Verkfallsboðun hjá Norðuráli
Í dag var Samtökum atvinnulífsins sem og fulltrúum Norðuráls afhent með formlegum hætti verkfallsboðun félagsmanna í Félagi íslenskra rafvirkja og Félagi tæknifólks í rafiðnaði. Félagsmenn félaganna samþykktu með meirihluta greiddra atkvæða að boðað yrði til allsherjarvinnustöðvunar frá kl. 12:00 þann 8. desember næstkomandi.
Það er ljóst að gríðarlega mikilvægt verður að ná samningum fyrir þann tíma en takist það ekki þá hefst niðurkeyrsla verksmiðjunnar í byrjun desember. Niðurkeyrsla mun hefjast þann 1. desember vegna verkfallsboðunar VR og Vlfa en viku síðar bætist verkfallsboðun aðildarfélaga RSÍ við í baráttuna. Þess ber að geta að samkvæmt ákvæði kjarasamningsins þá ber að taka eitt ker úr rekstri á hverjum sólarhring fyrstu þrjá mánuðina en síðan 2 ker á sólarhring næstu þrjá mánuði. Þetta ferli mun haldast gangandi þar til samningsaðilar hafa allir náð samkomulagi.
Niðurstöður atkvæðagreiðslna voru eftirfarandi:
Félag íslenskra rafvirkja:
Á kjörskrá voru 26 og greiddu 17 atkvæði eða 65,4%.
Já sögðu 9 eða 52,9%
Nei sögðu 8 eða 47,1%
Boðun verkfalls telst því samþykkt
Félag tæknifólks í rafiðnaði:
Á kjörskrá voru 5 og greiddu 3 atkvæði eða 66,7%.
Já sögðu 2 eða 66,7%
Nei sögðu 1 eða 33,3%
Boðun verkfalls telst því samþykkt