðngrein sinni var lögfestur árið 1936.

Með iðnfræðslulögunum árið 1927 varð iðnskólanámið að skilyrði fyrir sveinsprófi. Þá jókst nemendafjöldi úr u.þ.b. 100 í 200-300. Lögin kváðu mun skýrara á um rétt og skyldur iðnaðarmanna og urðu til þess að ýta undir stofnun ýmissa sérfélaga, svo sem Rafmagnsvirkjafélags Reykjavíkur og Málarasveinafélags Reykjavíkur.

Fyrir forgöngu Iðnaðarmannafélagsins var árið 1928 stofnað Iðnráð. Stofnun þess stóð í beinu sambandi við iðnaðarlöggjöfina árið 1927. Iðnráð var skipað þannig, að í því átti sæti einn fulltrúi fyrir hverja iðngrein, kosinn af stéttarfélagi sínu. Hallgrímur Bachmann var kosinn fulltrúi Rafvirkjafélags Reykjavíkur.
Helstu verkefni Iðnráðs voru:

1. Að líta eftir því að reglugerð um iðnaðarnám sé framkvæmd og haldin.
2. Að líta eftir því að lögum um iðnaðarnám sé framfylgt á sem haganlegastan hátt fyrir iðnað almennt.
3. Að fylgjast með og hafa afskipti af framkvæmd iðnlöggjafarinnar frá 31. maí 1927.
4. Að vera iðnaðarmönnum og félögum iðnaðarmanna til ráða og aðstoðar í ágreinings- og vandamálum þeirra.

Við breyttar þjóðfélagsaðstæður varð heimilisfræðslan sífellt ótraustari og úrtöluraddir um það bruðl og óhóf að koma á barnaskólum ómarkvissari. Árið 1936 var svo skólaskylda frá 7 ára aldri ákveðin. Öll áhersla var lögð á að auðvelda unglingum aðgang að framhaldsnámi og þá yfirleitt menntaskólanámi. Með nýju fræðslulögunum árið 1946 átti að gera verkmenntun hærra undir höfði. Í framkvæmd varð þó bóknámið ofan á. Í stríðslok voru nemendur Iðnskólans í Reykjavík um 1000, en þeim fækkaði í um 600 fáum árum síðar. Árið 1950 samþykkti Alþingi lög um stofnun iðnfræðsluráðs, sem var í fyrstu ætlað að hafa umsjón með því að iðnnemar hlytu nægilega góða verklega þjálfun á vinnustað. Félög iðnmeistara tilnefndu 2 meðlimi ráðsins, sveinafélögin 2, en menntamálaráðuneytið formann. Ráðið fékk heimild til þess að tilnefna iðnfulltrúa um land allt til þess að fara með eftirlitshlutverkið. Ríkisvaldið skipti sér lítið af iðnfræðslunni fyrri hluta aldarinnar. Rekstur iðnskólanna var að mestu leyti í höndum iðnaðarmanna sjálfra eða til 1955, þegar samþykkt var að ríki og sveitarfélög skyldu skipta kostnaðinum með sér. Þá varð Iðnskólinn í Reykjavík dagskóli.

EIRÍKUR KARL EIRÍKSSON

Eiríkur var fæddur 10. mars 1906 á Stokkseyri. Foreldrar hans voru Eiríkur Eiríksson bakari, f. 17. júní 1881 á Djúpavogi og Margrét Jónsdóttir f. 13. okt. 1882 í Reykjavík. Karl starfaði við rafvirkjun frá fermingu. Hann vann við uppsetningu og tengingu dílsilrafals á Stokkseyri fyrir Kaupfélagið 1920. Karl er líklega fyrsti íslenskmenntaði rafvirkinn, hann útskrifaðist frá Iðnskólanum í Reykjavík 30. apríl 1928 sem raflagningarnemi með hæstu meðaleinkunn í skólanum 5.7, hæst var gefið 6. Hann vann hjá Ormsson bræðrum lengst af sinn starfsferil. Hann var í stjórnum og mörgum nefnda Rafvirkjafélags Reykjavíkur. Hann var einnig í sveinsprófsnefnd rafvélavirkja um langt árabil. Kona hans var Ingibjörg Adolfsdóttir f. 21. júní 1928 í Þýskalandi. Þau áttu einn son, Friðrik bifvélav. f. 27. ágúst 1959. Eiríkur lést 1. desember 1989.

FYRSTU KRÖFUR RAFVIRKJANEMA

Á fundi í RVR þann 6. febrúar árið 1931 skýrði Hallgrímur Bachmann frá deilu sem komið hafði upp í Iðnráði. Í 8. gr. iðnlaganna stendur: Vinnutími lærlinga má ekki fara framúr 60 stundum á viku, þar með taldir 6 tímar til bóklegs náms.

Á iðnráðsfundinum höfðu þrætur orðið um hvort lærlingum skyldi greiða kaup fyrir 60 stundir eða aðeins 54 stundir. Fundarmenn voru sammála skilningi formanns á þessu. Hallgrímur Bachmann tók einnig fram, að í lögunum stæði, að meistari ætti að greiða allan kostnað af kennslunni í Iðnskólanum. Þetta sagðist hann skilja á þann veg að meistaranum bæri að skaffa nemendum öll þau áhöld og bækur er nauðsynlegt væri við kennsluna, einnig hér varð hann í minnihluta. Meirihluti hélt því fram, að hér væri einungis átt við skólagjaldið. Samþykkt var ályktun um að skora á Iðnráð að leggja þessi deilumál fyrir iðnfélögin í bænum.

Á fundi á Hótel Borg 20. apríl árið 1932 var samþykkt að kjósa 2 lærlinga og einn svein í nefnd til þess að athuga kjör lærlinga. Kosnir voru Eiríkur Karl Eiríksson, Aðalsteinn Tryggvason og Daníel Sigurbjörnsson.

Einnig kom fram tillaga frá meisturum um að leggja ákvæðisvinnutaxtann niður og lækka skipakaupið. Á næsta fundi, 26. maí 1932 á Hótel Borg, var iðnsambandsskírteinum frá Iðnsambandi dreift gegn 1.50 kr. gjaldi. Á þeim fundi var gerð grein fyrir nýjum kjarasamningi. Þar var ákvæðisvinnutaxti felldur niður og meistarar skuldbundu sig til að taka enga nema á samningstímanum.

Á fundinum skilaði nefnd, sem unnið hafði að könnun á kjörum nema, skýrslu. Geysilegur munur var á kjörum þeirra:

Nemar á 1. ári frá kr. 70.00 og allt að kr. 200.00 á mán.
” 2. ” kr. 100.00 ” kr. 240.00 “
” 3. ” kr. 125.00 ” kr. 250.00 “
” 4. ” kr. 150.00 ” kr. 275.00 “

Einnig kom í ljós að nemar höfðu enga uppbót í skipavinnu og þorrinn fékk enga uppbót vegna yfirvinnu, þrátt fyrir ákvæði iðnlöggjafarinnar um leyfilegan vinnutímafjölda nema.
Á fundinum voru lagðar fram eftirfarandi tillögur um innihald nemasamnings:

1. Mánaðarkaup lærlinga í rafiðnaði skal vera á 1. ári kr. 100.00 á mánuði, á 2. ári kr. 130.00, á 3. ári kr. 170.00 og á 4. ári kr. 220.00 á mánuði.

2. Eftirvinna lærlinga skal borgast með kr. 1.00 pr. klst. á 1. ári, kr. 1,25 á 2. ári, kr. 1,50 á 3. ári og kr. 1,75 á 4. ári.

3. Næturvinna borgist með kr. 0,50 á tíma á eftirvinnukaup.

4. Í skipavinnu greiðist lærlingum uppbót sem nemur: á 1. ári kr. 0.15 á klst., á 2. ári kr. 0,20, á 3. ári kr. 0,25 og á 4. ári kr. 0,30. Eftirvinnuuppbót með 25% hækkun. Næturvinnuuppbót með 50% hækkun.

5. Hafi lærlingur reiðhjól við vinnu skal greiða honum kr. 7.00 í leigu á mánuði eða greiða allan kostnað af viðgerðum.

Fram kom, að talið væri að erfitt væri að ganga gegn gerðum samningum, en rétt væri að ganga eftir því að bæta kjör nema. Kosin var nefnd til þess að vinna að framgangi þessa máls, 2 sveinar og 2 lærlingar: Eiríkur Karl Eiríksson, Jóhannes Kristjánsson, Aðalsteinn Tryggvason og Þórður Finnbogason.

Á fundi á Hótel Borg 18. janúar árið 1933 vakti Júlíus Steingrímsson máls á því fyrir hönd nema í félaginu, að þeir vildu stofna sérdeild innan félagsins. Þessi deild átti að hafa skipulagslegt sjálfstæði, halda sjálfstæða fundi og móta stefnu í málum er vörðuðu nema. Tekið var undir þetta á fundinum, en menn vildu láta undirbúa málið betur. Einn lagðist þó gegn þessu, hann áleit að vegna þess hve mikið hefði áunnist með fækkun nema undanfarið, þá yrði þessi félagsskapur eftir nokkur ár hlægilegur vegna fámennis nemenda. Það mætti auðveldlega skipa nefnd nemenda á fundum til þess að fjalla um þeirra mál.

Á fundi 5. apríl árið 1933 á Hótel Borg reis mikil deila um nematakmörkun. Meistarafélagið hafði sent félaginu beiðni um að 14. gr. samningsins um að rafvirkjameistarar skuldbindi sig til að taka enga nemendur á þessu samningsári, yrði annaðhvort felld úr gildi eða breytt. Stjórnir beggja félaganna höfðu komið saman og orðið ásáttar um að mæla með eftirfarandi tillögu:

Meistari með 0 sveinn 1 lærlingur
” 1 ” 1 “
” 2 ” 2 “
” 3 ” 2 “
” 4 ” 3 “
” 5 ” 3 “
” 6 ” 4 “

Þetta var bundið því að þessi sveinatala væri minnst 6 mánuði á ári.

Það kom fram í máli formanns, að meistarar myndu segja upp kjarasamningnum um næstu áramót ef þetta samkomulag yrði ekki gert. Um þetta spunnust miklar umræður. Sumir töldu að með þessu væri gengið alltof langt og vildu halda óbreyttu ástandi, aðrir voru þessu sammála. Formaður tók það fram, að nemar hefðu ekki atkvæðisrétt í þessu máli. Nemar sem voru á fundinum mótmæltu þessu harðlega. Varð nú svo mikil ókyrrð á fundinum að formaður sleit honum.

