Siðareglur stjórnar og trúnaðarráðs Félags íslenskra rafvirkja

 

Almennt um störf fyrir félagið

Gr 1 Ávallt skal gæta að gagnkvæmri virðingu í öllum störfum fyrir FÍR. Tjáningar- og skoðanafrelsi skal virt.

Gr 2 Hagur félagsmanna skal vera að leiðarljósi í öllu því starfi sem stjórn og trúnaðarráð vinnur.

Gr 3 Skýr aðgreining skal vera með þeim hætti að komið sé í veg fyrir að sami aðili taki á móti reikningum, færi þá inn og greiði þá. Til staðar skal vera sérstakt fyrirkomulag sem kemur í veg fyrir að slíkt eigi sér stað.

Gr 4 Stjórn og trúnaðarráði ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að verða áskynja í störfum sínum og leynt á að fara. 

Gr 5 Ferðir innanlands sem og utanlands, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í rekstraráætlun, verður stjórn félagsins að samþykkja sérstaklega. Að öðrum kosti greiðir félagið ekki fyrir slíka ferð né dagpeninga.

Gr 6 Stjórn tryggir að allar upplýsingar til félagsmanna og annarra sem til félagsins leita séu réttar og að upplýsingar til þeirra gefi sanna og trúverðuga mynd af þjónustu og aðstöðu félagsins.

Kosningar til stjórnar og trúnaðarráðs

Gr 7 Frambjóðendur skulu kynna sín framboð á eigin forsendum, ekki er heimilt að nýta stöðu innan félagsins sér til framdráttar í kosningabaráttu. 

Gr 8 Ekki er heimilt að fá neinar upplýsingar frá RSÍ frá því að framboð liggja fyrir. Allar upplýsingar til frambjóðenda skulu koma frá kjörstjórn og einungis er heimilt að nýta þær upplýsingar er lög FÍR gera ráð fyrir að frambjóðendum bjóðist.

Gr 9 Kosningaáróður skal ekki viðhafast í störfum fyrir FÍR eða RSÍ, hvort sem um er að ræða félagsfundi, vinnustaðaeftirlit eða önnur störf. Einungis er heimilt að kynna framboð í gegnum félagið á þar til gerðum svæðum eða fundum á vegum félagsins þar sem allir frambjóðendur standa jafnvígis.

Gr 10 Að nýta trúnaðarupplýsingar frá RSÍ eða FÍR til eigin framdráttar í kosningum telst sem alvarlegt brot á þessum siðareglum. Síendurtekin brot skal einnig álíta sem alvarleg brot á þessum siðareglum.