Á myndinni eru, talið frá vinstri, Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri SART, Pétur H.  Halldórsson, formaður FLR og varaformaður SART, Hlynur Gíslason, sveinn í rafvirkjun, Margrét Arnarsdóttir, formaður FÍR og varaformaður RSÍ, Jón Ólafur Halldórsson formaður sveinsprófsnefndar, og Kristján Þ. Snæbjörnsson, formaður RSÍ.

Hlynur Gíslason náði þeim árangri í febrúar síðastliðnum að vera yngsti próftaki sem náð hefur sveinsprófi í rafvirkjun, þá 18 ára.  

Hlynur fékk viðurkenningu frá Samtökum rafverktaka og Félagi Íslenskra rafvirkja í samstarfi við Johan Rönning. 

 

Lesa mátti skemmtilegt viðtal við Hlyn í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að Hlynur hafi í desember síðastliðnum brautskráðst af rafvirkjabraut og sem stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þá hlaut hann viðurkenningu fyrir bestan árangur á rafvirkjabraut auk þess sem hann fékk viðurkenningu fyrir árangur sinn í dönsku og spænsku. Hlynur lauk síðan sveinsprófinu í febrúar síðastliðnum, þá á nemasamningi hjá Veitum. Þegar hann er spurður í Morgunblaðinu hvers vegna hann hafi valið rafvirkjanámið segir hann: „Þetta er hagnýtt nám og praktískt sem maður getur notað alls staðar. Það er hagnýt menntun og mjög nýtanleg.“