Á næsta fundi var lesinn upp úrskurður Iðnsambandsins um að lærlingar megi engan atkvæðisrétt hafa um samninga á fundum sveinafélaga. Stjórnin fór fram á að mega semja á grundvelli tillagna frá síðasta fundi. Þá kom fram tillaga um að heimila einn lærling pr. meistara. Hún var felld með jöfnum atkvæðum. Sömu leið fór tillaga stjórnarinnar. Þá kom fram að meistarar myndu, samkvæmt 17 gr. samningsins, vísa 14. gr. í gerð. Á þessum fundi kom fram að meistarar fara fram á að gerður verði samningur um ákvæðisvinnu. Það var samþykkt að kjósa 3 manna nefnd til þess að semja um málið. Á fundi í janúar árið 1934 kom fram að meistarar væru farnir að taka lærlinga þvert ofan í gerða samninga. Á fundinum var samþykkt að breyta ekki fyrri fundarsamþykktum um nematakmörkun.

STOFNUN IÐNNEMASAMTAKA

Á fyrstu árunum eftir aldamótin var mikil vakning meðal launamanna hér á landi og hvert stéttarfélagið á fætur öðru var stofnað, eins og áður hefur komið fram. Þá var stofnað fyrsta iðnnemafélagið, það voru iðnnemar í skógerð sem stofnuðu með sér “Iðnnemafélagið Lukkuvon”. Eftir því sem best er vitað þá var þetta félag ekki langlíft.

Iðnnemafélagið Þráinn var stofnað árið 1905. Allmargir iðnnemar stóðu að stofnun þess, þar á meðal voru Pétur G. Guðmundsson bókbindaranemi, sem síðar var meðal stofnenda Dagsbrúnar og Bókbindarafélags Íslands 1906. Pétur var faðir Þorsteins sem var starfsmaður fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna og þá um leið fyrsti starfsmaður FÍR. Sonur Þorsteins var Ólafur, sem varð formaður Félags nema í rafiðnum og stjórnarmaður í Iðnnemasambandinu. Ólafur varð svo formaður í Félagi útvarpsvirkja og varaformaður Rafiðnaðarsambands Íslands árið 1972.

Annar af stofnendum Iðnnemafélagsins Þráins var Guðmundur járnsmíðanemi, faðir Hermanns, sem var formaður Hlífar í Hafnarfirði um árabil og forseti ASÍ árin 1946-1948.

Hið næsta sem vitað er um samtök iðnnema er að árið 1927 var stofnað Félag prentnema og 1929 Iðnnemafélag á Ísafirði. Þessi félög liðu bæði út af eftir nokkur ár. Eina iðnnemafélagið sem stofnað var á þessum tíma og hefur starfað óslitið síðan er Félag járniðnaðarnema, það var stofnað árið 1927.

Árið 1940 voru samþykkt á Alþingi lög, að tilstuðlan Thor Thors þingmanns Snæfellinga, gegn harðri andstöðu verkalýðshreyfingarinnar, þess efnis að iðnnemum skyldi meinaður aðgangur að sveinafélögunum. Með þessu hófst mikil vakning hjá iðnnemum og nokkur félög voru stofnuð, t.d. Félag rafvirkjanema og Félag bifvélavirkjanema. Fljótlega fór að bera á umræðu um stofnun heildarsamtaka, en sú umræða var drepin í dróma með ofstækisfullri andstöðu meistarafélaga og annarra hagsmunaaðila.

Mikil munur var á kjörum iðnnema og félögum iðnnemafélaganna, það var ljóst að ekki væri hægt að bæta úr því nema með stofnun heildarsamtaka. Árið 1944 mynduðu þau iðnnemafélög sem þá voru með einhverja starfsemi, undirbúningsnefnd að stofnun heildarsamtaka: Félag rafvirkjanema, Félag járnsmíðanema, Prentnemafélagið, Félag pípulagninganema og síðan bættist við Félag bifvélavirkjanema. Jón Sigurðsson þáverandi framkvæmdastjóri ASÍ, var nefndinni mikil hjálparhella. Þann 23. september árið 1944 var stofnþing haldið í Góðtemplarahúsinu. Í fyrstu stjórn samtakanna voru kosnir: Óskar Hallgrímsson formaður, Sigurður Guðgeirsson varaformaður, Egill Hjörvar ritari, Kristján Guðjónsson meðstjórnandi, Baldvin Halldórsson 1. varam., Ingimar Sigurðsson 2. varam., Ámundi Jóhannsson 3. varam., og Haukur Morthens 4. varam.

Í fyrstu var barist fyrir því að fá hækkaða grunnkaupsprósentuna. Kaup iðnnema var ákvarðað sem ákveðið hlutfall af grunnkaupi iðnsveina. Þessi ákvörðun var í höndum iðnfræðsluráðs allt fram til ársins 1966. Árin 1952, 1956 og 1962 tókst að ná fram hækkunum. Með breyttum iðnfræðslulögum árið 1966 breyttist kjarabarátta iðnnema og settar voru fram kröfur um:

1. Hækkun hlutfalls úr 30% í 45% og 10% hækkun milli ára.
2. Iðnnemar fái sama kaup fyrir yfirvinnu og sveinar.
3. Iðnnemar fái aðild að sjúkra- og lífeyrissjóðum.

Leitað var til sveinafélaganna, því iðnnemar höfðu ekki fengið viðurkenningu á samningsrétti sínum og höfðu ekki verkfallsrétt. Á þessum árum var mikil atvinna og mikið um yfirborganir hjá iðnnemum. Þetta gerði þá áhugalitla í kjarabaraáttunni.

Það var ekki fyrr en árið 1970 sem gerður var fyrsti samningur um kaup og kjör iðnnema. Það var svo árið 1972 sem iðnnemar fengu í fyrsta skipti að vera viðstaddir samningagerð. Þá var samið um að nemar sem hefji nám yngri en 17 ára skuli á 1. ári hafa 35% af 1. árs launum sveina og fá 40% á 2. ári. Þeir sem hefja nám 17 ára eða eldri skuli á fyrsta ári fá 40% og 45% á 2. ári, 55% á 3. ári og 60% á 4. ári. Fyrir alla aukavinnu skyldi kaupið hjá 1. og 2. árs nemum vera samkvæmt taxta aðstoðarmanna hjá Dagsbrún, en á 3. og 4. ári samkvæmt taxta 1. árs sveins.
Í samningunum árið 1976 varð kaup iðnnema: 1. árs nemi 50%, 2. árs nemi 55%, 3. árs nemi 60% og 4. árs nemi 65%. Í þessum samningum var samið um að kaup skyldi miðast við unninn tíma í stað fasts mánaðarkaups eins og tíðkaðst hafði. Einnig var samið um kaup nema á meðan þeir voru í iðnskólanum.

Eitt af aðalbaráttumálunum í upphafi samtakanna var að fá dagskóla í stað kvöldskólanna. 1945 var hafin tilraun með dagskóla. Hún gafst ákaflega vel, en það var ekki fyrr en 1950 sem lög gerðu ráð fyrir dagskóla. Ríkisvaldið hafði ekki skipt sér af iðnfræðslunni og látið iðnaðarmennina sjá um skólahaldið til þessa. Árið 1955 varð breyting á þessu. Samþykkt voru lög um að ríki og sveitarfélög skiptu með sér kostnaðinum við rekstur iðnskólanna. Iðnskólinn í Reykjavík var þá gerður að dagskóla. Smám saman fóru kvöldskólarnir að týna tölunni og um árið 1970 voru síðustu kvöldskólarnir að hætta. Einnig bar mikið á umræðu um að hagsmunir meistarans réðu of miklu um hvað iðnneminn var látinn læra. Oft væri það svo, að iðnneminn stæði við sveinspróf með mjög takmarkaða sérþekkingu í sinni starfsgrein. Frægur er viku vinnuseðill lærlings frá árinu 1955, þar stóð: “Unnið við að skafa skít og leita að Hr. Hansen, 48 tímar.” Á þessu varð breyting árið 1967 þegar samþykkt voru lög sem heimiluðu verknámsskóla. Iðnskólinn í Reykjavík opnaði fljótlega verknámsdeildir og árið 1974 var Fjölbrautarskólinn í Breiðholti stofnaður og fleiri verknámsdeildir opnaðar. Á þessum árum var áfanganám tekið upp. Það hefur síðan þá haft mikil áhrif á skipulag náms iðnaðarmanna.

Iðnnemasamtökin tóku þátt í því með sveinafélögunum, að berjast gegn því að ófaglærðir “fúskarar” fengju að starfa í löggiltum störfum iðngreinanna. Árið 1950 var mikil barátta fyrir þessu og því beint til iðnfræðsluráðs að það hætti að veita ófaglærðum sveins- eða meistarabréf.

Árið 1966 fékk Iðnnemasambandið fulltrúa í iðnfræðsluráði og gat þar með farið að hafa bein afskipti af fræðslumálum. Árið 1972 var iðnfræðslulögum breytt á þann veg að iðnnemasamtökunum var tryggður fastur fjárhagsgrundvöllur með því að meistarar voru látnir greiða staðfestingargjald, 1% af árslaunum nema við rafvirkjun, en neminn 1/2% af sömu viðmiðun, sem skyldi renna til Iðnnemasambandsins. Árið 1974 keyptu svo Iðnnemasamtökin kjallaraíbúð að Njálsgötu 59 og tveimur árum síðar var keypt hæð að Skólavörðustíg 19. Fljótlega var ráðinn fastur starfsmaður til sambandsins og komst á yfir starfsemina.

6. KAFLI

FÉLAG ÍSLENSKRA RAFVIRKJA

Það var öflug starfsemi innan R.V.R. á árunum 1937-1941. Margir félagsfundir voru haldnir og árshátíðir reglulega. Á félagsfundum sem haldnir voru á árinu 1942, var mikið rætt um að breyta skipulagi og starfsháttum R.V.R. Miklar breytingar urðu á atvinnuháttum þessarar stéttar, sem og annarra, á þessu tímabili. Ýmsir þeirra er höfðu verið leiðtogar félagsins í hagsmunabaráttunni og í gerðardómsdeilunni, höfðu ýmist gerst atvinnurekendur eða þá meðeigendur í atvinnufyrirtækjum. Hafði þessi þróun miður hollar afleiðingar í för með sér fyrir félagsheildina. Fram að þessu hafði félagið eingöngu verið sveinafélag með starfssvæði í Reykjavík, nemendur voru að vísu teknir inn sem aukafélagar. En nú komu fram raddir um breytingar í þessu efni. Aðallega virtust þó tvö sjónarmið hafa verið uppi. Annars vegar að meistarar gætu verið í félaginu og þá yrði eitt félagi í iðninni, hins vegar að félagið yrði áfram eingöngu launþegafélag, en starfssvæði þess yrði allt landið. Þeir sem fylgdu síðarnefndu hugmyndinni deildu nokkuð um hvort leggja bæri Rafvirkjafélag Reykjavíkur niður og stofna nýtt félag, eða eingöngu að gera breytingu á lögum félagsins í þessa átt. Þeir sem fyrrnefndu skoðuninni fylgdu, bentu á að með þeim hætti opnaðist möguleiki á að ná meisturunum út úr Vinnuveitendafélaginu, en meistarafélagið hafði oft notað VÍ sem skálkaskjól. Hinir bentu hins vegar á þá hættu sem því væri samfara að mynda félag með meisturum, lögðu áherslu á þann styrk sem hlytist af því að rafvirkjasveinar af öllu landinu sameinuðust í eitt félag. Eins og kom fram í kaflanum um ASÍ, gekk R.V.R. í ASÍ á árinu 1942. Inngangan í ASÍ gefur til kynna hvert stefndi. Sumir félagsmanna töldu það vera fyrir neðan virðingu félagsins að sækja um inngöngu þegar litið var til niðurlægjandi meðferðar ASÍ manna á fyrri umsókn R.V.R. Aðrir voru þeirrar skoðunar að það væri félagsleg skylda rafvirkja að sameinast með öðrum í að gera ASÍ að heildarsamtökum allra launamanna í landinu. Viðbrögð ASÍ forystunnar voru nú með þeim hætti, að inngangan var strax tekin fyrir og samþykkt.

Á aðalfundi árið 1943 var lagt fram frumvarp að nýjum lögum fyrir félagið. Var þar gert ráð fyrir að félagið yrði einungis launþegasamtök, starfsvæði þess fært út og yrði allt landið. Á framhaldsaðalfundi sama ár var þetta lagafrumvarp samþykkt og nafni félagsins breytt í Félag íslenskra rafvirkja. Á þessum fundi var sjúkra- og ellitryggingasjóður félagsins stofnaður, hverjum félagsmanni var gert skylt að greiða 2 krónur á viku í þessa sjóði, einnig átti hluti af tekjum félagsins að renna í sjóðina.

Í nýju lögunum sagði m.a.:

“Félagið heitir Félag íslenskra rafvirkja, skammstafað F.Í.R. Stjórnin hefur aðsetur í Reykjavík, en starfssvið félagsins er allt landið”.

“Tilgangur félagsins er að ákveða kaup og kjör meðlima sinna og vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna. Vinna að auknu samstarfi rafvirkja um land allt og auka framfarir í iðninni”.

Á þessum árum hafði Rafmagnseftirlitið sett fram þá kröfu, að rafvirkjar gengjust undir próf ef þeir ætluðu að gerast meistarar. Þessar kröfur voru ekki gerðar til annarra iðnaðarmanna. Þetta varð tilefni mikilla deilna sem að sumu leyti má segja að standi enn þann dag í dag. Á félagsfundi í desember 1941 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

“Með tilvísun til hinnar tilefnislausu réttinda- og atvinnuskerðingar, sem rafvirkjar hafa orðið fyrir vegna reglugerðar Rafmagnseftirlits ríkisins, sem og annarrar rangsleitni, sem rafvirkastétt landsins hefur verið beitt í skjóli hennar, samþykkir fundurinn að gera nú þegar ráðstafnir til verndar réttmætum réttindum rafvirkjastéttarinnar og kjósa í því augnamiði 3ja manna nefnd til að undirbúa málið og leggja það fyrir fund R.V.R. sem haldinn sé innan hálfs mánaðar hér frá”.

Í nefndina voru kosnir Ríkarður Sigmundsson, Haraldur Eggertsson og Jónas Ásgrímsson. Nefndin fór m.a. á fund dómsmálaráðherra. Þann 8. ágúst ritaði dómsmálaráðuneytið bréf til félagsins þar sem fallið var frá prófinu.

RAFVIRKJAFÉLAG AKUREYRAR

Föstudaginn 16. júlí 1937 var stofnfundur Rafvirkjafélags Akureyrar settur og haldinn á heimili Lúthers Jóhannssonar, Eiðsvallagötu 1 á Akureyri. Fundarstjóri var Lúther Jóhannsson og ritari var Gústaf Jónasson. Það sem gjörðist á fundinum var þetta:

1. Lesið uppkast að félagslögum og þau samþykkt með smá athugasemd.
2. Lesin upp síðasta fundargjörð og samþykkt.
3. Gengið til stjórnarkosningar. Í stjórn voru þessir menn kosnir:
Formaður: Lúther Jóhannsson með 4 atkvæðum
Ritari: Gústaf Jónasson með 6 atkvæðum
Gjaldkeri: Sigurður Helgason með 5 atkvæðum
Endurskoðendur voru kosnir Viktor Kristjánsson með 5 atkvæðum og Kristján Arnljótsson með 4 atkvæðum
4. Samþykkt var að láta fjölrita 25 eintök af félagslögunum.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum. Fundi slitið.
Lúther Jóhannsson formaður – Gústaf Jónasson ritari.

Þetta var fyrsta fundargerð RFA. Félagið starfaði fram yfir stríð, en þá lagðist starfsemin að mestu niður og lá niðri um nokkurt skeið. Helsta verkefni félagsins var kjarasamningar við rafverktaka. Nokkrar tilraunir voru gerðar til þess að koma á annarri félagslegri starfsemi, m.a. var Gústaf Jónassyni falið að koma á gleðinefnd sem annast skyldi undirbúning skemmtanahalds. Í fundargerðum kemur einnig fram að mikið var rætt um það á fyrstu árum félagsins að koma upp félagsheimili. Ekki varð úr framkvæmdum.

Upp úr 1949 hefst starfsemi félagsins aftur og er kröftug. Á þessum árum var farið að ræða sameiningu við FÍR og fór Óskar Hallgrímsson norður til viðræðna við RFA-menn. Þessum viðræðum var vel tekið, og samþykkt að ganga til samstarfsins. En það var ekki fyrr en í apríl 1954 sem samþykkt var, að félagið gengi í FÍR sem deild. Í fundargerðarbókum kemur fram að starfið hafi verið gott meðan félagið starfaði innan FÍR. Það er svo 1970 við stofnun RSÍ, að félagið tekur að starfa sem sjálfstætt félag innan sambandsins.

NÝIR SAMNINGAR

Í ársbyrjun 1946 var félagið fyrst að byrja að gróa sára sinna, en það missti helstu leiðtoga sína á árunum eftir gerðardómsdeilurnar. Á aðalfundi í febrúar gengu margir nýir félagar inn og var mikill áhugi á að reisa að nýju til vegs og virðingar hið forna vígi rafvirkjastéttarinnar, en því þótti hafa hrakað félagslega. Á þessum fundi var ákveðið að leita að nýju eftir samningum við FLRR og nýkjörinni stjórn falið að hafa samninga með höndum. Hér var þó að ýmsu leyti við ramman reip að draga. Atvinnurekendur töldu sér hagkvæmt að hafa “taxta” sem eingöngu ákvað fjárhæð kaupsins, um önnur félagsleg réttindi var vart að ræða. Við þetta bættist svo, að félagslegur samhugur stéttarinnar hafði beðið mikinn hnekki, margir stóðu utan félagsins af þeim sem þar áttu að vera.

15. apríl árið 1946 var gerður kjarasamningur á ný við FLRR. Lauk þar fjögurra ára tímabili er félagið hafði verið samningslaust m.a. vegna þátttöku sinnar í baráttunni fyrir afnámi hins lögþvingaða gerðardóms. Með þessum samningi náðust fram ýmsar þýðingarmiklar kjarabætur. Lágmarkskaup var 3.55 kr. og hækkaði um 10% frá síðasta samningi. Dagvinna styttist í 9 tíma 5 daga vikunnar og í 4 tíma á laugardögum. Ákveðinn var skýlaus forgangsréttur félagsmanna til vinnu. Í slysa- og sjúkdómstilfellum, sem orsakaðist af vinnunni, greiddist kaup í allt að 4 vikur, í hverju tilfelli. Uppsagnarfrestur einstaklings var ákveðinn einn mánuður. Samningur þessi var gerður til eins árs og uppsagnarfrestur var einn mánuður.

4. mars árið 1947 var gerður samningur við FLRR. FÍR hafði boðað til vinnustöðvunar en til hennar kom ekki því samningar tókust á síðustu stundu. Með þessum samningum voru gerðar meiri breytingar á kjörum rafvirkja en dæmi eru um áður. Helstu nýmæli voru þau að grunnkaup hækkaði í 3.80 kr. Eftirvinna styttist í 2 klst. úr 4. Vinnuvikan styttist í 48 klst. en varð í raun ekki nema 43 klst. vegna niðurfellingar á kaffitíma. Vinna féll niður á laugardögum yfir sumarmánuðina og teknar voru upp greiðslur vegna veikinda, 12 dagar á ári, en allt slíkt hafði fallið niður þau ár sem taxtinn gilti. Þá var komið á kauptryggingu í þeim tilfellum sem vinna féll niður vegna veðurs, efnisskorts eða annarra orsaka sem rafvirki átti ekki sök á.

FLRR sagði upp samningum frá og með 1. mars árið 1948. Settu meistarar fram þær kröfur að stytting vinnuvikunnar með niðurfellingu kaffitíma, frá því árið áður, yrði afnumin, svo og greiðsla veikindadaga o.fl. Þessu var alfarið hafnað af FÍR og boðað jafnframt verkbann hjá félagsmönnum FLRR frá og með 1. mars árið 1948. Það bann stóð til 8. mars en þann dag var nýr samningur undirritaður fyrir milligöngu sáttasemjara, eftir að FLRR hafði fallið frá öðrum kröfum en forgangsrétti meðlima FLRR til rafvirkja til starfa á sínum vegum. En jafnframt skuldbatt FLRR meðlimi sína til þess að láta nemendur ekki vinna í vinnudeilum.

SKORTUR Á VERKFÆRUM

Á aðalfundi 5. janúar árið 1949 skýrði formaður félagsins frá því, “að félagið hefði undanfarna mánuði unnið að því að kaupa til landsins ýmis þau verkfæri sem mestur skortur er á í iðninni. Kvað formaður þetta hafa borið þann árangur, að félagið hafi fengið frá Danmörku 200 ídráttarfjaðrir handa félagsmönnum. Um útvegum annarra verkfæra sagði formaður, að stjórnin hefði reynt að fá tengur o.fl. frá Svíþjóð, en um það hvort þær fengjust væri ekki hægt að segja með neinni vissu: Hinsvegar væri tök á að fá tengur frá Englandi með 3ja mánaða fyrirvara. Hefði stjórnin gert ráðstafanir til þess að fá sýnishorn”.

Síðar á fundinum var samþykkt sú tillaga, “að þeir sveinar sem væru starfandi hjá meisturum skuli hafa forkaupsrétt að þeim og skal hver eiga rétt á að kaupa eina af hverri gerð, meðan birgðir endast”. Ákveðið var að selja þær á innkaupsverði, 16.00 kr. og 13.00 kr.

Á stjórnarfundi í febrúar árið 1949 var skýrt frá því að sýnishorn af töngum væri komið frá Englandi til “Innkaupasambands rafvirkja”.
Á stjórnarfundi 12. júní árið 1949 var skýrt frá því að FÍR hefði fengið innflutta snittbakka. Ákveðið var að selja þá á innkaupsverði, 3 5/8″ – 1″ bakkar á 100.00 kr. einnig stakir bakkar á 15.00 kr. Ákveðið var að selja bakka til sveina sem störfuðu hjá meisturum sem væru skuldlausir við félagið og að þeir yrðu til sölu á skrifstofu félagsins n.k. þriðjudag og miðvikudag kl. 6 – 7.

Á stjórnarfundi 6. september árið 1949 lá fyrir reikningur frá Innkaupasambandi rafvirkja um verð á verkfærum sem félagið hafði pantað frá Bretlandi. Ákveðið var að selja verkfærin á kostnaðarverði, sem var 36.00 kr. settið (5 tengur). Þann 28. desember árið 1949 komu 400 bíttengur til landsins.

SKÓGRÆKTARNEFND STOFNUÐ

Á stjórnarfundi 30. maí árið 1950 flutti formaður tillögu frá Bjargmundi Sveinssyni þess efnis, að FÍR tæki land á Heiðmörk (Friðlandi Reykjavíkurbæjar) til gróðursetningar á trjáplöntum líkt og mörg önnur félög hefðu gert. Samþykkt var að vísa tillögunni til næsta félagsfundar. Þar var stofnuð skógræktarnefnd. Bjargmundur var í henni til ársins 1960. Haldið var áfram að tilnefna í nefndina á aðalfundum til 1963, þá var því hætt.

KAUPLÆKKUNARTILRAUN HRUNDIÐ FYRIR FÉLAGSDÓMI

Samkvæmt samningum þeim sem voru í gildi á árinu 1950, skyldi greiða fulla verðlagsuppbót á allt kaup samkvæmt vísitölu kauplagsnefndar. Þegar vísitala kauplagsnefndar fyrir júlímánuð var birt, kom í ljós að ekki hafði verið farið eftir þeim reglum um útreikning vísitölunnar sem verkalýðsfélögin töldu vera í gildi. ASÍ mótmælti þessari fölsun vísitölunnar og hvatti verkalýðsfélögin til þess að segja upp gildandi samningum við atvinnurekendur.

Félag íslenskra rafvirkja var eitt af þeim 40 verkalýðsfélögum sem varð við tilmælum ASÍ og samþykkti félagið á fundi þann 28. júlí að segja upp samningum, m.a. við Félag löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík.

ASÍ hóf síðan viðræður við ríkisstjórnina um vísitölumálið og lyktaði þeim viðræðum með því að ríkisstjórnin féllst á að leiðrétta vísitöluna nokkuð og gaf út bráðabirgðalög sem hækkuðu vísitöluna um 3 stig. Við þessi málalok beindi ASÍ þeim tilmælum til verkalýðsfélaganna að þau framlengdu samninga sína við atvinnurekendur óbreytta og var það samþykkt á félagsfundi FÍR að framlengja samningana um óákveðinn tíma.

Þegar kom til þess að ganga frá framlengingu samninganna neituðu meistararnir með öllu að framlengja þá óbreytta og setti FLRR fram kröfur um breytingar sem jafngiltu því að kaup rafvirkja yrði lækkað um 12,5%! Jafnframt kröfðust meistarar þess að samningum yrði breytt á þann veg, að þeim væri því aðeins skylt að greiða rafvirkjum fullt vikukaup, að vinna væri fyrir hendi hjá meistara. Vöktu þessi viðbrögð FLRR mikla undrun, þar sem allir aðrir vinnuveitendur höfðu orðalaust framlengt samninga við sína viðsemjendur, enda þóttu verkalýðsfélögin hafa sýnt mikinn þegnskap með framlengingu óbreyttra samninga, eins og kjörum var þá háttað, þrátt fyrir nokkra leiðréttingu á vísitölu.

Til að skýra hvað FLRR var að fara fram á, er nauðsynlegt að rifja upp hvað samið var um í samningum frá 9. mars árið 1948. Þessi samningsákvæði þýddu það að meistara var skylt að greiða þeim rafvirkjum sem öðlast höfðu uppsagnarfrest, óskert vikukaup án tillits til þess hvort um verkefni var að ræða eða ekki. Hafði þessi framkvæmd verið ágreiningslaus til þessa tíma.

Þegar kom fram á árið 1950 fór að gæta verkefnaskorts hjá rafvirkjameisturum, enda fór atvinnuástand almennt versnandi. Nokkur fyrirtæki í iðninni urðu þá uppvís að því að reyna að sniðganga þessi samningsákvæði, með því að greiða aðeins unnar stundir, þegar verkefni voru ekki fyrir hendi, enda þótt menn hefðu öðlast uppsagnarfrest. Þessu var að sjálfsögðu þegar í stað mótmælt af hálfu FÍR og þess krafist að fyrirtækin stæðu við gerða samninga.

Eins og áður er getið neitaði FLRR að framlengja samninga óbreytta og setti m.a. fram þá kröfu, að framangreindu samningsákvæði yrði breytt þannig: “Sé vinna fyrir hendi hjá meistara telst vinnuvika 48 stundir”. Þessari ákvörðun meistara um breytingar á samningunum hafnaði FÍR alfarið og boðaði jafnframt vinnustöðvun frá 21. september. Sáttasemjari ríkisins tók nú deiluna í sínar hendur og eftir nokkurt þóf féllu meistarar frá kröfum sínum og framlengdu samninga óbreytta.

Var nú allt kyrrt að kalla um sinn og bar ekki á frekari tilraunum til samningsbrota. Atvinnuástandið fór þó enn versnandi, og þegar líða tók á árið 1951 tóku meistarar upp fyrri iðju og neituðu að greiða sveinum umsamda kauptryggingu. FÍR var nú orðið langþreytt á stöðugum samningsbrotum og ákvað því að höfða mál á hendur FLRR fyrir Félagsdómi og var það gert með stefnu útgefinni 27. september 1951. Krafðist FÍR þess að dæmt yrði, að “rafvirkjameistara sé skylt að greiða félagsmönnum í Félagi íslenskra rafvirkja er hjá þeim vinna, dagvinnukaup fyrir 48 klst. vinnuviku, ef þeir mæta til vinnu réttstundis og eru ekki ráðnir til ákveðins tíma”.

Lögmaður Vinnuveitendasambandsins flutti málið fyrir hönd FLRR. Hann virtist ekki hafa verið of trúaður á að málstaður meistara stæðist fyrir dómi, því að hann gerði þá varakröfu, að meisturum væri því aðeins skylt að greiða fulla vinnuviku, að ekki hafi verið samið um annað milli meistara og sveina, er hlut eiga að máli.
Félagsdómur kvað upp úrskurð sinn 30. nóvember 1951. Tók dómurinn að fullu til greina kröfur FÍR um að meisturum væri skylt að greiða rafvirkjum kaup fyrir 48 klst. vinnuviku.

Með þessum úrslitum var endanlega hrundið þeirri tilraun til stórfelldrar kjaraskerðingar hjá rafvirkjum, sem FLRR hóf á öndverðu ári 1950, fyrst með beinum kröfum um breytingar á samningum, en þegar þær fengust ekki fram, þá með tilraunum til hreinna samningsbrota.

SÖGULEGIR SAMNINGAR 1952

Haustið 1952 sögðu mörg verkalýðsfélög upp kjarasamningum sínum við atvinnurekendur og var FÍR í þeim hópi. Þegar samningar náðust ekki, boðuðu félögin vinnustöðvun frá 1. desember og kom hún til framkvæmda þann dag. Þann 19. desember tókust samningar um sameiginlegar kröfur félaganna, sérkröfum var vísað til meðferðar einstakra samningsaðila. FÍR óskaði strax sama dag eftir viðræðum við samninganefnd FLRR um sérkröfur FÍR, sem félagið hafði áður sett fram og kynnt samninganefnd FLRR.

Samningar gengu tiltölulega greiðlega fyrir sig og undirrituðu formenn samninganefndanna samkomulag um breytingar á síðustu samningum þegar að kvöldi 19. desember. Næsta dag var gengið frá samningi í samræmi við samkomulagið og undirrituðu samninganefndir félaganna það. FÍR aflýsti síðan síðan verkfalli og hófst vinna samkvæmt hinum nýja samningi þá þegar. Helstu nýmæli í þessum samningum voru þau, að samið var í fyrsta sinni um fast vikukaup í stað tímakaups, sem áður hafði gilt og orlof var lengt úr 12 dögum í 15 daga á ári. Grunnvikukaup var 576 kr. Með þessum samningum höfðu rafvirkjar náð fram umtalsverðum kjarabótum umfram aðra og ríkti almenn ánægja með árangurinn.

Öðru máli gegndi í höfuðstöðvum atvinnurekenda. Þegar herrunum hjá VSÍ varð ljóst, hvaða samningar höfðu tekist milli FÍR og FLRR voru meistararnir teknir á hvalbeinið og þeim lesinn pistillinn og skipað að rifta gerðum samningum. Forsvarsmenn FLRR þrjóskuðust þó við í fyrstu og töldu einsýnt að þeir yrðu að standa við gerða hluti, enda hefðu þeir haft umboð frá félagi sínu til samningsgerðar. Stóð nú í stappi milli FLRR og VSÍ í 10 daga, rafvirkjar unnu samkvæmt hinum nýju samningum eins og ekkert hefði í skorist.

Þann 30. desember 1952 barst svo FÍR bréf frá FLRR, þar sem tilkynnt var að VSÍ hefði ógilt samning FLRR og FÍR. Jafnframt setti FLRR fram eftirfarandi ósk: “að samningaumleitanir milli félaga vorra geti hafist sem fyrst”.

Á fjölmennum félagsfundi í FÍR sem haldinn var þennan sama dag, var einróma samþykkt eftirfarandi tillaga:
“Fundur í Félagi íslenskra rafvirkja, haldinn 30. desember 1952, heldur fast við samning þann er stjórn félagsins hefur gert við Félag löggiltra rafvirkjameistara, dags. 20. þ.m. Jafnframt vísar félagið á bug öllum kröfum meistarafélagsins og Vinnuveitendasambands Íslands um endurskoðun samningsins, sem gerður var af ábyrgum umbjóðendum FLRR, og leggur fyrir meðlimi félagsins að standa fast á þeim réttindum, sem felast í nefndum samning”.

Þessi fundarsamþykkt var tilkynnt FLRR þegar sama dag.

Í janúarmánuði árið 1953 fóru fram nokkur viðtöl milli stjórna FÍR og FLRR, m.a. fyrir milligöngu sáttanefndar þeirrar sem starfaði í deilunni 1.-19. desember árið 1952. Þessar viðræður beindust að því að leita leiða til þess að skera stjórn FLRR niður úr snöru VSÍ. Leit svo út um tíma að stjórn FLRR ætlaði að hrista af sér ok VSÍ og standa við gerða samninga, en þegar á reyndi hafnaði félagsfundur meistara leiðsögn stjórnarinnar.

Enn sat allt við það sama og á fundi í trúnaðarráði FÍR 19. janúar var samþykkt að hefja undirbúning að málsókn á hendur FLRR fyrir Félagsdómi. Var lögmaður Alþýðusambands Íslands, Egill Sigurgeirsson hrl., fenginn til að undirbúa málið, og með stefnu útgefinni 28. janúar 1953 höfðaði FÍR mál á hendur FLRR fyrir Félagsdómi. Dómskrafan var, “að dæmt verði, að með samningi dags. 20. des. f.á. hafi stofnast bindandi og gildur vinnusamningur samkvæmt lögum nr. 80/1938 milli Félags íslenskra rafvirkja og Félags löggiltra rafvirkjameistara í Reykjavík”.

Eins og áður er getið, færði samningurinn frá 20. desember rafvirkjum nokkru meiri kjarabætur en verkalýðsfélögin fengu almennt í desembersamningunum og af þessum ástæðum reyndi VSÍ með öllum ráðum að fá samningnum rift. Beitti VSÍ því einkum fyrir sig, að samkvæmt samþykktum þess væri FLRR óheimilt að gera skuldbindandi samninga nema með samþykki VSÍ. Þessi rök taldi FÍR markleysu eina gagnvart sér, samninganefndirnar hefðu hvor um sig haft fullt umboð sinna félaga til samningsgerðar og þeir verið undirritaðir fyrirvaralaust af beggja hálfu. Auk þess var á það bent, að samþykktir VSÍ hefðu ekkert gildi gagnvart FÍR og gætu á engan hátt haggað gerðum samningi við FLRR.

Skemmst er frá því að segja, að Félagsdómur féllst einróma á sjónarmið og málflutning FÍR og kvað 23. febrúar árið 1953 upp þann dóm, að með samningum frá 20. desember árið 1952 hefði stofnast bindandi kjarasamningur milli aðila.

Lauk þar með þessari athyglisverðu deilu með fullum sigri FÍR.

FYRSTI HEIÐURSFÉLAGINN OG AFHENDING FYRSTU GULLMERKJA
Á stjórnarfundi 14. október árið 1951 lagði formaður þetta til: “Legg til að Hallgrímur Bachmann verði gerður að heiðursfélaga FÍR sem viðurkenning fyrir störf hans í þágu félagsins og rafvirkjastéttarinnar”. Tillagan var samþykkt samhljóða. Í 25 ára afmælishófi FÍR var ákveðið að gera fyrsta formann félagsins, Hallgrím Bachmann að fyrsta heiðursfélaga þess og var honum afhent skrautritað skjal þessu til staðfestingar. Á 30 ára afmæli félagsins var ákveðið að afhenda fyrstu gullmerki félagsins. Þau fengu stofnendurnir sem enn voru í félaginu: Hallgrímur Bachmann, Sigurður Jakobsson, Eiríkur Karl Eiríksson, Ingolf Abrahamsen og Hafliði Gíslason.

FYRSTA FÉLAGSHEIMILIÐ

Á fundi í FÍR 10. apríl árið 1956 var samþykkt að festa kaup á þremur hæðum hússins nr. 27 við Freyjugötu í samvinnu við Múrarafélag Reykjavíkur, og áttu félögin að verða eigendur hússins að jöfnu. Samþykkt var að veita stjórn Fasteignasjóðs fullt umboð til þess að ganga frá samningum. Jafnframt var öðrum sjóðum félagsins gert að lána Fasteignasjóði handbært fé sitt gegn fullnægjandi tryggingum, til þess að standa straum af útborgun.

Fyrsti fundur FÍR í hina nýja húsnæði var haldinn 2. júlí árið 1958. Vígsla félagsheimilisins fór fram í ágústmánuði 1958. Þegar ráðist var í bygginguna að Freyjugötu voru félagsmenn FÍR um 100. Á þeim tíma var nánast óþekkt að verkalýðsfélög réðust í að byggja yfir sig, hvað þá jafn fámennt og FÍR. En þetta fordæmi varð til þess að fljótlega fylgdu fleiri í kjölfarið.

Á þessum árum tók félagið stórstígum framförum undir öruggri stjórn þáverandi formanns Óskars Hallgrímssonar. Einnig má benda á að Magnús Geirsson síðar formaður félagsins var að koma til starfa á þessum árum, fyrst í hlutastarfi síðar í fullu. Félagið hélt miklar árshátíðir og fyllti stærstu veitingahús bæjarins. Einnig voru haldin skemmti- og spilakvöld í nýja félagsheimilinu.

Á þessum stóru skemmtunum komu fram ýmiskonar söng- og skemmtihópar. Hagyrðingar voru fengnir til þess að setja saman margra söngtexta. Hér er einn sem var sunginn í fimmtíu ára afmæli félagsins, eins og kemur fram í textanum:

(Lag: Úr fimmtíu centa glasinu)
Í upphafi var myrkur og auðn til lands og sjós
og ömurlega hljótt um víðan geiminn.
Þá seildist Guð í rofann og sagði: Verði ljós
og sólarbirta flæddi yfir heiminn.

Svo skapaði hann manninn, og skepnan reyndist góð,
með skynsemi í hærra meðallagi.
Hún undi við, að ávaxta sitt lóð
en alltaf var að næturmyrkri bagi.

Og fólkið tók að kvarta og fannst það nokkuð hart
ef fyndist ekki ráð við slíkum baga.
Það vildi ekkert myrkur. Það vildi hafa bjart
í veröldinni jafnt nótt sem daga.

Svo komust menn á lagið með kertaljós og slíkt
og kvöldsins skuggar tóku nú að víkja.
Þó virtist reyndar sumum það vitleysunni líkt
að vilja eftir sjálfum Guði líkja.

En margir voru alltaf, er sögðu: Meira ljós
og mændu upp í sólarbjartan geiminn.
Að lokum fannst svo kraftur, sem logageislum jós
já loksins fæddist rafljósið í heiminn.

En rafvirkja þarf góða er rafmagnsnotkun vex
og rétt er þá að draga línur hreinar.
Svo tókst oss árið nítjánhundruðtuttuguogsex
að teljast allir hreinir sveinar.

Og náttúrulega urðu svo nýir sveinar til
er næstum allir stóðu sig með prýði.
(Þótt ýmsir hafi fallið og aðrir hér um bil)
í okkar mikla fimmtíu ára stríði.

Nú yrkingum lýkur, því andans kraftur þverr
og enginn græðir víst á þessu skrafi.
Því lyftum við nú glösum: Lifi F.Í.R.
það lengi, lengi, lengi, lengi lifi.

BYGGING FYRSTU ORLOFSHÚSANNA

Á fjárlögum árið 1957 fékkst 1 milljón til orlofsheimila verkalýðsfélaga. Árið eftir var farið fram á það við þáverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson, að ríkið legði til land undir orlofsheimili og var lögð áhersla á að landið væri nálægt jarðhita. Í desember sama ár barst ASÍ bréf frá Hermanni þar sem ráðuneytið féllst á að láta ASÍ í té land undir orlofsheimili einhversstaðar í nánd við Hveragerði.
Í framhaldi þessa bréfs upphófst mikið stapp um hvar þetta land skyldi vera og hve stórt. Margir staðir voru nefndir, en síðan dregnir til baka að kröfu þeirra sem töldu sig hafa annarra hagsmuna að gæta. Það var loks í október árið 1962, að undirritaður var samningur um að ríkið leigði ASÍ 12 hektara lands úr landi Reykjatorfu í Ölfushreppi. Sigvaldi Thordarson arkitekt var fenginn til þess að skipuleggja svæðið og teikna orlofshúsin. Landið sem valið hafði verið var mjög blautt og reiðgötur lágu um hlíðina fyrir ofan eins og enn má sjá. Til eru kímnisögur um það þegar þáverandi forystumenn ASÍ köfuðu mýrina í mitti og þegar þeir komust eftir mikinn barning upp úr henni, gall við í forseta: “Já hér setjum við húsin okkar”.

Önnur kímnisaga er fræg innan verkalýðshreyfingarinnar um viðhorf manna á þeim árum sem húsin voru reist. Fram höfðu komið óskir um að settar væru sturtur í húsin. Þegar tillagan var tekin til umfjöllunar kom fram önnur um, “að fólk ætlaði nú ekki að vera nema viku í húsunum og því væri það fjarstæðukenndur óþarfi að eyða miklum fjármunum í að setja upp sturtur í húsin”.

Í fyrsta áfanga voru byggð 22 orlofshús og sumarið 1965 voru þau hús leigð til fyrstu dvalar. Síðar voru 14 hús byggð til viðbótar, svo nú eru húsin 36 auk kjarnahússins og húsanna sunnan þess. Á aðalfundi árið 1964 var lesið upp bréf frá ASÍ þar sem orlofshúsin í Ölfusborgum voru boðin föl. Á aðalfundinum var samþykkt að heimila stjórn félagsins að festa kaup á allt að 3 húsum og greiðsla kæmi úr fasteignasjóði. Árið 1965 voru félagsmenn 447.

RAFIÐNAÐARSAMBAND ÍSLANDS STOFNAÐ
Dagana 8. og 9. maí 1970 var haldin í Reykjavík ráðstefna rafiðnaðarmanna. Þar var samþykkt einróma að stofna Rafiðnaðarsamband Íslands. Ákveðið var að halda framhaldsstofnþing þá um haustið og kosin var sambandsstjórn sem skyldi starfa til framhaldsþingsins. Í miðstjórn voru valdir: Óskar Hallgrímsson, Reykjavík, form., Magnús Geirsson, Reykjavík, varaform, Jón Már Ríkarðsson, Reykjavík, ritari, Gunnar Bachmann, Reykjavík, gjaldkeri.

Meðstjórnendur: Jóhannes Bjarni Jónsson, Reykjavík, Engilbert Þórarinsson, Selfossi og Albert K. Sanders Y.-Njarðvík. Í sambandsstjórn: Bjarni Árnason, Akranesi, Gunnar Steinþórsson, Ísafirði, Sigurjón Erlendsson, Siglufirði, Hákon Guðmundsson, Akureyri, Tómas Zoega, Neskaupstað, Bjarni Sigfússon, Reykjavík, Sigurður Hallvarðsson, Reykjavík og Þorsteinn Sveinsson, Reykjavík.

Dagana 28. og 29. nóvember 1970, var svo haldið fyrsta þing Rafiðnaðarsambands Íslands. Þar voru Þorsteinn Sveinsson, Reykjavík og Albert K. Sanders, Njarðvík þingforsetar. Ritarar voru Bjarni Sigfússon Reykjavík og Sævar Sigtýsson Akureyri. Fyrir þingið voru lagðar reglugerðir fyrir lífeyrissjóð, styrktarsjóð og orlofsheimilasjóð rafiðnaðarmanna. Fjórar nefndir störfuðu: Kjara- og atvinnumálanefnd, mennta- og iðnaðarnefnd, fjárhagsnefnd og kjörnefnd.

Í stjórn RSÍ voru kjörnir: Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Ólafur Þorsteinsson ritari, Gunnar Bachmann gjaldkeri. Meðstjórnendur: Jóhannes Bjarni Jónsson, Engilbert Þórarinsson og Albert K. Sanders.

Í sambandsstjórn voru kosnir Bjarni Árnason, Akranesi, Gunnar Steinþórsson, Ísafirði, Sigurjón Erlendsson, Siglufirði, Hákon Guðmundsson, Akureyri, Tómas Zoega, Neskaupstað, Bjarni Sigfússon, Reykjavík, Sigurður Hallvarðsson, Reykjavík og Þorsteinn Sveinsson, Reykjavík.

Töluverð breyting verður á starfsemi FÍR við stofnun RSÍ. Félagið hafði starfað sem landsfélag frá stofnun þess, og frá 1954 hafði RFA starfað sem deild innan FÍR. Nú varð RFA að sjálfstæðu félagi, stofnuð voru ný félög rafvirkja á Suðurlandi, Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum. Einnig voru innan RSÍ félög útvarpsvirkja, skriftvélavirkja og línumanna. Ætlunin var að stofna félög á Vestur- og Austurlandi, en úr því varð ekki.

Skipulagslega var uppbygging RSÍ töluvert frábrugðin öðrum samböndum stéttarfélaga hér á landi. Ljóst er að fyrsti formaður sambandsins, Óskar Hallgrímsson, hafði kynnt sér vel uppbyggingu og reynslu samtaka rafiðnaðarmanna á hinum Norðurlandanna. Þar var það sambandið sem hafði stjórn með öllum sjóðum og eignum. Í hinum landssamböndum íslensku stéttarfélaganna var það aftur á móti hvert félag sem stjórnar sínum sjóðum. Það leiddi af sér að t.d. vinnudeilu-, sjúkra- og orlofssjóðir voru gríðarlega misjafnlega sterkir og olli félagslegu misrétti innan sambandanna. Þetta hafði valdið vandræðum þegar menn þurftu að færa sig milli landshluta vegna starfa sinna.

Það kostaði Óskar mikil átök að fá það samþykkt innan FÍR að láta RSÍ eftir sterka sjóði og fasteignir FÍR. FÍR var orðið gamalt og gróið félag og átti fasteigna-, verkfalls-, styrktar- og orlofssjóði. Hin félögin voru tiltöluleg ung og fámenn félög og áttu litlar sem engar eignir. En framsýni Óskars hefur reynst rafiðnaðarmönnum ákaflega happadrjúg og eru hin landssamböndin sum hver að breyta skipulagi sínu í svipað horf og það er innan RSÍ.

FYRSTA NÁMSKEIÐIÐ OG STARFSEMI EFTIRMENNTUNARNEFNDANNA

Seinni hluta vetrar 1930 var rætt við Steingrím Jónsson rafmagnsstjóra um það hvort hægt væri að koma á námskeiði. Hann taldi að hægt væri að halda námskeið í raffræði án sérstaks stærðfræðilegs undirbúnings nemenda og lofaði að vera innan handar við að útvega kennara. Á fyrsta námskeiðið voru skráðir 19 manns.
Námskeiðið byrjaði vorið 1930, þrír kennarar kenndu, hver sinn kafla í þeirri bók sem valin hafði verið til námskeiðsins. Í byrjun var námskeiðið vel sótt, en eftir nokkur skipti mættu ekki nema 2. Um haustið var rætt um að reyna að koma á framhaldsnámskeiði í mars-apríl. Fram kom gagnrýni á þá bók sem notuð hafði verið og bent á að heppilegra væri að nota handbækur við kennsluna.

Félagsmenn voru mjög óánægðir með rafmagnsfræði- og teiknikennsluna í Iðnskólanum og rætt var um hvort ekki mætti að einhverju leyti nýta rafmagnsfræðikennsluna sem var í Vélskólanum. En úr því varð ekki.

Á fundi í október árið 1936 var sett nefnd í að athuga hvort ekki væri hægt að koma á fót námskeiði, það væru nægir kraftar innan félagsins til þess að kenna þar. Það kemur ekki fram hvort varð af þessu námskeiði.

Á fundi 26. október árið 1948 var skýrt frá því, að samið hefði verið við Magnús Magnússon rafmagnsverkfræðing um að hann tæki að sér að standa fyrir framhaldsnámskeiði fyrir rafvirkja. Magnús óskaði eftir tillögum um innihald námskeiðsins. Námskeiðið átti að hefjast 10. nóv. í Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og námskeiðsgjald að vera 75 kr.

Á fundi 17. nóvember árið 1948 var rætt um að fá menn til þess að flytja fyrirlestra um eftirfarandi efni: 1. Hagnýting jarðhitans til virkjunar. 2. Um olíukyndingar. 3. Um eftirlit með raflögnum. 4. Hitun húsa með rafmagni. 5. Ljósfræði. 6. Um Neon og flúorsent lýsingu. 7. Deyfing á radíótruflunum. 8. Vatnsaflsfræði.

Á fundi 12. jan. 1949 var rætt um að fá Jón Bjarnason til þess að flytja fyrirlestur. Á fundi 28. desember var rætt við Pétur Símonarson í Vatnskoti um hvort hann vildi taka að sér að flytja fyrirlestur, rætt var um að fá húsnæði hjá Fiskifélaginu. Á næsta fundi (19. janúar 1950) kom Pétur og skýrði frá því, að hann væri búinn að fá loforð fyrir kennslutækjum, bæði niðri í Fiskifélagshúsi og í Sjómannaskólanum. Talaði Pétur um að hafa námskeiðið 2 tíma tvisvar á viku í 6 vikur. Ákveðið var að greiða honum 70 kr. pr. klst. Þann 26. maí árið 1950 var rætt um að koma á námskeiði í logsuðu í samvinnu við Vélsmiðjuna Héðin.

Margskonar námskeið voru haldin á árunum 1955-1970, en mest var þó um svokölluð 10% námskeið, sem samið var um í kjarasamningum. Þessi námskeið voru að hluta til verkleg. Kennd var log- og rafsuða, bílarafmagn, tengingar jarðstrengja og heimilistæki. Námsefni þessara námskeiða var síðan fellt inn í nám rafvirkjanema.

Þegar farið var að byggja Búrfellsstöð og álverið í Straumsvík, urðu þeir rafvirkjar sem þar störfuðu sér meðvitaðir að þeir væru að mörgu leyti langt á eftir í þekkingu á rafeindatæknibúnaði. Þær nýjungar sem fylgdu í kjölfar hálfleiðarans og síðar örtölvunnar höfðu geysileg áhrif á þann búnað sem rafiðnaðarmenn unnu við. Þetta varð til þess að notkun teikninga og handbóka varð mun ríkari þáttur í störfum rafvirkja. Fram til þessa hafði lítið verið lagt upp úr lestri og frágangi teikninga hér á landi.

Þetta varð til þess að FÍR fór að gefa út tæknirit og fá kennara til þess að halda námskeið í rafeindatækni og stýriteikningalestri. Þessi námskeið voru haldin á kvöldin og um helgar. Þeir sem kenndu á þessum námskeiðum fóru fljótlega að hafa orð á því að þeir þyrftu betri aðstöðu og kennslutæki til þess að ná viðunandi árangri. Upp úr árinu 1970 var farið að huga að því að endursemja námskrár. Fjölbrautaskólar ruddu sér til rúms og verkmenntadeildir voru reistar. Grunndeild málmiðna var sett á laggirnar. Rafiðnaðarmenn voru óánægðir með hversu mikil áhersla var þar lögð á vinnubrögð í málmiðnaði og töldu að tímann mætti nýta betur með því að auka kennslu í undirstöðuatriðum rafmagnsfræðinnar. Fljótlega var grunndeild rafiðna sett á laggirnar.

En rafvirkjarnir sem voru úti á vinnumarkaðnum gerðu sífellt harðari kröfur um að þeir fengju tækifæri til þess að endurnýja menntun sína og kröfðust þess að FÍR hefði forgöngu þar um. Eftir að byggingu álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar lauk 1968-1969 var mikið atvinnuleysi meðal byggingariðnaðarmanna. Fóru margir þeirra í atvinnuleit til Norðurlanda. Upp úr 1971 fóru þeir að koma heim aftur og höfðu þá margir þeirra kynnst hvernig eftirmenntunarmál voru skipulögð á Norðurlöndunum. Þessir menn fjölluðu um þau mál á félagsfundum og það var svo í sólstöðusamningunum árið 1974 að rafverktakar og fulltrúar rafvirkja urðu sammála um að standa að stofnun eftirmenntunarnefndar á sama hátt og rafiðnaðarmenn í Danmörku höfðu gert.

Í fyrstu eftirmenntunarnefndina voru skipaðir Magnús Geirsson og Gunnar Bachmann af hálfu FÍR og af hálfu rafverktakanna Árni Brynjólfsson og Reynir Ásberg, Guðmundur Gunnarsson var ráðinn starfsmaður nefndarinnar. Þegar að loknum samningunum var haft samband við dönsku eftirmenntunarnefndina og framkvæmdastjóri hennar, Börge Lindberg, kom hingað í ársbyrjun 1975. Þá var gerður samningur um að þeir sendi hingað kennara ásamt kennslutækjum til þess að koma á námskeiðum í segulliðastýringum og síðan rafeindastýringum. Þetta varð að gera vegna þess að þessi kennslutæki voru ekki til í verkmenntaskólunum hér á landi. Sett voru á laggirnar grunnnámskeið þar sem farið var í gegnum grundvallaratriði rafmagnsfræðinnar og rafeindatækninnar. Þessi námskeið voru strax fullbókuð og voru haldin víðsvegar um landið.

Það var svo 1. apríl 1975 sem danski kennarinn Arne Nielsen kom hingað með fyrsta segulliðanámskeiðið. Því fylgdi um hálft tonn af kennslutækjum. Þetta námskeið varð langvinsælasta námskeiðið sem eftirmenntunarnefndin hefur haldið. Þegar það námskeið var haldið í fyrsta sinn voru kennslutækin send með einum Fossanna hingað til lands. Daginn eftir að skipið kom átti námskeiðið að hefjast. Arne Nielsen var kominn hingað, en þátttakendurnir komu margir utan af landi til Reykjavíkur. Það vafðist fyrir tollþjónum að afgreiða tollpappírana vegna þess að þeir voru ekki vissir um hvernig ætti að tollflokka þennan nýja búnað, en með miklu harðfylgi tókst að koma pappírunum í gegn og voru þeir þá komnir á skrifborð deildarstjóra í tollstöðinni.

Komið hafði leki að skipinu á leið til lands svo það var drifið upp í slipp stuttu eftir komu hingað. Nú voru góð ráð dýr, því fyrir lá að senda kennarann utan aftur og nemendurna heim. Farið var alla leið til æðstu manna hjá Eimskip og síðan með bréf frá þeim til æðstu manna í Slippnum um að kennarinn og nemendur hans mættu fara um borð í skipið þar sem það lá í Slippnum, fara niður í lest og finna til kassana sína. Það var stormað niður Slipp með þátttakendur námskeiðsins og danska kennarann til þess að ná í kennslutækin. Með hjálp kaðla og netatrossu sem fannst á Slippsvæðinu voru kassarnir hífðir með handafli upp úr lestinni og síðan slakað með síðunni niður á jörð og þaðan inn í sendiferðabíl, upp í Iðnskóla og fyrsta verkefni námskeiðsins var að taka upp úr kössunum og koma kennslutækjunum fyrir. Síðan var kennt langt fram á nótt til þess að vinna upp þann tíma sem hafði tapast í umstanginu.

Í nóvember árið 1975 kom Arne Nielsen hingað aftur og þá með fyrsta rafeindatækni-námskeiðið. Það var ákveðið að halda eitt námskeið í Reykjavík og síðan annað á Akureyri. Þessar Íslandsferðir urðu Arne mikil ævintýr og varð hann mikill Íslandsvinur, kom hann oft hingað og eyddi m.a. einu sinni sumarleyfi sínu hérna ásamt fjölskyldu sinni. Arne dó langt fyrir aldur fram úr krabbameini og var þar mikill missir fyrir norrænt menntunarstarf rafvirkja.

Árið 1974 ákváðu norrænu rafiðnaðarsamböndin ásamt rafverktakasamböndunum að stofna Nordisk El-Utbildings Komité (NEUK). Þessi norræni hópur hélt ráðstefnur á eins og hálfs árs fresti, þess á milli starfaði vinnuhópur að verkefnum sem ráðstefnurnar ákváðu. Unnið var að samræmingu námskeiða og grunnnáms rafvirkja. Árangur varð ekki mikill í því að samræma námið milli landa, en upplýsingastreymið varð mikið milli landa og varð óbeint til þess að nám rafvirkja á Norðurlöndum varð líkara en áður. Einnig sköpuðust í gegnum NEUK tengsl milli skóla og þeirra er að námskrár- og kennslubókagerð unnu.

Árin 1975-1978 var eftirmenntunarnefndin rekin með fjárframlagi sem fékkst á fjárlögum í gegnum iðnaðarráðuneytið. Árið 1978 var klippt á fjárveitingar frá hinu opinbera. Þá sömdu rafverktakar og rafvirkjar um að vinnuveitendur myndu greiða 0,75% af útborguðum launum í eftirmenntunarsjóð. Innheimta eftirmenntunargjaldsins gekk frekar illa til að byrja með og félögin, þá sérstaklega FÍR, stóðu undir rekstri eftirmenntunarinnar árin 1978 og 1979. Árið 1980 var eftirmenntunargjaldið síðan hækkað í 1% og stóð þá undir rekstrinum.

Starfsemi eftirmenntunarnefndarinnar varð fljótlega svo umfangsmikil, að nefndin varð að kaupa sjálf kennslutækin og hætta að leigja þau frá Danmörku. Verulegur hluti rekstrarfjárins fór í kennslutækjakaup á þessum árum eða allt að 60%. Fyrsta árið voru haldin þrenns konar námskeið, þ.e. Grunnnámskeið, Einlínumyndir og Rafeindatækni I, alls 18 námskeið með 245 þátttakendum. Námskeiðsstaðir voru Selfoss, Keflavík, Reykjavík, Akranes og Akureyri. Næstu árin bættist við eitt nýtt námskeið á ári og námskeiðsstöðum fjölgaði. Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Sauðárkrókur og Egilsstaðir bættust við sem fastir viðkomustaðir, einnig kom fyrir að námskeiðin væru haldin á öðrum stöðum. Árið 1980 var boðið upp á 6 mismunandi námskeið og það ár voru haldin 20 námskeið.

Haustið 1985 hófst samstarf við eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja og Rafiðnaðarskólinn var stofnaður. 70 ferm. húsnæði var leigt að Skipholti 7 og námskeiðin í Reykjavík voru haldin þar. Þetta hafði mikil og góð áhrif á starfsemina. Fram að þessu höfðu öll námskeið í Reykjavík verið haldin í Iðnskólanum. Það varð sífellt erfiðara að fá kennslustofur nema þá á kvöldin. Námskeiðssóknin jókst verulega og námskeiðsfjöldi fór upp í 44 með 593 þátttakendum, boðið var upp 10 mismunandi námskeið.

Ári seinna var það ljóst að leiguhúsnæðið í Skipholtinu var of lítið. Þá var farið í samstarf við rafverktakasamtökin og ákvæðisvinnustofuna og þriggja hæða verksmiðjuhús í Skipholti 29 keypt. Rafiðnaðarskólinn fékk um 150 ferm., auk þess sem aðgangur var að kaffistofu. Tveim árum síðar voru fest kaup á 530 ferm. hæð í Skeifunni 11B. Það var FÍR sem keypti hæðina og innréttaði hana, leigði síðan Rafiðnaðarskólanum á vægu gjaldi. Í nýja húsinu voru 4 kennslustofur, setustofa og aðstaða fyrir fræðslumynda- og bókasafn, kaffistofa, skrifstofur fyrir kennara og skrifstofa fyrir ákvæðisvinnustofuna. Árið 1992 voru haldin yfir 100 námskeið með rúmlega 1.000 þátttakendum. Boðið var upp á 70 mismunandi námskeið og fastráðinn starfsmannafjöldi 4, auk fjölda annarra lausráðinna kennara. Árið 1993 var svo enn aukið við húsnæðið, helmingur 2. hæðar var keyptur. Þar var innréttaður ráðstefnusalur sem skipta mátti í kennslustofur. Veturinn 1994-1995 var stofnuð bókaútgáfa til þess að halda utan um fjölmargar kennslubækur sem skólinn og samtökin höfðu látið þýða og semja.

Starfsemi eftirmenntunarnefndanna hefur alltaf haft mikil áhrif á menntun rafiðnaðarmanna. Þau kennslutæki sem nefndirnar fluttu inn og þær kennslubækur sem þýddar hafa verið á þeirra vegum, var flutt að miklu leyti inn í verknám rafvirkjanna. Á þessum árum voru námskrár rafvirkja endursamdar og hafði eftirmenntunarnefndin mikil áhrif á hvernig þetta starf var unnið.

HEIMILDASKRÁ:

Handrit Júlíusar Björnssonar um starfsfólk, rafvirkjameistara.
Hugmyndasaga. Ólafur Jens Pétursson, Mál og Menning 1989.
Hvem tænkte hvad. Politiken 1967.
Orkan. Mitchel Wilson, Almenna bókafélagið 1963.
Tímarit iðnaðarmanna 1. – 5. árg. 1927 – 1931.
“Fólksekla á Íslandi”. Einar Benediktsson, Dagskrá 1896.
“Félagsskapur verkamanna”. Einar Benediktsson, Dagskrá 1896.
“Brot úr sögu Alþýðusambandsins”. Stefán F. Hjartarson, Vinnan 75 ára afmælisblað
Bannfærð sjónarmið. Hannibal Valdimarsson, Örn og Örlygur 1983.
Saga Rafmagnsveitu Reykjavíkur. SÍR 1961.
Dansk Elektriker Forbund 1904 – 1954. Hafnia Kaupmannahöfn 1954.
Múrarasaga Reykjavíkur. Björn Sigfússon, Múrarasamtökin Reykjavík 1951.
Stjórnarráð Íslands. Agnar Kl. Jónsson, Sögufélag Reykjavíkur 1969.
Með Sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni. Guðjón Friðriksson, Iðunn 1991.
Dómsmálaráðherrann. Guðjón Friðriksson, Iðunn 1992.
Jón Þorláksson. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Almenna bókafélagið 1992.
Saga Reykjavíkur, fyrri hluti. Guðjón Friðriksson 1991.
“Ágrip af sögu Rafvirkjafélags Norðurlands”. RSÍ blaðið Valberg Kristjánsson, 1987.
“Iðnnemasamband Íslands 5 ára”. Óskar Hallgrímsson, Iðnneminn 16. árg. 1949.
“Þróun rafmagnsnotkunar hér á landi”. Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri, Iðnneminn 16. árg 1949.
Iðnneminn 60 ára. 61. árg., 3. tbl. 1993.
Rafmagnsveita Reykjavíkur 1921 – 1991. Ólafur S. Björnsson og Guðmundur Egilsson.
Úr bæ í borg. K. Zimsen, Helgafell 1952.
Bjarni Runólfsson, minningarrit. Víkingsútgáfan 1944.
Vaskir menn. Þorsteinn Thorarensen, Fjölvi 1971.
Sagt frá Reykjavík. Árni Óla, Ísafold 1966.
“Mér leiðist órökrétt hugsun”, um Jón Sigurgeirsson í Árteigi. Ólafur H. Torfason. Heima er best.
“Vatnsaflsstöðvar fyrir sveitabæi á Íslandi”. Ágúst Halblaub. Heima er best.
Gaman að lifa. Minningabrot Jóhanns Ögmundssonar. Erlingur Davíðsson, Skjaldborg 1981.
Íslensk vötn. Sigurjón Rist, Vatnamælingar 1956.
Líf og hugur. Starfssaga Múrarafélags Reykjavíkur, Brynjólfur Ámundason, 1977.
“Jónas Guðmundsson 70 ára”. Tímarit rafvirkjameistara.
“Minningargrein Gísla Jónssonar um Hallgrím Bachmann”. Morgunblaðið 9. desember 1969.
Leikhúsið við Tjörnina. Sveinn Einarsson, Reykjavík 1973.
Leikfélag Reykjavíkur 50 ára. Reykjavík 1947.
“Samningur um sextán kertaljós”. Sr. Gísli Brynjólfsson, Lesbók Morgunblaðsins 21. tbl., 45. árg.
“Halldór Guðmundsson raffræðingur”. S.H. Óðinn júlí – desember 1924.
“Aldarafmæli Halldórs Guðmundssonar raffræðings”. Eiríkur Ormsson, Tímarit VFÍ 1974.
“Rafljós í hálfa öld”. Óskar Hallgrímsson, Tímarit rafvirkja 1954.
“Aldarfjórðungsstarf”. Óskar Hallgrímsson, Tímarit rafvirkja 3. – 4. tbl. 5. árg. 1951.
“Dánarminning Nikulás Friðriksson, yfirumsjónarmaður”. Steingrímur Jónsson, Tímarit rafvirkja.
Sammen ble vi sterke, NEKF 1918-1993. Björn Björnsen. NEKF, Osló 1994.
50 ára Bræðurnir Ormsson 1. desember 1922-1972.
Tímarit rafvirkja og Rafiðnaðarsambands Íslands.
Fundagerðir Félags íslenskra rafvirkja, Rafvirkjafélags Norðurlands, Rafiðnaðarsambands Íslands og Eftirmenntunarnefnda í rafiðnaði.

STJÓRNIR FÉLAGS ÍSLENSKRA RAFVIRKJA

 

1926 Hallgrímur Bachmann form., Jón Guðmundsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Hafliði Gíslason vararitari og Sæmundur Runólfsson varagjaldkeri.

1927 Hallgrímur Bachmann form., Jónas Guðmundsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Jóhannes Kristjánsson vararitari og Davíð Árnason varagjaldkeri.

1928 Jónas Guðmundsson form., Hallgrímur Bachmann varaform., Jóhannes Kristjánsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Guðmundur Þorsteinsson vararitari og Davíð Árnason varagjaldk.

1929 Jóhannes Kristjánsson form., Hallgrímur Bachmann varform., Sigurður P.J. Jakobsson ritari, Ögmundur Sigurðsson gjaldk., Davíð Árnason vararitari og Guðmundur Þorsteinsson varagjaldk.

1930 Hallgrímur Bachmann form., Sigurður Jónsson varaform., Sigurður P.J. Jakobsson ritari, Jóhannes Kristjánsson gjaldk., Dagfinnur Sveinbjörnsson vararitari og Jón Guðmundsson varagjaldk.

1931 Hallgrímur Bachmann form., Sigurður Jónsson varaform., Guðmundur Þorsteinsson ritari, Jóhannes Kristjánsson gjaldk., Páll Einarsson aðstoðargj.k. Varamenn Ólafur Jónsson, Magnús Jónsson, Jón Guðmundsson og Sigurður P.J. Jakobsson.

1932 Hallgrímur Bachmann form., Sigurður Jónsson varaform., Sigurður P.J. Jakobsson ritari, Sigurður Gíslason gjaldk., Einar Bjarnason aðstoðargj.k. Varamenn Ólafur Jónsson, Ögmundur Sigurðsson og Magnús Jónsson.

1933 Jón Guðmundsson form., Ólafur Jónsson varaform., Gissur Pálsson ritari, Hallgrímur Bachmann gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. Varamenn Gísli Hannesson, Gissur Erasmusen, Einar Bjarnason og Kári Þórðarson.

1934 Ólafur Jónsson form., Kári Þórðarson varaform., Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Hallgrímur Bachmann gjaldk., Ólafur Guðmundsson aðstoðargj.k. Varamenn Jón Sveinsson, Jóhannes Kristjánsson, Sigurður Magnússon og Sigurður Gíslason.

1935 Kári Þórðarson form., Eiríkur Karl Eiríksson varaform., Jón Sveinsson ritari, Ólafur Jónsson gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. Varamenn Jóhannes Kristjánsson, Einar Bjarnason og Ingolf Abrahamsen.

1936 Kári Þórðarson form., Eiríkur Karl Eiríksson varaform., Jón Sveinsson ritari, Ólafur Jónsson gjaldk., Ríkarður Sigmundsson aðstoðargj.k. Varamenn Þórður Finnbogason, Sigurður Bjarnason og Guðjón Guðmundsson.

1937 Kári Þórðarson form., Jón Sveinsson, Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Ríkarður Sigmundsson gjaldk., Guðjón Guðmundsson aðstoðargj.k. Varamenn Haraldur Jónsson, Þorlákur Jónsson og Ólafur Jónsson.

1938 Guðjón Guðmundsson form., Guðmundur Þorsteinsson varaform., Haraldur Eggertsson ritari, Ríkarður Sigmundsson gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k. Varamenn Vilhjálmur Hallgrímsson og Haraldur Lárusson.

1939 Ríkarður Sigmundsson form., Magnús Hannesson varaform., Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Júlíus Steingrímsson gjaldk., Vilhjálmur Hallgrímsson aðstoðargj.k.

1940 Kári Þórðarson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Eiríkur Karl Eiríksson ritari, Einar Bjarnason gjaldk., Júlíus Steingrímsson aðstoðargj.k.

1941 Jónas Ásgrímsson form., Sigurður Magnússon varaform., Þorsteinn Guðmundsson ritari, Einar Bjarnason gjaldk., Elías Valgeirsson aðstoðargj.k.

1942 Jónas Ásgrímsson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Adolf Björnsson ritari, Finnur B. Kristjánsson gjaldk., Sigurður Magnússon aðstoðargj.k.

1943 Jónas Ásgrímsson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Adolf Björnsson ritari, Hjalti Þorvarðarson gjaldk., Finnur B. Kristjánsson aðstoðargj.k.

1944 Jónas Ásgrímsson form., Vilberg Guðmundsson varaform., Hannes Jónsson ritari, Hjalti Þorvarðarson gjaldk., Finnur B. Kristjánsson aðstoðargj.k.

1945 Hannes Jónsson form., Finnur B. Kristjánsson varaform., Aðalsteinn Tryggvason ritari, Hjalti Þorvarðarson gjaldk., Kjartan Sveinsson aðstoðargj.k.

1946 Hjalti Þorvarðarson form., Siguroddur Magnússon varaform., Árni Brynjólfsson ritari, Eiríkur Þorleifsson gjaldk., Þorsteinn Sveinsson aðstoðargj.k.

1947 Siguroddur Magnússon form., Árni Brynjólfsson varaform., Óskar K. Hallgrímsson ritari, Eiríkur Þorleifsson gjaldk., Kristján Sigurðsson aðstoðargj.k.

1948 Siguroddur Magnússon form., Árni Brynjólfsson varaform., Óskar K. Hallgrímsson ritari, Eiríkur Magnússon gjaldk., Þorsteinn Sveinsson aðstoðargj.k.

1949 Óskar K. Hallgrímsson form., Ingvar Jón Guðjónsson varaform., Kristján Sigurðsson ritari, Gísli Ingibergsson gjaldk., Guðjón Eymundsson aðstoðargj.k.

1950 Óskar K. Hallgrímsson form., Ragnar Stefánsson varaform., Óskar Jensen ritari, Kristján Sigurðsson gjaldk., Guðmundur Jónsson aðstoðargj.k.

1951 Óskar K. Hallgrímsson form., Ragnar Stefánsson varaform., Magnús Kristjánsson ritari, Kristján Sigurðsson gjaldkeri, Guðmundur Jónsson aðstoðargj.k.

1952 Óskar K. Hallgrímsson form., Kristján Sigurðsson varaform., Árni Örnólfsson ritari, Guðmundur Jónsson gjaldkeri, Þorsteinn Sveinsson aðstoðargj.k.

1953 Óskar K. Hallgrímsson form., Þorvaldur Gröndal varaform., Gunnar Guðmundsson ritari, Kristján Benediktsson gjaldkeri, Páll J. Pálsson aðstoðargj.k.

1954 Óskar K. Hallgrímsson form., Þorvaldur Gröndal varaform., Gunnar Guðmundsson ritari, Kristján Sigurðsson gjaldkeri, Guðmundur Jónsson aðstoðargj.k.

1955 Óskar K. Hallgrímsson form., Páll J. Pálsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Jónas Guðlaugsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn.

1956 Óskar K. Hallgrímsson form., Páll J. Pálsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Jónas Guðlaugsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn.

1957 Óskar K. Hallgrímsson form., Páll J. Pálsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristján Benediktsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Auðunn Bergsveinsson varamenn.

1958 Óskar K. Hallgrímsson form., Auðunn Bergsveinsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristinn K. Ólafsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn.

1959 Óskar K. Hallgrímsson form., Auðunn Bergsveinsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristinn K. Ólafsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Kristján Benediktsson varamenn.

1960 Óskar Hallgrímsson form., Auðunn Bergsveinsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Kristinn K. Ólafsson aðstoðargjaldk., Sigurður Sigurjónsson og Pétur J. Árnason varamenn.

1961 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Pétur J. Árnason gjaldk., Sigurður Sigurjónsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn.

1962 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sveinn V. Lýðsson ritari, Pétur J. Árnason gjaldk., Sigurður Sigurjónsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn.

1963 Óskar K. Hallgrímsson form., Pétur K. Árnason varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn.

1964 Óskar K. Hallgrímsson form., Pétur K. Árnason varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Magnús K. Geirsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristinn K. Ólafsson og Kristján J. Bjarnason varamenn.

1965 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Kristinn K. Ólafsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Jón Á. Hjörleifsson varamenn.

1966 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Kristinn K. Ólafsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Jón Á. Hjörleifsson varamenn.

1967 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Kristinn K. Ólafsson gjaldk., Sveinn V. Lýðsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Jón Á. Hjörleifsson varamenn.

1968 Óskar K. Hallgrímsson form., Magnús K. Geirsson varaform., Sigurður Sigurjónsson ritari, Bjarni Sigfússon gjaldk., Jón Á. Hjörleifsson aðstoðargjaldk., Kristján J. Bjarnason og Gunnar Bachmann varamenn.

1969 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jón Steinþórsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Jón Á. Hjörleifsson meðstj., Gunnar Bachmann og Úlfar Þorláksson varamenn.

1970 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jón Steinþórsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Jón Á. Hjörleifsson meðstj., Gunnar Bachmann og Úlfar Þorláksson varamenn.

1971 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jón Steinþórsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Gunnar Bachmann meðstj., Lárus Sigurðsson og Ólafur Júníusson varamenn.

1972 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Gunnar Bachmann meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn.

1973 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn.

1974 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn.

1975 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn.

1976 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Jóhannes Bjarni Jónsson ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Lárus Sigurðsson og Eyþór Steinsson varamenn.

1977 Magnús K. Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Einar S. Bjarnason ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldk., Guðmundur Gunnarsson meðstj., Eyþór Steinsson og Jón Ólafsson yngri varamenn.

1978 Magnús Geirsson form., Bjarni Sigfússon varaform., Einar S. Bjarnason ritari, Sigurður Hallvarðsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1979 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Einar S. Bjarnason gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1980 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1981 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1982 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1983 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1984 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1985 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1986 Magnús Geirsson form., Sigurður Hallvarðsson varaform., Bjarni Sigfússon ritari, Svavar Guðbrandsson gjaldkeri, Eyþór Steinsson meðstj., Jón Ólafsson yngri og Magnús Guðjónsson varamenn.

1987 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldk., Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn.

1988 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldk., Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn.

1989 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldk., Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn.

1990 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Sigurður Svavarsson varamenn.

1991 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Þór Ottesen varamenn

1992 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Þór Ottesen varamenn

1993 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Björn Ágúst Sigurjónsson ritari, Rúnar Bachmann gjaldkeri, Einar B. Sigurgeirsson meðstj., Halldór Ólafsson og Þór Ottesen varamenn

1994 Guðmundur Gunnarsson form., Haraldur Jónsson varaform., Þór Ottesen ritari Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Halldór I. Hansson og Ísleifur Tómasson varamenn.

1995 Haraldur Jónsson form., Guðmundur Gunnarsson varaform., Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Halldór I. Hansson og Ísleifur Tómasson varamenn.

1996 Haraldur Jónsson form., Guðmundur Gunnarsson varaform., Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Halldór I. Hansson og Ísleifur Tómasson varamenn.

1997 Haraldur Jónsson form. Guðmundur Gunarsson varaform. Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Ísleifur Tómasson meðstj. og Stefán Sveinsson meðstj.

1998 Haraldur Jónsson form. Guðmundur Gunarsson varaform. Þór Ottesen ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Jón Þór Kristmannsson meðstj., Ísleifur Tómasson meðstj. og Stefán Sveinsson meðstj.

1999 Haraldur Jónsson form. Stefán Sveinsson varaform. Jón Þór Kristmannsson ritari, Björn Ágúst Sigurjónsson gjaldkeri, Sigurður Sigurðsson meðstj., Ísleifur Tómasson meðstj. og Helgi Helgason meðstj.